Hvað er nauðungarvistun?

Nauðungarvistun þýðir að manneskja er vistuð á stofnun eða á spítala gegn vilja sínum til þess að fá meðferð við alvarlegum geðrænum veikindum. Nauðungarvistað fólk getur verið fólk með geðraskanir eða geðfötlun. Stundum kemur fyrir að fólk sé nauðungarvistað vegna annarra sjúkdóma sem valda einkennum líkt og um alvarlega geðröskun væri að ræða.

Í íslenskum lögum (lögræðislögum) þarf læknir að komast að þeirri niðurstöðu að manneskjan sé með alvarlegan geðsjúkdóm; líkur séu á því að hún sé með alvarlegan geðsjúkdóm eða ástand hennar þannig að líkja megi því við alvarlegan geðsjúkdóm. Læknar sem taka ákvörðun um hvort nauðungarvista eigi ákveðna manneskju eða ekki eiga þó alltaf að meta hvort manneskjan sé hættuleg sjálfri sér eða öðrum. Ef manneskjan sem um ræðir er ekki talin hættuleg sjálfri sér eða öðrum á ekki að nauðungarvista hana.

Fólk sem er nauðungarvistað á alls konar réttindi og hefur rétt á ýmis konar þjónustu bæði samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og innlendum lögum.

Nauðungarvistaðir einstaklingar eru líka sjúklingar í skilningi laga um réttindi sjúklinga. Þeir búa samt ekki við sama frelsi og aðrir sjúklingar sem liggja á sjúkrahúsi með eigin samþykki.

Réttindi nauðungarvistaðra

Nauðungarvistun þýðir að manneskja er vistuð á stofnun eða á spítala gegn vilja sínum til þess að fá meðferð við alvarlegum geðrænum veikindum. Nauðungarvistað fólk getur verið fólk með geðraskanir eða geðfötlun. Stundum kemur fyrir að fólk sé nauðungarvistað vegna annarra sjúkdómasem valda einkennum líkt og um alvarlega geðröskun væri að ræða.

Í íslenskum lögum (lögræðislögum) þarf læknir að komast að þeirri niðurstöðu að manneskjan sé með alvarlegan geðsjúkdóm; líkur séu á því að hún sé með alvarlegan geðsjúkdóm eða ástand hennar þannig að líkja megi því við alvarlegan geðsjúkdóm. Læknar sem taka ákvörðun um hvort nauðungarvista eigi ákveðna manneskju eða ekki eiga þó alltaf að meta hvort manneskjan sé hættuleg sjálfri sér eða öðrum. Ef manneskjan sem um ræðir er ekki talin hættuleg sjálfri sér eða öðrum þá á ekki að nauðungarvista hana.

Fólk sem er nauðungarvistað á alls konar réttindi og hefur rétt á ýmis konar þjónustu bæði samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og innlendum lögum.

Nauðungarvistaðir einstaklingar eru líka sjúklingar í skilningi laga um réttindi sjúklinga. Þeir búa samt ekki við sama frelsi og aðrir sjúklingar sem liggja á sjúkrahúsi með eigin samþykki.

Nauðungarvistun í íslenskum lögum

Íslensk lög um nauðungarvistun standast ekki lágmarkskröfur þeirra alþjóðlegu mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Lögin, sem finna má í þriðja kafla lögræðislaga nr. 71/1997, mismuna fólki með geðsjúkdóma og tryggja ekki nógu vel réttindi þeirra einstaklinga sem vista á nauðuga. Sem dæmi má nefna að lögin eru alls ekki nógu skýr um réttindi þeirra sem verða fyrir kröfu um nauðungarvistun.  Lögræðislögin vernda ekki rétt nauðungarvistaðra til sanngjarnar málsmeðferðarrétt þeirra til frelsis sem og rétt þeirra til lögformlegs hæfis til jafns við aðra. Nánar verður farið yfir þessa ágalla lögræðislaganna í kaflanum um íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar gagnvart nauðungarvistuðum.

Fullgilding Alþingis á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks haustið 2016 þýðir að Alþingi verður einnig að breyta lögum um nauðungarvistun, þar sem samningurinn heimilar ekki nauðungarvistun einstaklinga í því formi sem finna má í lögræðislögunum. Lagabreytingar eru þó tímafrekar og verða ekki að veruleika nema með áhuga og vilja löggjafans. Þar af leiðir að ekki er hægt að segja fyrir um hvenær íslensk löggjöf mun breytast til samræmis við skuldbindingar Íslands. Næsti kafli fjallar því um málsmeðferð nauðungarvistunar samkvæmt íslenskum lögum eins og þau eru nú. Vert er að minnast á að hvatning og þrýstingur frá hagsmunaaðilum, fagfólki og samfélaginu öllu gagnvart Alþingi og ríkisstjórn, er líkleg til að flýta fyrir að gerðar séu nauðsynlegar breytingar á lögræðislögunum. Það er óskandi að kaflinn íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar gagnvart nauðungarvistuðum geti nýst í baráttu fyrir bættum lögum á Íslandi um meðferð þessara mála.

Ákvæði lögræðislaganna um nauðungarvistun er að finna í þriðja kafla laganna, nánar tiltekið 18. til 32. greinar þeirra. Kaflinn hefst á skilgreiningu á nauðungarvistun en þar kemur fram að með því„…er bæði átt við það þegar sjálfráða maður er færður nauðugur í sjúkrahús og haldið þar og þegar manni, sem dvalið hefur í sjúkrahúsi af fúsum og frjálsum vilja, er haldið þar nauðugum.“ Reglur um vistun sjálfræðissviptra einstaklinga er að finna í 58. og 59. grein lögræðislaganna (sjá nánar í kaflanum Nauðungarvistun sjálfræðissviptra einstaklinga).

Grunnskilyrði til nauðungarvistunar

Grunnskilyrði til nauðungarvistunar er að finna í 2. málsgrein 19. greinar lögræðislaga en þar kemur fram að læknir geti ákveðið að sjálfráða maður skuli vistaður nauðugur á sjúkrahúsi í allt að 72 klukkustundir (þrjá sólarhringa) ef:

  • Hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi;
  • verulegar líkur eru taldar á því að hann sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi;
  • ástandi hans sé þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms;
  • ef hann á við alvarlega áfengisfíkn að stríða;
  • ef hann á við ofnautn ávana- og fíkniefna að stríða

Lögræðislögin tilgreina ekki nákvæmlega hvers konar sérgreinalæknir geti tekið ákvörðun um nauðungarvistun. Það má því gera ráð fyrir að heimilislæknir viðkomandi einstaklings eða geðlæknir geti tekið ákvörðun um nauðungarvistun. Lögin taka þó sérstaklega fram ef ákvörðun um nauðungarvistun er tekin á sjúkrahúsi af vakthafandi sjúkrahúslækni verði sá læknir að bera ákvörðun sína undir yfirlækni eða staðgengil yfirlæknis til samþykktar eins fljótt og verða megi.

