Inngangur

Hugtökin geðröskun, geðveiki og geðsjúkdómur eru gjarnan notuð á víxl og engin ein viðurkennd skilgreining er til á hvað þessi hugtök þýða. Í raun er ekki til vísindaleg skilgreining á hugtakinu geðröskun sem fullkomin sátt ríkir um. Hugtök eins og þunglyndi, geðhvarfasýki, kvíðaröskun eða mótþróaröskun eru dæmi um vel skilgreindar og viðurkenndar geðraskanir. Þessar skilgreiningar eiga þó stundum lítið sameiginlegt þegar kemur að einkennum eða orsökum. Þetta þýðir að í raun er ekki hægt að finna algilda eða einfalda skilgreiningu á orðinu geðröskun.

Fólk með geðraskanir á þó ákveðin réttindi sem finna má í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og í íslenskum lögum. Það getur því skipt miklu máli að skilja hvað geðraskanir eru og hvernig þær eru greindar.

Geðraskanir eru þess eðlis að sumir finna lítið fyrir þeim á meðan aðrir geta fundið fyrir margvíslegum erfiðleikum og vandamálum í daglegu lífi vegna þeirra. Sumar manneskjur með geðröskun eiga við svo fjölþættan vanda að stríða vegna hennar að hægt er að líta svo á að þær séu geðfatlaðar (Sjá skilgreiningu á geðfötluðum hér).

Réttarstaða fólks með geðraskanir og réttur þeirra til stuðnings og þjónustu af hálfu ríkisins og sveitafélaga fer að miklu leyti eftir hvort um geðfötlun er að ræða eða ekki. Fólk með geðfötlun á rétt á þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra og öðrum lögum sem taka aðeins til fatlaðs fólks.  Fólk sem greint hefur verið með geðröskun en ekki geðfötlun á líka rétt á þjónustu og stuðningi frá hinu opinbera. Þau réttindi er hins vegar almennt ekki að finna í lögum um fatlaða.

Á því er þó ein undantekning: Fólk með geðraskanir sem hafa staðið lengi yfir og þarfnast stuðnings til að undirbúa upplýsta ákvörðun um persónuleg málefni, eða í samskiptum sínum við opinberar stofnanir eða í viðskiptum við aðra – á rétt á persónulegum talsmanni samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk (sjá nánar í réttindum fólks með geðraskanir).[1]

Skilgreining á geðröskun í íslenskum lögum

Í íslenskum lögum er engin sérstök skilgreining á geðröskun. Velferðarráðuneytið hefur þó gefið út skýrslu þar sem hugtakið er skilgreint. Í skýrslunni segir að einstaklingur teljist vera með geðröskun ef hann:

„[…]búi við andlega líðan eða ástand sem skerðir möguleika hans til lífsgæða, tilfinningalegra og/eða félagslegra samskipta, þátttöku í námi eða starfi eða virkni í samfélaginu að öðru leyti.“[2]

Velferðarráðuneytið bendir á að mörkin á milli þess að búa við góða geðheilsu og að búa við geðröskun geta þó oft verið óljós og/eða breytileg. Oft getur til að mynda verið erfitt að segja til um hvort manneskja sem upplifir mikla depurð búi við geðröskun eða hvort depurðin eigi sér aðrar skýringar í umhverfi eða aðstæðum manneskjunnar eins og til dæmis missir ástvinar eða sambandsslit. Þá kemur til skoðunar hversu lengi depurðin varir og hversu alvarlegar afleiðingar hún hafi á líf fólks; hvort hún teljist eðlileg depurð vegna aðstæðna eða sé skilgreind sem læknisfræðilegt þunglyndi.

Geðheilsan er á rófi

Samkvæmt evrópsku hagsmunasamtökunum um geðheilsu, Mental Health Europe (MHE), er ekki hægt að finna eina algilda skilgreiningu á geðheilbrigði.

Samtökin líta svo á að afmörkun hugtaksins „geðheilbrigði” sé breytileg eftir ólíkum menningarlegum þáttum, fræðilegum viðhorfum og félagslegum aðstæðum víðsvegar um heiminn. Samanburðarrannsóknir milli ólíkra menningarheima sýna að greiningar og skilgreiningar á geðröskunum og geðheilsu eru ekki sambærilegar milli landa.

Því telur MHE að skilgreina eigi geðheilbrigði og geðröskun sem ákveðna punkta á rófi (eða skala). Til þess þarf að skoða þessi hugtök með þessum margvíslegu menningarlegu, fræðilegu og félagslegu þáttum í huga.

Skilgreiningin í skýrslu velferðarráðuneytisins á geðröskun tekur ákveðið mið af þessari sýn MHE. Ráðuneytið mótar skilgreiningu sína út frá því hvernig Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreinir heilbrigði og geðheilbrigði almennt. Út frá skilgreiningunni á geðheilsu er talið að ráða megi í hvað felist í geðröskun. Ráðuneytið setur þó þann fyrirvara að mörkin á milli þess að vera við góða geðheilsu og að vera með geðröskun séu ekki mjög skýr. Ráðuneytið lítur svo á að geðröskun sé fljótandi hugtak; lýsi breytilegu ástandi sem ekki sé hægt að skilgreina fyllilega.

Fyrsta skrefið er að skoða almenna skilgreiningu á geðheilbrigði eða geðheilsu og skoða hugtakið geðröskunum út frá því.

Skilgreiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á heilbrigði og geðheilbrigði

Skilgreiningar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á hugtökunum heilbrigði og geðheilbrigði eru góður byrjunarreitur til þess að skilja betur hugtakarófið sem evrópsku hagsmunasamtökin um geðheilsu (MHE) vísa til.

