Hvað er lögræði?

Á Íslandi verða börn lögráða á 18 ára afmælinu sínu. Að vera lögráða þýðir í raun að mega ráða sér sjálfur. Þegar barn verður lögráða hættir barnið að vera barn í augum laganna og verður fullorðinn einstaklingur. Lögræði felur í sér réttinn til að ráða hvar einstakingurinn býr, með hverjum og í hvað hann eyðir peningunum sínum. Með sama hætti felur lögræði í sér skyldur eins og að borga skatta og leigu af húsnæði, vilji einstaklinngurinn flytja að heiman. Einna helst felur það í sér skyldu að bera ábyrgð á gjörðum sínum.

Lögræði er raunar heiti yfir tvö önnur hugtök: Fjárræði og sjálfræði. Lögráða manneskja er bæði með fjárræði og sjálfræði.

Fjárræði felur í sér réttinn til þess að ráðstafa peningunum sínum og öðrum eignum. Fjárræði felur í sér réttinn að sækja um lán, skrifa undir leigusamning og gangast undir aðrar fjárhagslegar skuldbindingar. Fjárræði felur líka í sér skylduna að standa við sínar fjárhagslegu skuldbindingar, að borga leigu á réttum tíma, endurgreiða lán og svo framvegis.

Sjálfræði felur í sér réttinn til þess að ráða nokkurn veginn öllu öðru en peningum í sínu lífi. Fötunum sem einstaklingurinn klæðist, borginni sem hann vill búa í, fólkinu sem einstaklingurinn vill umgangast og matnum sem hann vill borða.

HVAÐ ER LÖGRÆÐISSVIPTING?

Undir vissum kringumstæðum getur dómari ákveðið að svipta manneskju lögræði í ákveðinn tíma. Þessa heimild dómara er að finna í lögræðislögum. Skilyrðin fyrir lögræðissviptingu eru meðal annars þau að manneskjan sé ekki talin fær um að ráða sér sjálf vegna fötlunar eða veikinda.

Skilyrðin fyrir lögræðissviptingu er að finna í 4. grein lögræðislaganna. Þar stendur:

Skilyrði lögræðissviptingar o.fl.

 1. Standi brýn þörf til, enda hafi önnur og vægari úrræði í formi aðstoðar verið fullreynd, er heimilt með úrskurði dómara að svipta mann tímabundið lögræði. Heimilt er að svipta mann sjálfræði einu sér, fjárræði einu sér eða hvoru tveggja:
 2. Ef hann er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna andlegs vanþroska, ellisljóleika eða geðsjúkdóms eða vegna annars konar alvarlegs heilsubrests.
 3. Ef hann sökum ofdrykkju eða ofnotkunar ávana- og fíkniefna er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé og einhver þeirra ástæðna sem tilgreindar eru í a- og c-lið eiga við um viðkomandi.
 4. Ef hann vegna líkamlegs vanþroska, heilsubrests eða annarra vanheilinda á óhægt með að ráða persónulegum högum sínum eða fé og æskir sjálfur lögræðissviptingar af þeim sökum.

 

Lögin virka þannig að fólk með geðraskanir og geðfötlun er líklegra að verða fyrir lögræðissviptingu heldur en aðrir sem eru veikir eða fatlaðir á annan hátt. Almennt má segja að lögræðislögin á Íslandi, eins og þau standa í dag mismuni fötluðum og þá sérstaklega geðfötluðum. Slík mismunun stangast á við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem og aðrar alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar íslenska ríkisins.

Sjálfræðissvipting og fjárræðissvipting

Lögin leyfa dómurum að svipta fólk lögræði en þau leyfa líka að svipta fólk eingöngu sjálfræði eða eingöngu fjárræði. Almennt gilda sömu skilyrði fyrir sjálfræðissviptingu einni sér eða fjárræðissviptingu einni sér eins og fyrir lögræðissviptingu (sem er bæði fjárræðis- og sjálfræðissvipting).