Til þess að nauðungarvistun geti farið fram verður alltaf að kalla til lækni á vettvang til að meta aðstæður. Læknirinn getur kallað á lögreglumenn til þess að aðstoða sig við að flytja einstakling sem vista á nauðugan á sjúkrahús og lögreglunni er skylt að verða við slíkri beiðni læknis (4. málsgrein 19. greinar lögræðislaga). Hér er þó vert að taka fram að lögreglunni ber að fylgja lögum og hún má ekki svipta fólk frelsi að óþörfu. Lögreglunni ber því að fullvissa sig um að skilyrði til nauðungarvistunar séu vissulega fyrir hendi og að læknirinn hafi heimild til að fyrirskipa slíkt. Skylda lögreglunnar til að tryggja að farið sé að lögum í málum sem þessum er ekki útlistuð í lögræðislögunum sjálfum en hana má álykta út frá lögreglulögum.

Lögræðislögin taka það sérstaklega fram að læknar eiga að leitast eftir skoðun þess einstaklings sem vista á nauðugan um vistunina og nauðsyn hennar „ef unnt er.“ Af þessu má ráða að einstaklingurinn sem vista á nauðugan á sjúkrahúsi á alltaf rétt á að koma sjónarmiðum sínum um vistunina á framfæri við lækninn sem um ræðir og að lækninum beri að skrá hana hjá sér.

Málsmeðferð vegna nauðungarvistunar sem vara á lengur en 72 klukkustundir

Ef þess er óskað að nauðungarvistun standi yfir lengur en í 72 klukkustundir verður að bera málið undir sýslumann sem getur ákveðið að nauðungarvista eigi einstakling í allt að 21 sólarhring. Sýslumaður verður að uppfylla talsvert fleiri skilyrði til að ákveða nauðungarvistun í allt að 21 dag heldur en læknir þarf að uppfylla til þess að ákveða nauðungarvistun í 72 klukkutíma (3 sólarhringa), sbr. kafla um málsmeðferð hjá sýslumanni.

Lögræðislögin gera þannig ráð fyrir því að vista megi sjálfráða mann gegn vilja sínum á sjúkrahúsi til meðferðar ef grunnskilyrðin fyrir nauðungarvistun eru uppfyllt og nauðungarvistun „er óhjákvæmileg að mati læknis (3. málsgrein 19. greinar). Aðeins sérstaklega tilgreindir aðilar geta farið fram á nauðungarvistun og þeir verða að fylgja ýmsum formreglum til að fara fram á það við sýslumann að framkvæma nauðungarvistun.

Hverjir geta farið fram á nauðungarvistun einstaklings?

Í 20. grein lögræðislaga kemur fram að félagsþjónusta sveitafélagsins þar sem einstaklingurinn hefur búsetu hafi heimild til að leggja fram beiðni um nauðungarvistun ef talið er réttmætt að gera slíka kröfu. Til þess að krafan teljist réttmæt verður félagsþjónustan að hafa upplýsingar um nauðsyn nauðungarvistunar, til dæmis með því að fá beiðni um það frá vandamönnum einstaklingsins, lækni eða vini eða að ósk einstaklingsins sjálfs.

Form og efni beiðna til sýslumanns um nauðungarvistun

Í 21. grein lögræðislaga má finna upptalningu á þeim upplýsingum og gögnum sem koma verða fram í beiðni til sýslumanns vegna nauðungarvistunar. Þar kemur fram að beiðnin verði að vera skrifleg, beint til sýslumanns og almennt eigi hún að vera skrifuð á eyðublað sem sýslumaður gefur út í þeim tilgangi. Beiðnin verður að tilgreina eftirfarandi:

  • Nafn, kennitala og lögheimil þess sem fer fram á nauðungarvistun
  • Nafn, kennitala og lögheimili (og dvalarstaður ef hann er ekki sá sami og lögheimili) þess einstaklings sem vista á nauðugan
  • Ástæður fyrir beiðni um nauðungarvistun
  • Upplýsingar um í hvaða sjúkrahúsi og á hvaða deild vista á viðkomandi einstakling

Nauðsynlegt er að beiðni um nauðungarvistun fylgi læknisvottorð, sem alla jafna má ekki vera eldra en þriggja daga gamalt. Læknisvottorðið ætti einnig að vera í formi eyðublaðs sem gefið er út af sýslumanni og þar verða eftirfarandi atriði að koma fram:

  • Nafn, kennitala og lögheimili (og dvalarstaður ef hann er ekki sá sami og lögheimili) þess einstaklings sem vista á nauðugan.
  • Hvar og hvenær læknirinn sem gefur út vottorðið skoðaði einstaklinginn sem vista á nauðugan.
  • Lýsing læknisins á andlegu og líkamlegu ástandi einstaklingsins.
  • Sjúkdómsgreining læknis („ef unnt er“).
  • Afstaða einstaklingsins sem vista á nauðugan gagnvart vistuninni „eftir því sem við verður komið“.
  • Yfirlýsing læknisins um að hann meti sem svo að nauðungarvistun sé „óhjákvæmileg“.
  • Dagsetning læknisvottorðsins, undirskrift læknisins og læknanúmerið hans.

Málsmeðferð hjá sýslumanni

Sýslumanni er skylt að taka beiðni um nauðungarvistun til afgreiðslu um leið og hún berst. Í 22. grein lögræðislaga kemur fram að sýslumanni sé skylt að afla þeirra gagna sem hann telur nauðsynleg til að afgreiða beiðnina ef beiðnin sjálf og meðfylgjandi læknisvottorð þykja ekki nægjanleg til að taka ákvörðun um nauðsyn vistunar.

Meðal þeirra gagna sem sýslumaður getur aflað sér er álit svokallaðs trúnaðarlæknis sýslumanns sem vinnur á vegum sýslumannsembætta til þess að meta nauðsyn nauðungarvistunar. Trúnaðarlæknir sýslumanns hefur heimild til að kanna ástand einstaklingsins sem vista á nauðugan og til að kynna sér sjúkraskrá hans.

