Hvenær er brotið á rétti mínum?
Verkefni og skyldur ríkis og sveitarfélaga eru bundin í lög og reglur. Almennir borgarar eiga ýmis konar lögbundin réttindi. Ef ríki og sveitarfélög uppfylla ekki þessar skyldur sínar, þá er talað um að brotið sé á rétti einstaklings. Dæmi um slíkt er ef skólar bjóða ekki upp á lögbundna aðstoð, tiltekin búsetuúrræði eru ekki til staðar eða ef brotið er á einhvern hátt á mannréttindum einstaklinga.
Allir eiga sín mannréttindi og rétt á að bera það undir dómsstóla eða aðra til þess bærra úrskurðaraðila þegar aðgerðir stjórnvalda eða annarra eru þess eðlis að fólk telji á réttindum sínum brotið.
Þegar einstaklingar telja brotið á rétti sínum eru ýmis réttarúrræði í boði þar sem þeir geta leitað réttar síns og fengið úrlausn um deilumál.
Úrskurðir á stjórnsýslustigi
Ef einstaklingur telur að stjórnvald hafi brotið á rétti sínum getur hann leitað til nefnda og ráðuneyta til að fá úrskurð um málið. Ef nefnd úrskurðar um málið (t.d. úrskurðarnefnd velferðarmála) er talað um að það sé úrskurðað á lægra stjórnsýslustigi. Það þýðir að úrskurður nefndarinnar er ekki fullnustuúrskurður og hægt er að skjóta málinu til æðra stjórnsýslustigs, þ.e. ráðuneyta. Eftir að fullnaðarúrskurður hefur gengið í viðkomandi máli á stjórnsýslustigi á viðkomandi alltaf rétt á að fara með málið fyrir dómsstóla.
Úrskurðir á stjórnsýslustigi hafa þó þann kost að málsmeðferðin kostar ekkert og niðurstaðan getur verið bindandi fyrir stofnanir um að bæta úr málum sínum.
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Til nefndarinnar er unnt að skjóta ákvörðun félagsmálanefnda samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991 og lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997, ákvörðun húsnæðisnefnda og Íbúðalánasjóðs samkvæmt lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998 og ákvörðun félagsmálanefnda samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992.
Samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólk eiga fatlaðir einstaklingar rétt á að fá viðeigandi þjónustu þar sem þeir kjósa að búa. Samkvæmt lögunum fjallar nefndin um málsmeðferð, rétt til þjónustu og hvort þjónustan sé í samræmi við lög og reglugerðir sveitarfélaga sem eru settar á grundvelli laganna.
Málsmeðferð er aðilum að kostnaðarlausu.
Einnig er unnt að kæra til nefndarinnar ef ágreiningur rís um greiðslu bóta úr almannatrygginakerfinu.
Hægt er að nálgast eyðublöð og aðrar upplýsingar á vef velferðarráðuneytisins.
Úrskurðir nefndarinnar eru fullnaðarúrskurður á sviði stjórnsýslunnar, skv. lögum 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Unnt er að kæra úrskurði nefndarinnar til velferðarráðuneytisins.
Mennta- og menningarmálaráðuneytið
Ráðuneytið sér um að úrskurða í málum er varða öll skólastig. Þannig geta foreldrar sem telja að börn þeirra fái ekki fullnægjandi þjónustu samkvæmt lögum um grunnskóla kært það til mennta- og menningarmálaráðuneytis.
Unnt er að senda kæru til ráðuneytisins ef lög kveða á um slíkt sbr. 4. gr í lögum um grunnskóla.
Ekki er nauðsynlegt að fara í gegnum lægra dómsstig til þess að kæra til ráðuneytisins. Úrskurðir ráðuneytisins teljast fullnaðarúrskurðir.
Innanríkisráðuneytið
Ef sveitarfélög uppfylla ekki skyldur sínar skv. lögum um sveitarfélög er unnt að kæra þau til innanríkisráðuneytisins. Ekki þarf að fara í gegnum lægra setta nefnd áður en kært er til innanríkisráðuneytisins.
Umboðsmaður Alþingis
Umboðsmaður Alþingis hefur eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og á að tryggja rétt einstaklinga gagnvart stjórnvöldum landsins. Telji einstaklingur sig hafa orðið fyrir ranglæti af hendi einhvers í stjórnsýslunni þá getur hann vísað málinu til Umboðsmanns Alþingis sem gefur út álit, ákveði hann að taka málið til skoðunar. Telji aðili til dæmis að ekki hafi verið rétt farið þegar úrskurðað hafi verið í máli á stjórnsýslustigi, þá er hægt að bera þá umkvörtun undir Umboðsmann Alþingis.