Venjulega er fólk aðeins svipt sjálfræði ef dómari og læknir telja þörf á að vista manneskju með geðröskun eða geðfötlun í langan tíma á stofnun gegn vilja sínum (lengur en tvo mánuði).

Þegar dómari ákveður að svipta manneskju eingöngu fjárræði sínu er ástæðan venjulega sú að manneskjan hafi farið mjög óvarlega með peningana sína, jafnvel stofnað sér í miklar skuldir sem erfitt kann að vera að greiða til baka. Auk þess þarf manneskjan sem um ræðir að vera greind með geðröskun, geðfötlun eða aðra fötlun eða sjúkdóm sem veldur því að manneskjan geti ekki sinnt fjármálum sínum sem skyldi.

Lögformlegt hæfi og lögræðissvipting

Lögformlegt hæfi er lögfræðilegt hugtak sem notað er til að lýsa rétti fólks til að ráða eigin högum og stjórna sínu lífi. Lögformlegt hæfi felur í sér réttinn til að njóta viðurkenningar sem persóna sem nýtur réttinda til jafns við aðra. Að njóta lögformlegs hæfis felur í sér sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstæði hvers einstaklings gagnvart afskiptum eða yfirráðum yfirvalda og annarra. Allir einstaklingar eiga rétt á að njóta lögformlegs hæfis til jafns við aðra.

Rétt allra til lögformlegs hæfis má finna í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum eins og alþjóðasamningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og Mannréttindasáttmála Evrópu. Þrátt fyrir að þessir samningar feli í sér jafnan rétt allra til lögformlegs hæfis hafa yfirvöld víðsvegar um heim neitað fólki með geðraskanir og fólki með geðfötlun um þessi sjálfsögðu réttindi eða skert þau verulega.

Skerðing á lögformlegu hæfi fólks með geðröskun eða geðfötlun hefur gjarnan verið rökstudd á þann veg að vernda þurfi einstaklinginn frá sjálfum sér eða öðrum. Geta einstaklingsins til þess að taka ákvarðanir er dregin í efa og hann ekki talinn geta tekið upplýsta ákvörðun um hvað honum sé fyrir bestu. Eins hefur borið á því hryggilega viðhorfi að fatlað eða veikt fólk geti ekki vegna fötlunar eða veikinda sinna talist fullveðja aðilar að lögum. Á Íslandi er skerðing á lögformlegu hæfi oftast framkvæmd með því að svipta fólk lögræði, sjálfræði eða fjárræði.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks boðar breytta tíma

Grunnhugsun samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er sú að óleyfilegt sé að mismuna fötluðu fólki á grundvelli fötlunar þess: Fötlun má aldrei vera ástæða mismununar. Talin var þörf á að semja sérstakan samning um réttindi fatlaðs fólks því þrátt fyrir að fatlað fólk njóti mannréttinda til jafns við aðra hópa samfélagsins í orði þá er sú alls ekki raunin á borði. Fatlað fólk verður ítrekað fyrir grófum mannréttindabrotum, oft eingöngu á grundvelli fötlunar sinnar. Samningurinn skapar ekki ný mannréttindi heldur er honum ætlað að tryggja sérstaklega að fatlað fólk njóti sjálfsagðra mannréttinda til jafns við aðra. Í ákvæðum samningsins er útlistað á framsækinn og nákvæman hátt hvernig aðildarríkjum beri að tryggja í lögum og framkvæmd að mannréttindi fatlaðs fólks séu virt í hvívetna.

Með tilkomu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks voru tekin af öll tvímæli um að fatlað fólk njóti lögformlegs hæfis og þar með sjálfstæðis og sjálfsákvörðunarréttar til jafns við aðra. Eitt mikilvægasta ákvæði samningsins kveður á um jafna réttarstöðu fatlaðra einstaklinga og jafnan rétt þeirra til lögformlegs hæfis (sbr. 12. gr. samningsins). Samningurinn markar tímamót að því leyti að hann hafnar verndarsjónarmiðum og forræðishyggju gagnvart fötluðu fólki og krefst þess í stað valdeflingar og aukinnar þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu.