Lögræðislög taka sérstaklega fram að 13., 14. og 18. grein stjórnsýslulaga eigi ekki við um meðferð mála um nauðungarvistun. Stjórnsýslulög eru sérstök lög sem gilda um allar ákvarðanir sem stjórnvöld taka um réttindi og skyldur einstaklinga nema annað sé sérstaklega tekið fram í öðrum lögum. Þar sem lögræðislögin taka það sérstaklega fram að þessar greinar stjórnsýslulaga eigi ekki við um meðferð beiðna um nauðungarvistun þýðir að sýslumaður þarf ekki að fylgja þeim reglum þegar hann tekur ákvörðun um nauðungarvistun.

Í því felst að sýslumanni er ekki skylt:

  • Að tilkynna einstaklingnum sem beðið hefur verið um að skuli vera nauðungarvistaður um beiðnina eða meðferð málsins (14. grein stjórnsýslulaga)
  • Að gefa þeim sem vista á nauðugan kost á því að tjá sig um beiðnina um nauðungarvistun áður en ákvörðun er tekin (13. grein stjórnsýslulaga)
  • Að gefa þeim sem vista á nauðugan frest til þess að kynna sér þau gögn sem liggja fyrir hjá sýslumanni um ákvörðunina (18. grein stjórnsýslulaga)

Sýslumaður getur því tekið ákvörðun um að nauðungarvista einstakling án þess að láta hann vita að beiðni þess efnis liggi fyrir og án þess að gefa honum færi á að tjá sig um nauðsyn nauðungarvistunar. Hér er þó vert að taka fram að sýslumaður getur ekki tekið ákvörðun um nauðungarvistun án þess að hafa undir höndum læknisvottorð frá lækni sem á að spyrjast fyrir um afstöðu þess sem vista á nauðugan, ef ástand einstaklingsins leyfir. Viðkomandi hefur þó hvergi skráðan rétt til að koma sjónarmiðum sínum á annan hátt á framfæri við sýslumann.

Þegar sýslumaður telur sig nægjanlega upplýstan um nauðsyn nauðungarvistunar ber honum að úrskurða hvort að svo verði eða ekki eins fljótt og mögulegt er. Ákvörðun sýslumanns verður að vera skrifleg, henni verður að fylgja rökstuðningur fyrir ákvörðuninni og sýslumaður verður að senda þeim sem bað um nauðungarvistun tilkynningu um ákvörðun sína.

Ef sýslumaður ákveður að samþykkja beiðni um nauðungarvistun verður hann að senda ákvörðun sína til yfirlæknis þeirrar stofnunar þar sem vista á einstaklinginn ásamt ljósriti af læknisvottorðinu sem ákvörðunin byggði á.

Ef sýslumaður ákveður að samþykkja beiðni um nauðungarvistun verður hann að senda ákvörðun sína til þess sem vista á nauðugan ásamt upplýsingum um þau réttindi sem hinn nauðungarvistaði hefur í kjölfar ákvörðunarinnar.

Réttindi hins nauðungarvistaða

Segja má að þau ákvæði lögræðislaga sem taka til réttinda nauðungarvistaðra séu mjög óljós og ófullnægjandi. Flestar greinar sem tiltaka réttindi nauðungarvistaðra eru takmörkuð með því að tilgreina að þeim beri aðeins að fylgja ef því verður við komið; ef ástand hins nauðungarvistaða leyfir eða ef ekki er augljóslega tilgangslaust að framfylgja réttindum þeirra. Réttarstaða nauðungarvistaðra er því mjög bág, sérstaklega gagnvart þeim læknum sem geta ákveðið nauðungarvistun í 72 tíma, eða sýslumanni sem getur ákveðið hana í allt að þrjár vikur (21 dag). Hvergi er gert ráð fyrir ótvíræðum rétti einstaklingsins til þess að mótmæla frelsissviptingunni. Það sem verra er; lögin gera ekki einu sinni ráð fyrir að viðkomandi eigi rétt á að vita að sýslumaður sé að skoða hvort svipta megi hann frelsi í allt að þrjár vikur.

Lögræðislögin innihalda þó ákveðin lágmarksréttindi sem mikilvægt er að einstaklingar sem eiga á hættu að verða nauðungarvistaðir kynni sér vel. Mikilvægasti réttur nauðungarvistaðra er réttur þeirra til þess að bera lögmæti nauðungarvistunarinnar undir dómsstóla. Nauðungarvistun er frelsissvipting, sem er alvarlegasta inngrip sem yfirvöld geta haft á líf einstaklinga enda brot á grundvallarrétti þeirra til frelsis (sjá nánar um rétt til frelsis hér).

Allir sem sviptir hafa verið frelsi af yfirvöldum eiga rétt á því:

  1. Að yfirvöld hafi heimild í lögum fyrir frelsissviptingunni.
  2. Að vita og skilja ástæðu frelsissviptingarinnar.
  3. Að lögmæti frelsissviptingarinnar sé borið undir dómstóla eða aðra til þess bæra úrskurðaraðila stuttu eftir að hún á sér stað.
  4. Að fá skaðabætur ef í ljós kemur að frelsissviptingin hefur ekki verið í samræmi við lög.

1. Heimild í lögum

Lögræðislögin innihalda heimild í lögum til að frelsissvipta einstaklinga með nauðungarvistun (19. grein lögræðislaga). Þó má færa sterk rök fyrir að lagaheimildin fyrir nauðungarvistun standist ekki alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar Íslands, þar sem þau mismuna fólki með geðsjúkdóma (sjá nánar í kaflanum íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar gagnvart nauðungarvistuðum), þó svo að íslenskir dómstólar séu ólíklegir til að taka þau rök til greina án þess að Alþingi breyti lögunum.

 

Athygli vekur að lögræðislög kveða hvergi á um hvað nauðsynlega þurfi að sýna fram á í greiningum eða álitum lækna til að réttlæta þá frelsissviptingu sem nauðungarvistun felur í sér. Eðlilegt er að lög kveði á um hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar þannig greining eða álit geti talist gild. Þannig eiga lögin að tryggja að dómstólar geti lagt sjálfstætt mat á greiningu lækna. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur til dæmis sett þetta grundvallarskilyrði svo hægt sé að byggja á slíkri greiningu fyrir við úrskurð mála í frelsissviptingum sem þessum (Lashin gegn Rússlandi).