Almennt heilbrigði einstaklinga – samkvæmt WHO – felst í því að:

 • Að búa við almenna vellíðan:
  • líkamlega
  • andlega
  • félagslega
 • Að vera laus við sjúkdóma eða hrumleika

Geðheilbrigði einstaklinga – samkvæmt WHO – felst í að:[3]

 • Að búa við vellíðan
 • Að vera fær um að nýta vel hæfileika sína
 • Að geta tekist á við eðlilegt álag í lífi sínu
 • Að vera fær um að sýna af sér viðhlítandi afköst og árangur við vinnu
 • Að geta lagt sitt af mörkum til samfélagsins
 • Að vera laus við geðraskanir

WHO tekur sérstaklega fram að margs konar félagslegir, geðrænir og líffræðilegir þættir hafi áhrif á geðheilsu fólks.

Með félagslegum aðstæðum er átt við samfélagslegar aðstæður einstaklinga. Fólk sem býr við fátækt er líklegra til að búa við verri geðheilsu en þeir sem betur standa fjárhagslega. Aðrir félagslegir þættir geta líka haft alvarlegar afleiðingar fyrir geðheilsu fólks. Fólk sem hefur upplifað áföll, mismunun eða önnur mannréttindabrot er líklegra til að eiga við geðræn vandamál að stríða en aðrir. Að hafa orðið fyrir ofbeldi getur líka haft mjög skaðleg áhrif á geðheilsu fólks. Óheilbrigt líferni, líkamlegir sjúkdómar og aðrir kvillar valda líka gjarnan geðrænum vandamálum.

Með geðrænum áhrifavöldum er átt við að einstaklingar með vissa geðræna eiginleika og persónuleika eru líklegri til að kljást við geðraskanir heldur en aðrir.

Sumar geðraskanir og/eða geðfatlanir má síðan rekja til líffræðilegra þátta. Stundum er um erfðafræðilega sjúkdóma að ræða sem hafa áhrif á efnastarfsemi heilans.

Út frá þessu má segja að „orsakir geðraskana búi ekki einungis innra með fólki. Umhverfi þess, persónubundnar ytri kringumstæður og almennar félagslegar aðstæður eru ótvírætt einnig meðal orsakavalda.“ Samspil þessarra þátta getur oft haft mikil áhrif á hvernig geðraskanir þróast hjá einstaklingum og geta jafnvel orðið til þess að geðröskun þróast með tímanum í geðfötlun.

Það fer síðan eftir eðli og þunga þessara þátta hvers konar þjónusta og stuðningur er í boði innan samfélagsins. Sérfræðingar eins og læknar, sálfræðingar og félagsráðgjafar meta þessa þætti og hefur mat þeirra oft úrslitaáhrif á réttindi og þjónustuframboð til viðkomandi einstaklings. Þess vegna er gott að skoða hvers konar verkfæri sérfræðingarnir nota við mat sitt á geðheilsu einstaklinga.

Verkfæri sérfræðinganna

Þó almennt sé ekki hægt að finna eina algilda skilgreiningu á hugtakinu geðröskun eins og áður hefur verið minnst á, má finna býsna ítarlegar skilgreiningar á geðröskunum. Sem dæmi er hægt að nefna að til eru ítarlegar lýsingar og skilgreiningar á geðröskunum eins og áfallastreituröskun, klínísku þunglyndi og geðklofasýki. Skipt getur sköpum fyrir geðheilsu hvers og eins að fá rétta greiningu hjá sérfræðingum. Sömuleiðis getur greining skipt miklu máli fyrir þau réttindi og þjónustu sem einstaklingurinn á rétt á.

Greiningar á geðröskunum fara fram á heilsugæslustöðvum, á sálfræðistofum, á spítölum og hjá geðlæknum. Á Íslandi notast geðheilbrigðissérfræðingar meðal annars við tvo staðlaða gagnagrunna til að greina geðraskanir. Annar þeirra er frá Bandaríkjunum og er kallaður DSM V en hinn heitir ICD-10 og er evrópskur gagnagrunnur. Auk þessara gagnagrunna notast geðheilbrigðisstarfsfólk Landsspítalans við svokallaðar klínískar leiðbeiningar við greiningar sínar.

Hér eru hlekkir að þeim klínísku leiðbeiningum sem Landlæknir hefur gefið út fyrir starfsfólk Landsspítalans:

 Heimildir

[1] Lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Í fyrstu grein, öðrum málslið stendur: „Ákvæði IV. kafla [lög um talsmenn fatlaðra] gilda einnig um réttindagæslu einstaklinga sem vegna afleiðinga viðvarandi sjúkdóms eða slyss þurfa stuðning við undirbúning upplýstrar ákvörðunar um persónuleg málefni eða aðstoð við að leita réttar síns hvort sem er gagnvart opinberum þjónustuaðilum, öðrum stjórnvöldum eða einkaaðilum.“

[2] Þjónusta við geðfatlað fólk – Stefna og framkvæmdaáætlun vegna átaks félagsmálaráðuneytisins 2006-2010, Félagsmálaráðuneytið, október 2006. Bls. 26. Slóð: https://www.velferdarraduneyti.is/media/gedfatladir/Thjonusta_gedfatladir_neww_st.pdf (sótt 23.05.2016).

[3] Mental health: strengthening our response – Factsheet, Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO), apríl 2016. Slóð: http://www.who.int/mediacentre/factsheets/fs220/en/ (sótt 23.05.2016).

 • Var þetta efni ganglegt ?
 • Já!   Nei
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan.