Segja má að jafnrétti og bann við mismunun séu tvær hliðar á sama skildingi. Jafnrétti felur í sér að njóta réttinda til jafns við aðra. Mismunun á sér stað þegar einstaklingum er neitað um réttindi sín eða þau eru skert verulega á ómálefnalegum grundvelli, til dæmis vegna kyns, litarhafts, þjóðernis, fötlunar eða efnahags. Með því að berjast gegn mismunun erum við í raun að berjast fyrir jafnrétti. Þegar við berjumst gegn undirliggjandi þáttum í samfélaginu sem valda misrétti erum við að vinna að auknu jafnrétti.
Samband misréttis og jafnréttis getur leitt til ruglings um raunverulega merkingu jafnréttis. Ætla mætti að jafnrétti feli í sér að allir skulu hljóta eins eða sambærilega meðferð en það er ekki svo. Jafnrétti þýðir að allir njóta sömu mannréttinda en ekki endilega að allir séu eins eða sambærilegir einstaklingar með sambærilegar þarfir. Til þess að tryggja að allir geti notið sömu réttinda þarf stundum að meðhöndla suma einstaklinga öðruvísi en aðra vegna fjölbreytileika mannkynsins; sumir þarfnast sérstakra úrræða vegna kyns, fötlunar, þjóðfélagsstöðu eða efnahags til þess að geta notið jafnréttis.
Að koma fram við mismunandi fólk á mismunandi hátt er ekki mismunun þegar um er að ræða framkomu sem viðurkennir mismunandi þarfir og getu einstaklinga og tilgangurinn er að auka jafnrétti á milli þeirra. Dæmi um þetta væri að ráða túlk fyrir heyrnarskerta manneskju svo hún geti tjáð sig og skilið aðra til jafns við aðra sem ekki eru heyrnarskertir. Með því er ekki verið að mismuna fólki sem ekki er heyrnarskert og ekki fær túlk. Þess í stað er verið að tryggja heyrnarskertu manneskjunum getu til þess að njóta tjáningarfrelsis til jafns við aðra sem ekki eru heyrnarskertir.
Margir mannréttindasáttmálar innihalda sérstakar kvaðir um jafnrétti og einnig bann við mismunun. Sem dæmi má nefna að Mannréttindasáttmáli Evrópu inniheldur ákvæði sem tryggir öllum jafna stöðu fyrir lögum sem og ákvæði sem bannar mismunun.
Að njóta jafnrar réttarstöðu og jafnrar réttarverndar felur í sér að vera viðurkennd sem manneskja fyrir lögum sem nýtur þeirra réttinda sem lögin veita til jafns við aðra. Bann við mismunun felur í sér skyldu yfirvalda að tryggja jafna réttarstöðu og jafna réttarvernd borgaranna.
Mannréttindasáttmálar fela í sér fjöldamörg réttindi, eins og tjáningarfrelsi, rétt á sanngjörnum réttarhöldum, rétt til frelsis og bann við pyntingum. Bann við mismunun felur í sér rétt til þess að vera ekki meinað um réttindi sín vegna þátta eins og kyns, fötlunar, kynhneigðar eða þjóðfélagsstöðu. Þannig má ekki banna konum að tjá sig bara vegna þess að þær eru konur, rétt eins og ekki má svipta fólk frelsi á þeim grunni einum að það býr við fötlun.
Mismunun á grundvelli fötlunar
Mannréttindi eiga að sjálfsögðu að tryggja rétt allra til þess að njóta þeirra án tillits til trúarbragða, kynþáttar, fötlunar, kyns, þjóðernis, þjóðfélagsstöðu, kynvitundar eða annarra ómálefnalegra ástæðna. Það liggur í hlutarins eðli að allir eigi að njóta friðhelgi einkalífs, tjáningarfrelsis, félagafrelsis, réttar til lífs og frelsi frá pyndingum og annarri ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð, réttar til bestu mögulegu heilsu og annarra mikilvægra félagslegra og borgaralegra réttinda. Samt sem áður hefur fötluðu fólki löngum verið neitað um að njóta þessarra sjálfsögðu mannréttinda til jafns við aðra.