2. Að vita og skilja ástæðu frelsissviptingarinnar

Lögræðislögin taka fram í a. lið 1. málsgreinar 25. greinar að vakthafandi sjúkrahúslæknir skuli tilkynna nauðungarvistuðum einstaklingi um ástæður nauðungarvistunarinnar án tafar, nema slíkt sé bersýnilega þýðingarlaust vegna ástands hans. Af þessu ber að skilja að læknirinn verði að verða við þessu um leið og ástand hins nauðungarvistaða leyfir.

Tilkynning læknis um ástæður nauðungarvistunar er þó alls ekki endilega nægjanleg til þess að hinn nauðungarvistaði einstaklingur skilji ástæður þess að hann hafi verið sviptur frelsi sínu. Lögræðislögin gera því ráð fyrir því að einstaklingur sem hefur verið nauðungarvistaður eigi rétt á að njóta aðstoðar sérstaks ráðgjafa, sem getur meðal annars sinnt því hlutverki að útskýra frekar ástæður vistunarinnar fyrir viðkomandi (sjá nánar: Ráðgjafar nauðungarvistaðra). Vakthafandi lækni er einnig skylt að tilkynna hinum nauðungarvistaða um rétt hans til þess að njóta aðstoðar og stuðnings ráðgjafa á sama tíma og hann upplýsir um ástæður nauðungarvistunarinnar.

3. Að bera lögmæti frelsissviptingarinnar undir dómsstóla eða aðra til þess bærra úrskurðaraðila

 

Sýslumaður telst „annar til þess bær úrskurðaraðili“ í  skilningi réttarins til frelsis og í skilningi lögræðislaga en í ljósi þess hversu fátækleg málsmeðferðarréttindi einstaklinga eru í nauðungarsviptingarmálum er vert að mæla eindregið með því að bera lögmæti vistunarinnar án tafar undir dómstóla sem verða að hlíta strangari málsmeðferðarreglum og veita þeim sem vista á nauðugan töluvert betri réttarstöðu.

Lögræðislögin gera ráð fyrir því að einstaklingur sem vistaður hefur verið nauðugur á sjúkrahúsi geti borið lögmæti þeirrar ákvörðunar undir dómsstóla (1. málsgrein 30. greinar). Skiptir þá engu máli hvort um er að ræða ákvörðun læknis um nauðungarvistun í allt að 72 klukkustundir eða ákvörðun sýslumanns um vistun í allt að þrjár vikur. Í báðum tilfellum ber dómsstólum að taka fyrir kröfu hins nauðungarvistaða „án tafar“ en málsmeðferð fyrir dómi og hjá sýslumanni getur farið fram samtímis. Ef sýslumaður tekur ákvörðun áður en dómsstólar hafa úrskurðað um lögmæti þá gildir ákvörðun sýslumanns allt þar til dómstóllinn hefur úrskurðað í málinu.

Málsmeðferð dómstóla vegna nauðungarvistunar

Til að hægt sé að bera lögmæti nauðungarvistunar undir dómsstóla verður einstaklingurinn sem hefur verið nauðungarvistaður (eða á að nauðungarvista) að leggja fram skriflega kröfu þess efnis til dómstólsins í sveitarfélaginu þar sem hann á lögheimili (eða dvalarstað). Krafan verður að tilgreina hvort viðkomandi einstaklingur óski þess að dómstóllinn skipi honum einhvern sérstakan talsmann og, ef svo er, hver það eigi að vera. Hægt er að leita til ráðgjafa nauðungarvistaðra til að aðstoða við gerð slíkrar kröfu. Ráðgjafinn á að tryggja að dómstólnum berist krafan eins fljótt og mögulega hægt er (sjá nánar: Ráðgjafar nauðungarvistaðra).

Í 31. grein lögræðislaga kemur fram að dómari sem tekur fyrir kröfu nauðungarvistaðs manns um að hann skuli meta lögmæti nauðungarvistunarinnar sé skylt að skipa hinum nauðungarvistaða talsmann í samræmi við reglur um verjendur sem finna má í lögum um meðferð sakamála. Þetta ákvæði er óþarflega óskýrt en ætti að þýða að nauðungarvistaðir einstaklingar eigi rétt á að dómarar skipi þeim verjenda (lögmann) og að kostnaðurinn við störf þeirra greiðist alla jafna úr ríkissjóði. Dómaranum er skylt að spyrja hvort einstaklingurinn sem um ræðir hafi einhverjar sérstakar óskir um verjanda, ef þær hafa ekki þá þegar komið fram.

Dómaranum er skylt að láta yfirlækni á deildinni þar sem viðkomandi er vistaður vita ef nauðungarvistaður einstaklingur óskar eftir því að vera látinn laus. Lækninum er skylt að upplýsa dómarann um afstöðu sína gagnvart ástæðum nauðungarvistunarinnar. Sömuleiðis er dómaranum skylt að láta sýslumann vita, ef sýslumaður hefur úrskurðað um nauðungarvistunina, um að ákvörðunin sé til meðferðar hjá honum. Sýslumanninum er þá skylt að afhenda dómaranum öll þau gögn sem hann notaðist við til að taka ákvörðun sína um nauðsyn nauðungarvistunarinnar.

Að öðru leyti verður dómarinn að fylgja sömu málsmeðferðarreglum og gilda um lögræðissviptingar, eftir því sem við á. Dómara er skylt að taka ákvörðun eins fljótt og hann mögulega getur eftir að hann hefur aflað sér allra nauðsynlegra gagna.

Ráðgjafar nauðungarvistaðra

Lögræðislög tilgreina rétt nauðungarvistaðra til að njóta aðstoðar ráðgjafa eins fljótt og verða má eftir að nauðungarvistun hefur átt sér stað. Í 25. grein lögræðislaganna kemur fram að vakthafandi læknir á sjúkrahúsinu þar sem einstaklingur er vistaður verði að tilkynna hinum nauðungarvistaða um þennan rétt án tafar „nema slíkt sé bersýnilega þýðingarlaust vegna ástands hans.“

Lögræðislögin fjalla sérstaklega um hlutverk og skyldur ráðgjafa í 27. grein laganna. Þar kemur fram að vakthafandi sjúkrahúslækni sé skylt að hafa samband við ráðgjafa eins fljótt og verða megi og láta hann vita þegar einstaklingur er nauðungarvistaður. Nauðungarvistaður einstaklingur á rétt á að njóta ráðgjafar og stuðnings frá ráðgjafanum vegna sjúkrahúsdvalarinnar og meðferðarinnar þar á meðan á nauðungarvistun stendur. Í því felst meðal annars að hinn nauðungarvistaði á rétt á að tala við ráðgjafann einslega og vera reglulega í samskiptum við hann meðan á nauðungarvistuninni stendur. Ráðgjafinn á rétt á að kynna sér sjúkraskrá hins nauðungarvistaða. Ráðgjafinn getur aðstoðað við að bera ákvörðun um lögmæti nauðungarvistunarinnar undir dómstóla. Ráðgjafar verða að virða trúnað við hinn nauðungarvistaða og geta sætt refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum (18. grein almennra hegningarlaga) ef þeir brjóta trúnað.