Kvörtun til Umboðsmanns er ýmsum takmörkunum háð og ekki er hægt að leita til hans fyrr en að úrskurður á æðra stjórnsýslustigi hefur verið felldur. Á vef Umboðsmanns Alþingis kemur meðal annars fram að:
„Ef kvartað er út af ákvörðunum stjórnvalds, t.d. einhverrar opinberrar stofnunar, og unnt er að skjóta þeirri ákvörðun til hærra setts stjórnvalds, t.d. ráðuneytis, þá verður sá sem vill bera kvörtun fram að skjóta málinu fyrst til þess stjórnvalds, sem æðra er, áður en hann getur borið fram kvörtun við umboðsmann. Ef kvartað er yfir einhverju öðru en slíkum ákvörðunum, t.d. framkomu opinbers starfsmanns eða meðferð máls, er unnt að leita beint til umboðsmanns og þarf ekki að snúa sér áður til æðra stjórnvalds nema slíkt leiði af lögum á viðkomandi sviði.“
Á vefnum má einnig nálgast eyðublöð, leiðbeiningar um útfyllingu þeirra og nánari upplýsingar um störf Umboðsmanns Alþingis.
Dómstólar
Á Íslandi eru tvö dómsstig. Lægra dómsstig, héraðsdómar, og hærra dómstig, Hæstiréttur Íslands. Öll mál eru fyrst rekin fyrir héraðsdómi, og ekki fara öll mál til Hæstaréttar.
Vilji einstaklingur reka mál fyrir dómi þarf viðkomandi að ráða lögfræðing. Einstaklingur getur rekið sitt eigið mál en eindregið er mælt með því að lögfræðingur sé ráðinn til starfans. Möguleiki er að fá dæmda gjafsókn. Gjafsókn skuldbindur ríkið til að greiða þann málskostnað sem gjafsóknarhafi hefur sjálfur af máli, það er þóknun lögmanns og fleira. Gjafsóknarhafi er undanþeginn öllum greiðslum í ríkissjóð vegna þess máls sem gjafsókn tekur til, þar á meðal greiðslum fyrir opinber vottorð og önnur gögn sem verða lögð fram í máli.
Til þess að fá gjafsókn þarf að uppfylla tiltekin skilyrði um efnahag. Gjafsókn er einungis veitt ef nægilegt tilefni er til málshöfðunar- eða varnar sem réttlætir að kostnaðurinn sé greiddur af almannafé. Allar nánari upplýsingar um gjafsókn og hvernig sótt er um má finna á vef innanríkisráðuneytisins.
Kæra til Mannréttindadómstóls Evrópu
Mannréttindadómstóll Evrópu fer með túlkunarvald á Mannréttindasáttmála Evrópu. Dómstóllinn tekur við kærum frá einstaklingum sem telja að aðildarríki samningsins hafi brotið gegn þeim réttindum sem finna má í samningnum.
Almennt er ekki hægt að kæra meint mannréttindabrot til dómsstólsins fyrr en öll réttarúrræði í aðildarríkinu hafa verið fullreynd. Það þýðir að viðkomandi verður að bera brot á réttindum sínum undir dómsstóla og fara með málið alla leið fyrir hæstarétt. Ef héraðsdómur tekur ekki á kvörtun viðkomandi verður hann að leita til hæstaréttar. Ef hæstiréttur vísar málinu frá telst það fullreynt fyrir íslenskum dómsstólum og þá er hægt að láta reyna á kæru til Mannréttindadómstólsins.
Kæra til Mannréttindadómsstóls Evrópu verður að berast dómstólnum innan sex mánaða frá því að síðasta ákvörðun aðildarríkisins (t.d. dómur eða frávísun Hæstaréttar í tilfelli Íslands) liggur fyrir.
Kæra til Mannréttindadómstólsins verður að setja fram með því að fylla út sérstakt eyðublað sem dómstóllinn gefur út á heimasíðu sinni. Þar er einnig að finna ítarlegar leiðbeiningar um innihald og form kæru. Kæruna má skrifa á íslensku þó að mælt sé með því að hún sé skrifuð á ensku eða frönsku.
Mannréttindadómstólnum berast mörg þúsund mál á hverju ári og því getur tekið langan tíma, oft nokkur ár, áður en dómstóllinn tekur fyrir kærur frá einstaklingum.
Allar nánari upplýsingar um kæruferli til dómsstólsins má finna á vef dómsstólsins.