Aðildarríki samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks skuldbinda sig meðal annars til að bjóða þeim stuðning sem fötlunar sinnar vegna eiga erfiðara um vik með ákvarðanatöku en aðrir. Eins ber aðildarríkjum að leggja niður lög sem heimila öðrum (t.d. lögráðamönnum) að taka ákvarðanir fyrir hönd fatlaðs fólks. Réttur fatlaðs fólks til stuðnings við ákvarðanatöku felur í sér grundvallarbreytingu á þeirri nálgun sem viðgengist hefur gagnvart sjálfsákvörðunarrétti fatlaðs fólks fram að samþykkt samningsins.

Réttur til lögformlegs hæfis í íslenskum lögum

Á Íslandi verða börn lögráða og þar með fullorðin 18 ára gömul (sjá 1. gr.  lögræðislaga nr. 71/1997). Það þýðir að fram til 18 ára aldurs eru börn á forræði forsjáraðila sinna.

Þegar barn verður 18 ára öðlast það lagalegan rétt til að taka alfarið eigin ákvarðanir. Teljist manneskja ekki geta tekið eigin ákvarðanir er lögformlegt hæfi hennar fjarlægt (lögræðissvipting, fjárræðis- eða sjálfsræðissvipting, nauðungarvistun eða þvinguð lyfjagjöf).

Aðeins dómari getur ákveðið að svipta manneskju lögræði og dómarinn ákveður einnig hver verður lögráðamaður út frá því sem hann telur vera viðkomandi einstaklingi fyrir bestu. Heimild dómara til þess að svipta einstakling lögræði er að finna í 4. gr. lögræðislaganna:

„Skilyrði lögræðissviptingar o.fl.
4. gr. [Standi brýn þörf til, enda hafi önnur og vægari úrræði í form i aðstoðar verið fullreynd, er heimilt með úrskurði dómara að svipta mann tímabundið lögræði. Heimilt er að svipta mann sjálfræði einu sér, fjárræði einu sér eða hvoru tveggja]:

  a. Ef hann er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna andlegs vanþroska, ellisljóleika eða geðsjúkdóms eða vegna annars konar alvarlegs heilsubrests. […]“

Hægt er að lesa eftirfarandi skilyrði fyrir lögræðissviptingu út úr 4. grein lögræðislaganna:

Heimilt er að svipta einstakling lögræði ef;

 1. Hann er ekki talinn fær um að taka ákvarðanir er varða persónulega hagi sína eða fé.

Dómara er í raun frjálst að meta færni einstaklinga til þess að taka ákvarðanir er varða persónulega hagi sína eða fé. Þó ber að geta þeirra sjónarmiða er fram koma í greinargerð frumvarps lögræðislaga frá 1997 en þar stendur:

„Ekki er nauðsynlegt að viðkomandi sé algjörlega ófær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé, en gera verður þá kröfu að um veruleg frávik frá eðlilegu ástandi sé að ræða.“

 1. Af völdum fötlunar.

Annað skilyrðið til lögræðissviptingar er vottorð læknis þess efnis að viðkomandi hafi greiningu fötlunar eða sjúkdóms sem jafna megi til fötlunar, sem valdi því að hann geti talist ófær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé. Greinargerð með frumvarpi lögræðislaganna frá árinu 1997 undirstrikar mikilvægi þess að læknisvottorð liggi fyrir dómara áður en úrskurðað sé vegna kröfu um lögræðissviptingu. Þar kemur fram að vottorð læknis um sjúkdómsgreiningu eða skerðingu einstaklingsins (sem fellur undir skilgreiningu á fötlun skv. í 1. grein samnings Sameinuðu þjóðanna í öllum tilvikum, miðað við orðalag 4. greinar), sé mikilvægasta sönnunargagnið við mat dómara á þörf fyrir lögræðissviptingu.