Í 29. grein lögræðislaga kemur fram að nauðungarvistuðum einstaklingi og fjölskyldu hans skuli standa til boða ráðgjöf og stuðningur í kjölfar nauðungarvistunarinnar. Þar kemur fram að heilbrigðisráðherra eigi að setja reglugerð sem ákveður m.a. hver skuli veita slíka ráðgjöf en ekki er að sjá að sú reglugerð hafi verið samþykkt enn sem komið er. Því er óljóst hvort nauðungarvistaðir og aðstandendur þeirra geti nýtt sér þetta úrræði sem stendur.

Skyldur lækna gagnvart nauðungarvistuðum; skráning og meðferð

Yfirlæknar á þeim sjúkrahúsum þar sem einstaklingar eru vistaðir nauðugir bera ábyrgð á því að nauðungarvistun vari aldrei lengur en þörf krefur hverju sinni. Þessa skyldu yfirlækna er að finna í 29. grein lögræðislaga en hún á bæði við þegar læknir hefur ákveðið að nauðungarvista einstakling í allt að 72 tíma sem og þegar sýslumaður hefur samþykkt að vista einstakling í allt að 21 dag. Það er ætíð á ábyrgð yfirlæknis að einstaklingur sé ekki vistaður nauðugur lengur en ítrasta nauðsyn krefur.

Yfirlæknir á sjúkrahúsi ber einnig ábyrgð á að nauðungarvistuðum einstaklingi sé kynnt réttarstaða hans eins fljótt og verða má (nema slíkt sé bersýnilega þýðingarlaust vegna ástands einstaklingsins). Kynning á réttarstöðu er útskýrð í 25. grein lögræðislaga en hún felur í sér að vakthafandi læknir, eða yfirlæknir, verða að kynna fyrir einstaklingi sem hefur verið nauðungarvistaður:

 

  • Ástæður nauðungarvistunarinnar.
  • Rétt hins nauðungarvistaða til þess að njóta aðstoðar og stuðnings ráðgjafa.
  • Um ákvörðun sýslumanns að viðkomandi skuli vistaður nauðugur í allt að 21 dag (ef við á).
  • Um rétt nauðungarvistaða einstaklingsins til þess að bera ákvörðun um nauðungarvistun eða um þvingaða lyfjagjöf eða meðferð undir dómsstóla.

Yfirlæknir á sjúkrahúsi ber ennfremur ábyrgð á því að vakthafandi sjúkrahúslæknir skrái eftirtalin atriði í sjúkraskrá hins nauðungarvistaða svo fljótt sem verða má þegar við á:

  1. Hvenær nauðungarvistun hefst skv. 2. mgr. 19. gr.
    1. Samþykki sýslumanns fyrir nauðungarvistun skv. 3. mgr. 19. gr.
    2. Ákvarðanir um þvingaða lyfjagjöf og aðra þvingaða meðferð skv. 28. gr. og rökstuðning fyrir nauðsyn hennar.
    3. Hvenær vakthafandi sjúkrahúslæknir tilkynnti yfirlækni um ákvarðanir sínar skv. 2. mgr. 19. gr (um nauðungarvistun). og 3. mgr. 28. gr (um þvingaða meðferð).
    4. Hvenær nauðungarvistuðum manni var kynntur réttur hans til að bera ákvörðun um nauðungarvistun eða þvingaða lyfjagjöf eða meðferð undir dómstóla skv. 30. gr., réttur til að ráðfæra sig við ráðgjafa skv. 27. gr. og ákvörðun sýslumanns skv. 3. mgr. 19. gr. Ef slík kynning fer ekki fram þegar í stað skulu ástæður þess skráðar í sjúkraskrá. Einnig skal skrá hvenær ráðgjafi skv. 27. gr. veitti ráðgjöf og stuðning.
    5. Hvenær staðfesting hafi borist frá dómstóli um að fram hafi komið krafa um að hlutaðeigandi skuli sviptur sjálfræði sínu, sbr. 2. mgr. 29. gr.

Yfirlæknar verða ávallt að tryggja að allar upplýsingar um meðferð og heilsu sem máli skipta séu skráðar niður og ber hann einnig ábyrgð á að upplýsa dómara um meðferð á nauðungarvistuðum og ástæðu vistunar ef hinn vistaði ákveður að bera lögmæti vistunarinnar undir dómsstóla.

Framlenging nauðungarvistunar umfram 21 dag

Lögræðislög gera ráð fyrir tveimur tilfellum þar sem hægt er að framlengja nauðungarvistun umfram þá 21 daga sem sýslumaður getur úrskurðað. Annars vegar er heimilt að framlengja nauðungarvistun um allt að 12 vikur með úrskurði dómara. Hins vegar er hægt að framlengja nauðungarvistun ef krafa hefur verið gerð fyrir dómi um að viðkomandi skuli sviptur sjálfræði (sjá nánar: lögræðissvipting).

Skilyrði fyrir framlengingu á nauðungarvistun umfram 21 dag er að finna í 29. grein a) í lögræðislögum. Þar kemur fram að framlenging á nauðungarvistun í allt að 12 vikur megi aðeins eiga sér stað einu sinni í kjölfar þess að 21 dagur er liðinn frá ákvörðun sýslumanns. Framlengingin geti líka falið í sér rýmkun á frelsissviptingunni ef læknir metur það sem svo að óhætt sé að veita viðkomandi leyfi til að eyða tíma utan viðkomandi stofnunar.

Til að hægt sé að framlengja nauðungarvistun verður að liggja fyrir yfirlýsing læknis þess efnis að hann hafi reynt að komast að samkomulagi við viðkomandi einstakling um áframhaldandi meðferð án árangurs. Eins verður að koma fram vottorð frá lækni um að áframhaldandi nauðungarvistun sé að hans mati óhjákvæmileg.