Persónulegir talsmenn og réttindagæslumenn fatlaðra
Fólki með geðfötlun og fólki með langvinna geðröskun, sem þarfnast stuðnings til að undirbúa upplýsta ákvörðun um persónuleg málefni eða samskipti við opinberar stofnanir eða í viðskiptum við aðra, stendur til boða að njóta stuðnings persónulegs ráðgjafa samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.
Lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk
Í fyrstu grein, öðrum málslið stendur: „Ákvæði IV. kafla [lög um talsmenn fatlaðra] gilda einnig um réttindagæslu einstaklinga sem vegna afleiðinga viðvarandi sjúkdóms eða slyss þurfa stuðning við undirbúning upplýstrar ákvörðunar um persónuleg málefni eða aðstoð við að leita réttar síns hvort sem er gagnvart opinberum þjónustuaðilum, öðrum stjórnvöldum eða einkaaðilum.“
Persónulegir talsmenn fá ekki laun fyrir störf sín í þágu fatlaðra og því verði ekki séð að allir fatlaðir einstaklingar geti nýtt sér slíkan stuðning þar sem úrræðið er ekki aðgengilegt öllum fötluðum einstaklingum án tillits til fjárhags eða annarra haga viðkomandi.
Í lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk kemur fram að markmið þeirra sé „að tryggja fötluðu fólki viðeigandi stuðning við gæslu réttinda sinna og tryggja að sjálfsákvörðunarréttur fatlaðs fólks sé virtur og fyllsta réttaröryggis gætt þegar brýna nauðsyn ber til að grípa inn í líf þess.” Í þriðja kafla laganna er sérstaklega fjallað um réttindagæslumenn fatlaðs fólks. Á vef velferðarráðuneytisins kemur fram að hlutverk þeirra er að:
„…fylgjast með högum fatlaðs fólks á sínu svæði og vera því innan handar við réttindagæslu hvers konar, hvort sem það er vegna meðferðar einkafjármuna þess, þjónustu sem það á rétt á eða varðandi önnur persónuleg réttindi eða einkamál þess.“
Réttindagæslumenn fatlaðs fólks eru átta talsins og allar nánari upplýsingar um réttindagæslumennina má finna á vef velferðarráðuneytisins.
Ráðgjafar nauðungarvistaðra
Lögræðislög tilgreina rétt nauðungarvistaðra til þess að njóta aðstoðar ráðgjafa eins fljótt og verða má eftir að nauðungarvistun hefur átt sér stað. Í 25. grein lögræðislaganna kemur fram að vakthafandi læknir á sjúkrahúsinu þar sem einstaklingur er vistaður verði að tilkynna hinum nauðungarvistaða um þennan rétt án tafar „nema slíkt sé bersýnilega þýðingarlaust vegna ástands hans.“
Lögræðislögin fjalla sérstaklega um hlutverk og skyldur ráðgjafa í 27. grein laganna. Þar kemur fram að vakthafandi sjúkrahúslækni sé skylt að hafa samband við ráðgjafa eins fljótt og verða megi og láta hann vita þegar einstaklingur er nauðungarvistaður.
Nauðungarvistaður einstaklingur á rétt á að njóta ráðgjafar og stuðnings frá ráðgjafanum vegna sjúkrahúsdvalarinnar og meðferðarinnar þar á meðan á nauðungarvistun stendur. Í því felst meðal annars að hinn nauðungarvistaði á rétt á að tala við ráðgjafann einslega og vera reglulega í samskiptum við hann á meðan á nauðungarvistuninni stendur. Ráðgjafinn á rétt á að kynna sér sjúkraskrá hins nauðungarvistaða. Ráðgjafinn getur aðstoðað við að bera ákvörðun um lögmæti nauðungarvistunarinnar undir dómstóla. Ráðgjafar verða að virða trúnað við hinn nauðungarvistaða og geta sætt refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum (18. grein almennra hegningarlaga) ef þeir brjóta trúnað.
Í 29. grein lögræðislaga kemur fram að nauðungarvistuðum einstaklingi og fjölskyldu hans skuli standa til boða ráðgjöf og stuðningur í kjölfar nauðungarvistunarinnar. Þar kemur fram að heilbrigðisráðherra eigi að setja reglugerð sem ákveður m.a. hver skuli veita slíka ráðgjöf en ekki er að sjá að sú reglugerð hafi verið samþykkt enn sem komið er. Því er óljóst hvort nauðungarvistaðir og aðstandendur þeirra geti nýtt sér þetta úrræði sem stendur.
Hagsmunasamtök sem gætu aðstoðað
Ýmis hagsmunasamtök geta aðstoðað. Til dæmis Öryrkjabandalagið (ÖBÍ), Geðhjálp, talsmaður sjúklinga, réttargæslumenn fatlaðra og landlæknir.