 1. Enda hafi önnur og vægari úrræði verið fullreynd.

Dómara er skylt að athuga hvort möguleikar þess einstaklings sem svipta á lögræði til að nýta sér vægari úrræði hafi verið kannaðir. Til dæmis ber að líta til þess hvort persónulegur talsmaður gæti aðstoðað viðkomandi við að ráða persónulegum högum sínum eða fé.

Með öðrum orðum má segja að meti dómari sem svo, að fengnu mati frá lækni, að ef fötlun einstaklings valdi því að hann hafi skerta getu til ákvarðanatöku sé það tilefni til lögræðissviptingar enda standi úrræði sem geri honum kleift að njóta réttinda sinna til jafns við aðra ekki til boða.

Af ofangreindu má sjá að fatlað fólk (í skilningi skilgreiningar samnings Sameinuðu þjóðanna) er í miklum meirihluta eða eini mögulegi hópur fólks sem hægt er að svipta lögræði samkvæmt 4. gr. lögræðislaga. Ef svo er, þá uppfyllir núverandi orðalag 4. gr. lögræðislaga ekki kröfur 5. og 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um bann við mismunun á grundvelli fötlunar og jafnrar réttarstöðu fatlaðs fólks til lögformlegs hæfis.

Staðgengilsákvarðanataka

Réttur fatlaðs fólks til stuðnings við ákvarðanatöku felur í sér grundvallarbreytingu á þeirri nálgun sem viðgengist hefur gagnvart sjálfsákvörðunarrétti fatlaðs fólks fram að samþykkt samningsins. Sú skylda aðildaríkja að veita fötluðum einstaklingum stuðning til nýtingar gerhæfis í samræmi við vilja þeirra og gildismat leiðir af sér að kerfi sem takmarkar lögformlegt hæfi fatlaðra og virðir ekki vilja og gildismat hins fatlaða er í andstöðu við samninginn. Hér er sérstaklega átt við þau kerfi sem byggja á svokallaðri staðgengilsákvarðanatöku (e. substitute decision making).

Lögræðissvipting er dæmi um staðgengilsákvarðanatöku. Kerfi byggð á staðgengilsákvarðantöku fela í sér að aðila sem hefur verið sviptur lögformlegu hæfi er skipaðaður staðgengill fyrir ákvarðanatöku sína. Skipa má staðgengil án samþykkis og jafnvel gegn vilja hins svipta. Í lögræðislögum nr. 71/1991 er gert ráð fyrir þessu fyrirkomulagi.  Í 2. mgr. 52. gr. er talað um að „…yfirlögráðandi skal skipa hinum lögræðissvipta lögráðamann svo fljótt sem verða má.”

Skilgreina má kerfi byggð á staðgengilsákvarðanatöku sem kerfi þar sem:

 1. Einstaklingur er sviptur lögformlegu hæfi til að taka stórar ákvarðanir í eigin lífi (á við þó sviptingin nái aðeins til einnar afmarkaðrar ákvörðunar).
 1. Annar aðili en sá sem sviptingu sætir getur skipað staðgengil til ákvarðanatöku fyrir hönd hins svipta. Skipa má staðgengil án samþykkis og jafnvel gegn vilja hins svipta.
 1. Ákvarðanir þær sem staðgengill tekur eru byggðar á því sem staðgengill metur að sé hag hins svipta fyrir bestu en ekki sjálfstæðum vilja og gildismati hins svipta einstaklings.