Fylla verður út skriflega umsókn um framlengingu á nauðungarvistun, ástæðu þess að óskað er eftir henni og til hversu langs tíma óskað er eftir því að vistunin sé framlengd. Að öðru leyti er málsmeðferð um framlengingu á nauðungarvistun sú sama og önnur málsmeðferð um nauðungarvistun.

Í fjórða tölulið 29. greinar a) í lögræðislögum stendur:

„Heimilt er að framlengja nauðungarvistun manns ef krafa hefur verið gerð fyrir dómi um að hann verði sviptur sjálfræði. Þegar krafa hefur verið gerð um að maður, sem vistaður er nauðugur í sjúkrahúsi, verði sviptur sjálfræði skal dómari án tafar senda yfirlækni á sjúkrahúsi þar sem hinn vistaði dvelst staðfestingu á að slík krafa sé fram komin og hvenær hún hafi borist dóminum. Skal þetta gert með símskeyti eða öðrum tryggilegum hætti.“

Orðalag ákvæðisins gefur ekki skýrt til kynna hvort ákvörðun um framlengingu liggi hjá dómara, eða hvort að yfirlæknir eða læknir hafi heimild til þess að framlengja nauðungarvistun svo lengi sem fram hefur komið krafa um að svipta eigi viðkomandi einstakling sjálfræði. Þar af leiðir að ekki er hægt að sjá með skýrum hætti hvað gerist ef dómari neitar að svipta viðkomandi sjálfræði. Þannig er ekki ljóst af ákvæðinu hvort láta eigi viðkomandi lausan án tafar ef dómari fellst ekki á sjálfræðissviptingu og hver beri ábyrgð á því að slíkt sé gert. Sömuleiðis kemur ekki fram með skýrum hætti hvaða ferli fer af stað ef einstaklingur sem hefur verið nauðungarvistaður sem sjálfráða einstaklingur, er síðan sviptur sjálfræði sínu á meðan vistun stendur.

Nauðungarvistun þeirra sem sviptir hafa verið sjálfræði

Ákvæði um nauðungarvistun sjálfræðissvipts einstaklings er að finna í 58. og 59. grein lögræðislaganna. Þar kemur fram að þrátt fyrir að lögráðamaður hafi alla jafna heimild til þess að taka „nauðsynlegar ákvarðanir um þá persónuhagi hins sjálfræðissvipta sem hann er ófær um að taka sjálfur“ geti hann ekki ákveðið að vista einstaklinginn gegn vilja sínum á stofnun nema:

  • Líf eða heilsu einstaklingsins sé hætta búin að mati læknis
  • Önnur skilyrði til nauðungarvistunar séu uppfyllt, t.a.m. að viðkomandi sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi)

Að uppfylltum þessum skilyrðum getur lögráðamaður ákveðið að vista einstaklinginn á sjúkrahúsi, heilbrigðisstofnun eða sambýli. Lögráðamaður verður að tilkynna yfirlögráðamanni um ákvörðun sína. Ekki er ljóst af orðalagi 58. greinar hvort lögráðamaður verði einnig að fá samþykki læknis og/eða sýslumanns til þess að úrskurða nauðungarvistun, þó honum beri að leita til læknis um læknisvottorð, og að láta sýslumann vita af ákvörðun sinni.

Fram kemur í 58. og 59. grein lögreglulaganna að önnur ákvæði lögræðislaganna um flutning nauðungarvistaðra á stofnun og meðferð þeirra þar, ásamt rétti þeirra til að bera lögmæti nauðungarvistunar undir dómsstóla gildi sömu reglur um sjálfræðissvipta, eins og þá sem hafa ekki verið sviptir „eftir því sem við á.“ Orðalagið er því mjög óskýrt og ekki auðvelt að átta sig á hvenær málsmeðferðarréttindi um nauðungarvistun eiga við sjálfræðissvipta og hvenær ekki.

Sjálfræðissviptir einstaklingar eiga þó öruggan rétt á að bera lögmæti nauðungarvistunar undir dómstóla. Sjálfræðissviptir einstaklingar virðast einnig mega bera lögmæti þvingaðrar meðferðar og þvingaðrar lyfjagjafar undir dómsstóla (sjá nánar undir Þvinguð meðferð).

Þvinguð meðferð

Lögræðislögin innihalda heimild til að beita nauðungarvistaða einstaklinga þvingaðri meðferð og þvingaðri lyfjameðferð. Heimildina er að finna í 28. grein laganna en hún er tvenns konar eftir því hvort sýslumaður hefur samþykkt nauðungarvistun eða hvort 72 tímar hafa ekki ennþá liðið frá ákvörðun læknis um nauðungarvistun.

Ef sýslumaður hefur ekki samþykkt nauðungarvistun má vakthafandi læknir ekki beita þvingaðri meðferð eða þvingaðri lyfjameðferð nema eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt:

  • Ef viðkomandi sjúklingur er sjálfum sér eða öðrum hættulegur eða ef lífi hans eða heilsu er stefnt í voða.
  • Ákvörðun um þvingaða lyfjagjöf eða aðra þvingaða meðferð í þessum tilvikum skal tilkynnt yfirlækni svo fljótt sem verða má og skal hann taka ákvörðun um frekari meðferð.

Hafi sýslumaður samþykkt nauðungarvistun þarf ekki að uppfylla ofangreind skilyrði heldur er nægjanlegt að yfirlæknir meti sem svo að þvinguð meðferð sé „nauðsynleg“ án þess að lögin skilgreini frekar í hverju það felst.

Við meðferð slíkra mála gilda sömu málsmeðferðarreglur og við dómsmál vegna lögmæti nauðungarvistunarinnar. Nauðungarvistaðir einstaklingar sem beittir eru þvingaðri meðferð eða lyfjagjöf eiga rétt á að bera lögmæti hennar undir dómsstóla. Ráðgjafar lögræðissviptra geta aðstoðað við að kæra þvingaða meðferð til dómsstóla.

Íslensk lög og alþjóðlegar skuldbindingar gagnvart nauðungarvistuðum

Nauðungarvistun og samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Samkvæmt nefnd Sameinuðu þjóðanna er aðildarríkjum samningsins óheimilt að beita fatlaða einstaklinga nauðung af nokkru tagi. Nauðungarvistun, þvinguð lyfjagjöf og önnur þvinguð meðferð gagnvart fötluðum sé brot á samningnum í öllum tilfellum, einnig í neyðartilfellum.