Mismunun á grundvelli fötlunar á sér langa sögu og tekur á sig ýmsar birtingamyndir. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna lýsti því yfir fyrir rúmum tuttugu árum síðan að mismunun á grundvelli fötlunar væri fjölbreytt og fælist bæði í einstaklingsbundinni sem og kerfisbundinni mismunun gagnvart fólki með fötlun. Nefndin fjallaði sérstaklega um einstaklingsbundna mismunun sem fælist í að einstaklingum með fötlun væri neitað um menntunartækifæri til jafns við aðra. Þá nefndi mannréttindanefndin einnig faldari form mismununar eins og aðskilnað fatlaðs fólks frá samfélaginu með stofnanavistunum og öðrum félagslegum útilokunartólum.
Mannréttindanefndin sagði ennfremur:
„Fólki með fötlun hefur löngum verið neitað um að nýta sér efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sín til jafns við aðra vegna fjölbreyttra ástæðna eins og vanrækslu, vanþekkingar, fordóma, aðskilaði og útilokunar frá samfélaginu. Mismunun vegna fötlunar hefur haft sérstaklega neikvæð áhrif á sviðum menntunar, atvinnu, húsnæðisöryggis, ferðafrelsis, menningarlífs og aðgengiss að opinberri þjónustu og opinberum byggingum.“
Álit mannréttindanefndarinnar sneri sérstaklega að félagslegum réttindum en áhrifa mismununar vegna fötlunar gætir ekki síður þegar við kemur stjórnmálalegum og borgaralegum réttindum. Fólki með fötlun er neitað um að njóta lögformlegs hæfis til jafns við aðra, til dæmis með sviptingu fjárræðis, þar sem fötluðu fólki er neitað um að ráða eigin fjárhag, skrifa undir samninga og selja og kaupa eignir.
Margvísleg form mismununar
Mannréttindalögfræðin hefur skilgreint fjölda tegunda af ólöglegri mismunun eftir birtingarmynd þeirra. Þannig getur mismunun verið að finna í lögum og/ eða í framkvæmd á lögum. Til er svokölluð kerfisbundin mismunun og mismunun vegna tengsla. Eins er hægt að skilgreina beina og óbeina mismunun. Með alvarlegri tegundum mismununar er mismunun í formi áreitis eða árása. Loks inniheldur Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra sérstaka skilgreiningu og útlistun á mismunun á grundvelli fötlunar.
Mismunun í lögum (de jure mismunun)
Mannréttindalög heimila ekki að mismunun gagnvart sérstökum þjóðfélgashópum sé fest í lög. Þetta þýðir að lög mega ekki taka ákveðna þjóðfélagshópa út fyrir sviga og neita þeim um réttindi sín eða skerða þau. Á meðan samkynhneigð pör máttu ekki gifta sig eins og gagnkynhneigð pör var þeim mismunað á grundvelli kynhneigðar. Þegar konur máttu ekki kjósa eins og karlar var þeim mismunað á grundvelli kyns. Þessa mismunun var að finna í lögum þar til þeim var breytt til þess að gæta jafnréttis á grundvelli kyns og kynhneigðar.
Á meðan stór framfaraskref hafa verið stigin á síðustu árum og áratugum í átt að lagalegu jafnrétti kvenna, samkynhneigðra og annarra þjóðfélagshópa hafa réttindi fatlaðs fólks fengið að sitja á hakanum. Einstaklingum með alvarlegar geðraskanir eða geðfötlun er sérstaklega mismunað um að njóta til fulls þeirra réttinda er snúa að sjálfsákvörðunarrétti og frelsi. Sem dæmi má nefna að lögræðislögin á Íslandi heimila frelsissviptingu fólks á þeim grundvelli einum að einstaklingur sé álitinn búa við alvarlegan geðsjúkdóm. Fólk með fötlun (alvarlegan geðsjúkdóm) er þannig tekið út fyrir sviga og þeim neitað um grundvallarréttindi (rétt til frelsis) til jafns við aðra.