Fjöldi ákvæða núgildandi lögræðislaga falla undir skilgreininguna á staðgengilsákvarðanatöku. Sérstaklega ber þar að nefna þau ákvæði laganna er varða lögræðissviptingu (4. – 6. gr.), skipun lögráðamanna (50. – 65. gr.) og ráðsmanna (33. – 50. gr.) og valdheimildir þeirra. Í stórum dráttum er lögræðissviptum einstaklingi skipaður lögráðamaður sem tekur ákvarðanir fyrir hans hönd og ráðstafar gerhæfi hans eftir því sem best er talið henta hag hans hverju sinni. Vilji hins lögræðissvipta er ekki tekinn til greina nema að mjög takmörkuðu leyti og sjálfsákvörðunarréttur hans er takmarkaður. Þannig gera lögræðislög t.d. ekki ráð fyrir að lögræðissviptur einstaklingur geti óskað eftir öðrum lögráðamanni en þeim sem honum hefur verið skipaður, án tillits til aðstæðna.

Stuðningur við ákvarðanatöku

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks felur í sér að aðildarríki verða að leggja niður staðgengilsákvörðunarkerfi og bjóða þess í stað upp á viðeigandi stuðning við ákvarðanatöku. Ljóst er að íslensk lög standast ekki þessa kröfu sáttmálans þó svo að nokkur jákvæð skref hafi verið tekin til að koma til móts við hana. Sem dæmi má nefna að markmið laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk nr. 88/2011 er að „…tryggja fötluðu fólki viðeigandi stuðning við gæslu réttinda sinna og tryggja að sjálfsákvörðunarréttur fatlaðs fólks sé virtur og fyllsta réttaröryggis gætt þegar brýna nauðsyn ber til að grípa inn í líf þess.”

Lögunum er ætlað að veita fólki með geðfötlun og aðra fötlun stuðning við ákvarðanatöku með því að heimila skipan svokallaðra persónulegra talsmanna fatlaðs fólks. Í greinargerð með lögunum er tekið fram að IV. kafli þar sem fjallað er um persónulega talsmenn hafi þann tilgang „…m.a. að koma á fyrirkomulagi til stuðnings við ákvarðanatöku í samræmi við ákvæði 12. gr. samningsins.“

Í þessu samhengi er þó vert að nefna að lögin uppfylla ekki lágmarksskilyrði 4. mgr. 12. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um nauðsynlegar verndarráðsstafanir fyrir stuðning við ákvarðanatöku. Persónulegir talsmenn fá ekki laun fyrir störf sín í þágu fatlaðra og því er ekki að sjá að að allir fatlaðir einstaklingar geti nýtt sér slíkan stuðning þar sem úrræðið er ekki aðgengilegt öllum fötluðum einstaklingum án tillits til fjárhags eða annarra haga viðkomandi.

Núgildandi lögræðislög þurfa að taka umtalsverðum breytingum til að tryggja betur réttindi fatlaðs fólks til lögformlegs hæfis. Lögin eins og þau eru orðuð nú, mismuna fötluðu fólki og eru ekki til þess bær að auka valdeflingu og sjálfstæði fatlaðra einstaklinga í íslensku samfélagi. Viss jákvæð skref hafa verið stigin með tilkomu réttindagæslumanna og persónulegra talsmanna fatlaðra á síðustu árum en efla þarf það stuðningsnet sem þessum aðilum er ætlað að mynda utan um réttindi fatlaðs fólks.

 

Réttur til sanngjarnrar málsmeðferðar

Aðgangur borgaranna að óháðum og sjálfstæðum dómstólum er einn mikilvægasti réttur okkar í lýðræðislegu samfélagi. Dómstólar skera úr um ágreiningsefni milli borgaranna og milli borgara og ríkis. Rétturinn til sanngjarnra réttarhalda er tvíþættur þar sem hann gerir greinarmun á sakamálaréttarhöldum og öðrum réttarhöldum. Strangari kröfur eru gerðar til yfirvalda í réttarhöldum vegna sakamála. Ástæðan er sú að sakamálaréttarhöld eru gjarnan forleikurinn að hörðustu viðurlögum sem yfirvöld geta beitt borgaranna: Frelsissviptingu.