Í stað þvingaðrar meðferðar og/eða frelsissviptingar skuli fatlaðir njóta stuðnings sem virðir frelsi þeirra til að neita læknismeðferð í hvívetna. Slíkt megi til dæmis gera með notkun bráðateyma sem nota samtalsmeðferð eða með rekstri skjólhúsa. Önnur leið til að virða frelsi og mannhelgi fólks með geðraskanir væri með gerð framtíðaráætlunar (e. advanced planning) um hvernig hann/hún vilji að meðferð sinni sé háttað komi til þess að hann/hún geti ekki komið vilja sínum á framfæri vegna veikinda. Þó ættu einstaklingar ávallt að geta ógilt ákvæði framtíðaráætlunarinnar á hvaða stigi máls sem er. Núgildandi lögræðislög standast því með engu móti kröfur samningsins samkvæmt túlkun nefndarinnar. Nauðungarvistun einstaklings á þeim grunni einum að hann sé fatlaður (þjáist af alvarlegum geðsjúkdómi) er til dæmis skýrt brot á b. lið 2. tl. 14. gr., 19. gr. og 22. gr. samningsins.

Nauðungarvistun og Mannréttindasáttmáli Evrópu

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur með ítrekaðri dómaframkvæmd sett fram þrjú skilyrði fyrir nauðungarvistun (sjá hér t.a.m. Sýkora gegn Tékklandi):

1) Sýnt sé fram á með áreiðanlegum hætti að einstaklingur búi við andlega skerðingu (e. unsoundness of mind) þ.e. að sýnt sé fram á geðsjúkdóm fyrir viðeigandi stjórnvaldi frá hlutlægu læknisfræðilegum sjónarmiðum.

2) að geðsjúkdómurinn sé á því stigi að slíkt kalli á nauðungarvistun.

3) að framlenging vistunarinnar sé aðeins gerð út frá reglulegri sannaðri tilvist þess sjúkdóms hverju sinni.

Varðandi kröfur til dómstóla í nauðungarvistunarmálum hefur MDE talið dómstóla aðildarríkja bera ríkar kröfur til að leggja sjálfstætt mat á skýrslur lækna. Því til stuðnings má nefna (Lashin gegn Rússlandi) þar sem MDE taldi dómstól aðildarríkis ekki hafa uppfyllt það skilyrði. MDE lagði því sérstakt mat á skýrslur tveggja lækna en undir venjulegum kringumstæðum myndi MDE aðeins leggja mat á hvort mat dómstóla aðildarríkja uppfylltu ekki örugglega kröfur til fagmennsku. Í þessum dómi felst líka krafa um fagmennsku á mati læknaskýrslna. Íslensk lögræðislög standast því ekki lágmarkskröfur Mannréttindadómstól Evrópu um réttarvernd nauðungarvistaðra.

Þvinguð meðferð og samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Þvinguð meðferð á fötluðum einstaklingi er óheimil samkvæmt d. lið 25.gr., 12. gr., 1. tl. 15. gr., 16. gr., 17. gr. og 22. grein samningsins eins og fram kemur í almennri athugasemd nefndar Sameinuðu þjóðanna um rétt fatlaðs fólks til lögformlegs hæfis (sjá nánar um rétt til lögformlegs hæfis). Sérstakur sendiboði Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð hefur tekið undir þessa túlkun nefndar Sameinuðu þjóðanna á samningnum. Ennfremur áréttaði hann að þvinguð lyfjagjöf, sem veldur því að einstaklingur verður sljór eða titrandi og feli í sér mikinn andlegan eða líkamlegan sársauka fyrir viðkomandi falli því undir pyndingar samkvæmt skilgreiningu Samnings sameinuðu þjóðanna um varnir gegn pyndingum og annarri vanvirðandi eða ómannúðlegri meðferð.

Þvinguð meðferð og Mannréttindasáttmáli Evrópu

Varðandi þvingaða lyfjagjöf þá hefur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) talið slíkt aðeins heimilað þegar kveðið er á um slíkt í lögum með fullnægjandi skilyrðum, sbr. X gegn Finnlandi. Í því máli var ekki tryggt með fullnægjandi hætti að viðkomandi nyti verndar gegn geðþóttaákvörðun. Í málinu var ákvörðunarvald einungis í höndum læknis sem sætti ekki eftirliti dómstóla með fullnægjandi hætti. MDE taldi slíkt brjóta í bága við eðlilegar varúðarkröfur. Af dómnum að ráða brýtur 2. mgr. 19 gr. lögræðislaga því skýrt gegn réttindum tryggðum í Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Samkvæmt dómsstólnum verða lögin að kveða á um afmörkuð tilvik, grundvöll ákvörðunar læknis (ríkir almanna- eða einkahagsmunir) og mögulega frestun réttaráhrifa í kjölfar kæru vegna beitingar þvingaðrar meðferðar.

Lögræðislög og aðrar alþjóðlegar skuldbindingar Íslands

Mannréttindasáttmáli Evrópu kveður á um bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Bannið má enn fremur finna í fjölda annara milliríkjasamninga sem Ísland á aðild að. Til að tryggja sem mesta vernd einstaklinga gegn pyndingum, samþykktu aðildarríki Evrópuráðsins Evrópusamning um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í tengslum við samninginn var sett á fót Evrópunefnd um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu (CPT-nefndin).

CTP-nefndin

Hlutverk CPT-nefndarinnar er að kanna með vitjunum, meðferð manna sem sætt hafa frelsissviptingu hvers konar í því skyni að efla, ef nauðsyn krefur, vernd þeirra gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Nefndin heimsækir aðildarríki og skilar skýrslum með tilmælum um atriði í lögum eða framkvæmd aðildarríkja sem bæta þurfi til að tryggja betur vernd gegn pyndingum.

Mannréttindadómstóll Evrópu lítur til skýrslna nefndarinnar þegar við á í úrlausn mála fyrir dómstólnum og hefur ítrekað mikilvægi þess að aðildarríki samninganna fylgi tilmælum CPT nefndarinnar. Nefndin hefur heimsótt Ísland fjórum sinnum en tilmæli nefndarinnar er varða galla á lögræðislögunum og þá sérstaklega ákvæði þeirra um framkvæmd nauðungarvistunar hafa tekið litlum breytingum frá fyrstu heimsókn nefndarinnar. Í greinargerð með lögum um breytingar á lögræðislögum kemur fram að breytingunum var ætlað að koma til móts við athugasemdir CPT nefndarinnar til íslenskra stjórnvalda er vörðuðu lögræðislögin og framkvæmd þeirra. Ekki verður séð að slíkt hafi verið gert nema að mjög takmörkuðu leyti. Flestar ábendingar CPT nefndarinnar um úrbætur eiga enn fyllilega við gildandi útgáfu laganna.

