RÉTTURINN TIL BESTU MÖGULEGU HEILSU
Rétturinn til heilsu felur í sér réttinn til að njóta ákveðinnar þjónustu sem manneskjur þarfnast til njóta bestu mögulegu heilsu, jafnt andlega sem líkamlega. Rétturinn til heilsu felur einnig í sér frelsi hvers og eins til að ráða yfir eigin líkama og taka ákvörðun um viðeigandi meðferð.
RÉTTURINN TIL FRELSIS
Rétturinn til frelsis þýðir að venjulega eiga allir að vera frjálsir ferða sinna. Yfirvöld geta lokað fólk inni eða haldið því á ákveðnum stöðum gegn vilja þess en aðeins ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt. Þegar yfirvöld halda fólki gegn vilja sínum á ákveðnum stað er talað um frelsissviptingu eða frelsisskerðingu fólks.
BANN VIÐ PYNDINGUM
Bann við pyndingum er alþjóðlega viðurkennt sem ófrávíkjanleg og algild lög sem gilda alls staðar, um alla, og óháð aðstæðum hverju sinni. Falið form pyndinga og ómannúðlegrar meðferðar er beiting þvingaðrar meðferðar, þvingaðrar lyfjagjafar og annarrar nauðungar sem veldur alvarlegum sársauka eða þjáningu þess sem fyrir því verður. Geðfatlað fólk, fólk með þroskaskerðingu eða fólk sem er talið vera með einhvers konar geðrænan sjúkdóm er mjög hætt við að verða fyrir slíkri meðferð, sérstaklega ef það er vistað gegn vilja sínum á sjúkrahúsi eða lokaðri stofnun.
RÉTTURINN TIL ÞESS AÐ NJÓTA LÖGFORMLEGS HÆFIS TIL JAFNS VIÐ AÐRA
Lögformlegt hæfi er lögfræðilegt hugtak sem notað er til þess að lýsa rétti fólks til þess að ráða eigin högum og stjórna lífi sínu. Lögformlegt hæfi er að njóta viðurkenningar sem persóna sem nýtur réttinda til jafns við aðra. Að njóta lögformlegs hæfis felur í sér sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstæði hvers einstaklings gagnvart afskiptum eða yfirráðum yfirvalda og annarra. Allir einstaklingar eiga rétt á að njóta lögformlegs hæfis til jafns við aðra.
RÉTTURINN TIL SANNGJARNRA RÉTTARHALDA
Réttinum til sanngjarnra réttarhalda má skipta í tvo hluta: Réttarhöld vegna sakamála og réttarhöld vegna annarra mála. Fatlað fólk, þá sérstaklega geðfatlað fólk, hefur þar til nýlega fengið aðra meðferð í réttarkerfinu heldur en ófatlað fólk. Sú meðferð einkennist einkar af því að geðfatlað fólk er úrskurðað óhæft til þess að taka þátt í réttarhöldum eða ósakhæft vegna glæps sem þau eru sökuð um að hafa framið.
JAFNRÉTTI OG BANN VIÐ MISMUNUN
Segja má að jafnrétti og bann við mismunun séu tvær hliðar á sama skildingi. Jafnrétti felur í sér að njóta réttinda til jafns við aðra. Mismunun á sér stað þegar einstaklingum er neitað um réttindi sín eða þau eru skert verulega á ómálefnalegum grundvelli, til dæmis vegna kyns, litarhafts, þjóðernis, fötlunar eða efnahags.