Lögræðissviptingar falla ekki undir sakamálaréttarhöld, þrátt fyrir að afleiðing slíkra réttarhalda geti oft og tíðum valdið frelsissviptingu þeirra sem réttað er yfir. Sakamálalög eiga þó ekki við þar sem viðkomandi er ekki ásakaður um að hafa framið refsivert athæfi (glæp), heldur er frelsissviptingin réttlætt á þeim grunni að hún verndi einstaklinginn frá því að vinna sjálfum sér eða öðrum mein.

Þar til nýlega var almennt samþykkt að fatlað fólk, þá sérstaklega geðfatlað fólk, fengi aðra meðferð í réttarkerfinu heldur en ófatlað fólk. Algengast var að þessi mismunun fælist í því að geðfatlað fólk væri úrskurðað óhæft til að taka þátt í réttarhöldum eða ósakhæft vegna glæps sem það var sakað um að hafa framið.

Afleiðingin af þessari nálgun hefur verið að réttur fatlaðs fólks, fólks með geðröskun og fólks með geðfötlun, til sanngjarnra réttarhalda hefur löngum verið fótum troðinn. Fólki í þessum hópi hefur verið meinaður aðgangur að réttarsal og neitað um að bera vitni í málum sem það varðar. Alvarlegasta birtingarmynd þessarar mismununar er að fatlað fólk hefur ítrekað verið svipt frelsi sínu án þess að fá notið sanngjarnra réttarhalda. Tilkoma samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks veldur því að alþjóðastofnanir og yfirvöld um allan heim eru nú að endurskoða afstöðu sína og túlka réttinn til sanngjarnra réttarhalda á þann hátt að hann eigi einnig við um allt fatlað fólk.

Aðgengi að dómskerfinu

Réttur til sanngjarnra réttarhalda felur í sér þá grunnforsendu að borgararnir hafi aðgengi að dómskerfinu til að leita réttar síns og verja hagsmuni sína. Ekki er nóg að lög geri ráð fyrir því að fólk geti leitað réttar síns í gegnum dómstóla, aðgengi fólks að dómstólum verður að vera raunverulegt og raunhæft. Þannig mætti bág fjárhagsstaða til dæmis ekki koma í veg fyrir að einstaklingur geti leitað réttar síns. Yfirvöldum er því skylt að sjá til þess að fólk sem ekki hefur efni á að ráða sér lögmann fái til þess styrk eða að ríkið ráði lögmann fyrir þeirra hönd, í öllum flóknari lagalegum úrlausnarmálum þar sem aðstoð lögfræðings er nauðsynleg. Stundum er hægt að sækja um svokallaða gjafsókn í slíkum málum. Nánari upplýsingar um gjafsókn má nálgast á vef innanríkisráðuneytisins.

Málsaðilar fá að vera viðstaddir málsmeðferð

Meðal mikilvægustu þátta sanngjarnrar málsmeðferðar er að málsaðilar fái að vera viðstaddir málsmeðferðina og taka þátt í henni. Krafan um viðveru sakbornings í refsirétti er talsvert sterkari en krafan um viðveru málsaðila í einkamáli. Sakborningar eiga óskoraðan rétt á að vera viðstaddir réttarhöld gegn þeim til að geta varið sig gegn ásökunum ríkisins. Í einkamálum er krafan um viðveru málsaðila sterkust í dómsmálum sem fjalla um framkomu, hegðun eða verknað málsaðila. Lögræðissviptingarmál eru dæmi um mál þar sem hegðun og framkoma málsaðila eru tekin fyrir og því ætti viðvera þeirra og þátttaka í réttarhöldum ávallt að vera tryggð.