CPT-nefndin hefur ítrekað bent á að skilyrði til nauðungarvistunar séu of óljós og íslensk yfirvöld verði að afmarka þau frekar, með því að fyrirskipa í lögunum að engan megi vista nauðugan á sjúkrahúsi nema það sé nauðsynlegt til að vernda líf og heilsu viðkomandi eða til verndar lífi og heilsu annarra.

CPT-nefndin telur mjög mikilvægt að lögræðislögin innihaldi skilyrði um að dómstólar verði að endurskoða reglulega hvort áframhaldandi nauðungarvistun sé nauðsynleg í hverju tilfelli fyrir sig. Nefndinni finnst ekki fullnægjandi að hinn nauðungarvistaði geti sjálfur sótt um að lögmæti vistunarinnar skuli metið af dómsstólum. Í ljósi viðkvæmrar stöðu nauðungarvistaðra þykir nefndinni lykilatriði að dómstólum sé skylt að hafa frumkvæði að því að tryggja að nauðungarvistun standi aldrei yfir lengur en nauðsyn krefur til verndar lífi viðkomandi eða heilsu.

Athugasemdir nefndarinnar hafa einnig að geyma þau tilmæli að lögræðislögin tryggi að ávallt sé óháður læknir eða sérfræðingur sem metur þörf á áframhaldandi nauðungarvistun og að sá sé ekki hinn sami og tók upphaflega ákvörðunina um nauðungarvistun. Núgildandi lögræðislög gera ekki að skilyrði að óháður sérfræðingur meti áframhaldandi þörf á nauðungarvistun.

Í svörum fulltrúa Íslands við athugasemdum nefndarinnar kemur fram að framkvæmd ákvæðisins um ákvörðun sýslumanns á áframhaldandi nauðungarvist einstaklings að við lok upphaflegs 72 klst., (þá 48 klst.) tímabils nauðungarvistunar feli í sér að sjálfstæður sérfræðingur, annar en sá er stóð að upphaflegri vistun, sé fenginn til að meta ástand hins nauðungarvistaða og nauðsyn áframhaldandi vistunar. Því sé ekki aðgerða þörf varðandi þau tilmæli nefndarinnar.

Í greinargerð við lögræðislögin frá árinu 1997 er tekið fram að mat óháðs sérfræðings sé almenn verklagsregla meðal lækna og þyki því ekki tilefni til að lögfesta það skilyrði. Sú afstaða er umdeild og hefur verið bent á að í raun þurfi að ganga mun lengra í þeim kröfum sem gerðar eru um sönnunarbyrði yfirvalda á algjöra nauðsyn nauðungarvistunar í hverju tilfelli fyrir sig.

Í núgildandi lögræðislögum heimilar 2. tl. 28. gr. yfirlækni að beita nauðungarvistaðan mann þvingaðri lyfjameðferð eða annarri þvingaðri meðferð að undangenginni „ákvörðun“ án frekari skilyrða fyrir nauðsyn beitingu nauðungar. CPT – nefndin telur ákvæðið heimila of víðtæka undantekningu á þeirri meginreglu að allir eigi rétt á að veita upplýst samþykki fyrir hvers konar læknismeðferð ellegar hafna henni (sjá nánar um heilsufrelsi). Úrskurður sýslumanns um heimild til nauðungarvistunar megi ekki sjálfkrafa fela í sér leyfi til þvingaðrar meðferðar í kjölfarið. Nauðsynlegt sé því að takmarka heimild fyrir þvingaðri meðferð við undantekningartilfelli sem útlistuð eru í lögum á skýran og afmarkaðan hátt. Þær raddir hafa heyrst að sinnuleysi stjórnvalda gagnvart þessum tilmælum CPT- nefndarinnar væru ámælisvert ljósi þess um hversu alvarlega skerðingu grundvallarmannréttinda þvinguð meðferð felur í sér.

Fram kom í svörum íslenska ríkisins að áætlað væri að taka það til sérstakrar skoðunar hvort semja ætti reglugerð sem segði nánar fyrir um beitingu nauðungar við nauðungarvistun. Finna má reglugerðarheimild heilbrigðisráðherra til að semja slíka reglugerð en hún hefur ekki tekið gildi þegar þessi orð eru skrifuð. Sömuleiðis kom fram hjá íslenskum yfirvöldum að verið væri að leggja lokahönd á gerð ítarlegar stefnu um beitingu nauðungar fyrir starfsmenn allra stofnana er hafa með höndum nauðungarvistun einstaklinga. Ekki er að sjá að slík stefna hafi verið mynduð.

Íslensk stjórnvöld brugðust heldur ekki við þeim tilmælum nefndarinnar að þörf væri á að setja á fót sjálfstæða nefnd sem færi með eftirlit gagnvart stofnunum er færi með umsjá frelsissviptra einstaklinga. Tekið var fram að vistmönnum byðist að ræða við fulltrúa sjúklinga og eins að þeir hefðu aðgang að ráðgjafa til að koma kvörtunum og kærum á framfæri. Grundvallarmunur er á hlutverki og eftirlitsgetu einstaka ráðgjafa eða fulltrúa og sjálfstæðri eftirlitsstofnun. Endurskoða ætti afstöðu stjórnvalda til þessa tilmæla nefndarinnar í því ljósi.

Heimildir

  • Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir. Frá forræði til sjálfræðis. ML í lögfræði. 2014. Aðgengilegt á: http://skemman.is/stream/get/1946/17313/39414/1/Helga Baldvinsd%C3%B3ttir Bjargard%C3%B3ttir ML.pd f (sótt 27. 03. 2016).
  • Skýrsla sérstaks sendiboða Sameinuðu þjóðanna til aðalritara Sameinuðu þjóðanna frá 28. Júlí 2008. https://documents-dds-ny.un.org/doc/UNDOC/GEN/N08/440/75/PDF/N0844075.pdf?OpenElement (Sótt 26. 03. 2016).
  • John Dawson. A realistic approach to assessing mental health laws’ compliance with the UNCRPD. International Journal of Law and Psychiatry 40 (2015) 70-79. 14

 

 

 

  • Var þetta efni ganglegt ?
  • Já!   Nei
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt