FÓLK MEÐ GEÐRASKANIR
Í raun er ekki til vísindaleg skilgreining á orðinu geðröskun sem fullkomin sátt ríkir um. Í skýrslu Velferðarráðuneytisins segir að einstaklingur teljist vera með geðröskun ef hann býr við andlega líðan eða ástand sem skerðir möguleika hans til lífsgæða, tilfinningalegra og/eða félagslegra samskipta, þátttöku í námi eða starfi eða virkni í samfélaginu að öðru leyti. Hugtök eins og þunglyndi, geðhvörf, kvíðaröskun eða mótþróaröskun eru dæmi um vel skilgreindar og viðurkenndar geðraskanir.
GEÐFATLAÐIR EINSTAKLINGAR
Manneskja með geðfötlun er manneskja með geðröskun eða geðraskanir sem valda því að hún þarf talsverðan stuðning til þess að geta tekið fullan þátt í samfélaginu. Geðröskunin er því þess eðlis að hún telst til fötlunar.
BÖRN MEÐ GEÐRASKANIR OG GEÐFATLANIR
Helsti munurinn á börnum með geðraskanir og geðfötlun og fullorðnu fólki með geðraskanir og geðfötlun er staða þeirra gagnvart lögum. Um réttindi barna gildir til dæmis Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sem veitir börnum sérstaka vernd og réttindi. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er sömuleiðis með sérstök ákvæði um réttindi fatlaðra barna. Geðfötluð börn og börn með geðraskanir eiga rétt á margvíslegri þjónustu.
LÖGRÆÐISSVIPTIR EINSTAKLINGAR
Lögræðissvipt manneskja hefur orðið fyrir því að dómari hefur ákveðið að svipta hana réttinum til þess að taka sjálfstæðar ákvarðanir í eigin lífi. Lögræðissviptingar eru notaðar þegar fólk á mjög erfitt með að taka rökréttar ákvarðanir í sínu lífi. Dómari skipar svokallaðan lögráðamann til þess að taka ákvarðanir fyrir lögræðissviptu manneskjuna þangað til hún fær lögræðið sitt aftur.
NAUÐUNGARVISTAÐIR EINSTAKLINGAR
Nauðungarvistun þýðir að manneskja er vistuð á stofnun eða á spítala gegn vilja sínum til þess að fá meðferð við alvarlegum geðrænum veikindum. Nauðungarvistað fólk getur verið fólk með geðraskanir eða geðfötlun. Stundum kemur fyrir að fólk sé nauðungarvistað vegna annarra sjúkdóma út af öðrum sjúkdómum sem valda einkennum líkt og um alvarlega geðröskun væri að ræða.
ÓSAKHÆFIR BROTAMENN
Almennt er hugtakið ósakhæfir brotamenn notað yfir manneskju sem fremur glæp en getur ekki talist ábyrg gjörða sinna af því að hún var mjög andlega veik þegar glæpurinn var framinn.