Jafnræði milli málsaðila

Jafnræði milli málsaðila lýsir þeirri skyldu á hendur dómstólum að allir málsaðilar ákveðins dómsmáls verði að hafa raunhæfa möguleika á að standa fyrir máli sínu gagnvart dómstólnum. Dómarar verða að gæta jafnræðis og tryggja að aðstæður séu ekki með þeim hætti að halli á getu annars hvors aðilans til þess að koma sinni hlið málsins á framfæri. Útlendingur sem skilur ekki tungumál réttarhaldanna hefur ekki jafna möguleika á að taka þátt í réttarhöldum og standa fyrir máli sínu við dómstólinn ef honum væri ekki tryggður túlkur svo dæmi sé tekið.

Annar mikilvægur þáttur í skilyrðunum um jafnræði milli aðila er rétturinn til að kalla til vitni og leggja fram sönnunargögn, máli viðkomandi til stuðnings. Í flestum tilfellum gildir einnig sú regla að málsaðilar verða að hafa aðgang að öllum gögnum sem að mótherjinn leggur fram í réttarhöldunum.  Dómarar sem leyfa aðeins öðrum aðilanum að kalla til vitni eða leggja fram sönnunargögn virða ekki jafnræði málsaðila.

Sanngjörn réttarhöld og Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Samningur Sameinuðu þjóðanna inniheldur margvísleg ákvæði til að tryggja jafnt aðgengi fatlaðs fólks að réttlæti og sanngjörnum réttarhöldum. Meðal þeirra er 13. grein samningsins. Þar segir:

Aðgangur að réttarkerfinu.

 1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra, meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess og taka tilhlýðilegt tillit til aldurs viðkomandi, í því skyni að gera því kleift að gegna hlutverki sínu með virkum hætti sem beinir og óbeinir þátttakendur, þar með talið sem vitni, í öllum málarekstri, einnig á rannsóknarstigi og öðrum undirbúningsstigum.
 2. Í því skyni að greiða fyrir því að tryggja megi fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu skulu aðildarríkin stuðla að viðeigandi fræðslu og þjálfun fyrir þá sem starfa á sviði réttarvörslu, meðal annars lögreglumenn og starfsmenn fangelsa.

Samningurinn krefst þess að fatlað fólk njóti jafns aðgengis að réttarkerfinu og geti tekið þátt í því á virkan hátt. Í því felst meðal annars að bjóða upp á túlkaþjónustu fyrir einstaklinga sem tjá sig ekki á hefðbundinn hátt. Sömuleiðis ber yfirvöldum að tryggja viðeigandi þjálfun fyrir alla sem starfa í réttarkerfinu, eins og lögreglumenn, dómara og starfsmenn fangelsa til þess að auðvelda virka þátttöku og aðgang fatlaðs fólks að réttarkerfinu.

Sé þrettánda grein lesin í samhengi við fimmtu og tólftu grein samningsins er ljóst að samningurinn felur í sér umbyltingu þess hvernig réttindum og réttarvernd fatlaðs fólks, sérstaklega geðfatlaðs fólks, hefur verið háttað fram að þessu. Fimmta grein samningsins bannar mismunun á grundvelli fötlunar, tólfta grein tryggir jafna réttarstöðu fatlaðs fólks til jafns við aðra á meðan fjórtánda grein bannar frelsissviptingu á grundvelli fötlunar. Saman fela þessi ákvæði í sér skyldu yfirvalda til þess að afnema lögráðamannakerfið (sjá nánar: lögformlegt hæfi til jafns við aðra) og hætta alfarið nauðungarvistunum á grundvelli fötlunar (geðsjúkdóms).

Yfirvöld verða að sjá til að fatlað fólk hafi fullt aðgengi að réttarkerfinu, geti leitað réttar síns til jafns við aðra og sé ekki neitað um að bera vitni eða sækja mál til jafns við aðra í samfélaginu. Það þýðir að yfirvöld verða að tryggja fötluðu fólki sem þess þarfnast viðeigandi stuðning við ákvarðanatöku og stuðning til að taka virkan þátt í réttarkerfinu.

 

 

 

 • Var þetta efni ganglegt ?
 • Já!   Nei
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt