Ósakhæfi er andstaðan við sakhæfi. Börn eru ósakhæf til 15 ára aldurs. Það þýðir að fram að 15 ára aldri eru börn ekki dæmd í réttarsal fyrir lögbrot sem þau fremja af því að þau teljast, aldurs síns vegna, ekki nógu þroskuð til að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Þegar einstaklingur er orðinn 15 ára verður hann sakhæfur.
Almennt er hugtakið ósakhæfir brotamenn notað yfir manneskjur sem fremja glæp en geta ekki talist ábyrgar gjörða sinna því þær voru mjög andlega veikar þegar glæpurinn var framinn.
Ósakhæfi felur í sér að ef að manneskja er ákærð fyrir að hafa framið ákveðinn glæp en í ljós kemur að hún er mjög veik andlega eða var mjög veik andlega þegar glæpurinn var framinn er ekki hægt að senda hana í fangelsi til að taka út refsingu fyrir glæpinn.
Í staðinn metur dómari með hjálp sérfræðinga hvort að óskakhæfa manneskjan sé ennþá hættuleg sjálfri sér eða öðrum, hvort hún sé ennþá veik á sama eða svipaðan hátt og hún var þegar hún framdi glæpinn. Ef svo er getur dómari ákveðið að loka ósakhæfu manneskjuna inni á stofnun til meðferðar við veikindum sínum. Sem stendur eru tvær stofnanir sem taka við ósakhæfum brotamönnum: Réttargeðdeildin á Kleppsspítala og réttargeðdeildin á Akureyri. Þegar læknar og dómarar verða sammála um að ósakhæfi brotamaðurinn sé ekki lengur hættulegur sjálfum sér né öðrum, verður að sleppa manneskjunni af réttargeðdeild. Því miður er það ekki alltaf svo einfalt þar sem það getur verið mjög erfitt að finna húsnæði fyrir ósakhæfa brotamenn utan réttargeðdeildarinnar.