Mismunun í framkvæmd (de facto mismunun)
Bann við mismunun gengur lengra en að banna mismunun í lögum og inniheldur einnig bann við mismunun í framkvæmd. Sem dæmi má nefna að bann við mismunun felur í sér vernd gegn því að vinnuveitandi taki ákvarðanir um ráðningnar og stöðuhækkanir á grundvelli staðalmynda eða fordóma gagnvart ákveðnum þjóðfélagshópum. Vinnuveitandi sem neitar starfsmanni með fötlun um stöðuhækkun vegna þess að hann trúir því að starfsmaðurinn geti ekki sinnt starfinu sem skyldi vegna fötlunar sinnar, án þess að hafa nein gögn né sannanir því til stuðnings er að mismuna starfsmanninum á grundvelli fötlunar. Sú hegðun aðgreinir hinn fatlaða einstakling og mismunar honum í framkvæmd á grundvelli fötlunar.
Annað dæmi um mismunun í framkvæmd er mismunun sem verður af völdum framkvæmdar á lögum, án þess þó að lögin innihaldi ákvæði sem mismuna ákveðnum þjóðfélagshópi sérstaklega samkvæmt orðanna hljóðan. Erfiðara er að auðkenna þessa tegund mismununar heldur en einfalda mismunun í lögum. Skoða verður hvort framkvæmd laganna valdi því að þau hafi sérstaklega neikvæð áhrif á ákveðin þjóðfélagshóp eða valdi því að sá hópur fær aðra og verri meðferð við framkvæmd laganna heldur en þeir sem ekki tilheyra hópnum.
Dæmi um mismunun í framkvæmd má finna í framkvæmd laga um lögræðissviptingar á Íslandi. Lögin virka þannig að fólk með geðraskanir og geðfötlun er margfalt líklegra að verða fyrir lögræðissviptingu heldur en ófatlaðir einstaklingar sem og aðrir sem eru veikir eða fatlaðir á annan hátt. Í raun má segja að lög um lögræðissviptingar útiloki nánast algjörlega að ófatlað fólk verði fyrir lögræðissviptingu en heimilar sviptingu á grundvelli margvíslegra tegunda fötlunar. Almennt má segja að lögræðislögin á Íslandi, eins og þau standa í dag mismuni fötluðum og þá sérstaklega geðfötluðum í framkvæmd sinni. Slík mismunun stangast á við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra sem og aðrar alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar íslenska ríkisins.
Bein mismunun
Bein mismunun á sér stað þegar komið er verr fram við tiltekinn einstakling heldur en annan einstakling í sambærilegum aðstæðum á grundvelli þátta eins og fötlunar, kynferðis, kynþáttar eða trúarbragða.
Bein mismunun er greind með því að skoða hvort einstaklingar í sambærilegum aðstæðum hljóti sambærilega meðferð eða ekki. Þekktustu dæmin um slíka greiningu eru eflaust mál þar sem mismunun á grundvelli kynferðis eru greind; ef kona og karl sækja um sama starf og karlinn hlýtur stöðuna þrátt fyrir að hafa minni reynslu eða minni menntun en konan er gjarnan talað um að konunni hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis síns. Karlinn og konan eru í sambærilegum aðstæðum að því leyti að þau sækjast bæði eftir sama starfi. Ef sannað þykir að karlinn hafi hlotið starfið þrátt fyrir að konan sem sótti um sama starf sé hæfari til þess að sinna því en karlinn þá má segja að komið sé verr fram við konuna á grundvelli kyns síns.
Dæmi um beina mismunun vegna fötlunar væri ef að fyrirtæki neitaði að taka starfsumsóknir fatlaðra einstaklinga til skoðunar óháð því hvort fötlun þeirra hafi nokkur á getu þeirra til þess að sinna því starfi sem stendur til boða. Sömuleiðis væri dæmi um beina mismunun ef fötluðum einstaklingum væri neitað um inngöngu í nám, óháð getu þeirra til þess að sinna náminu.
Óbein mismunun
Óbein mismunun vísar til laga, stefna eða framkvæmda sem líta ekki út fyrir að mismuna fólki en gera það með því að taka ekki tillit til mismunandi áhrifa og kringumstæðna fólks. Dæmi um óbeina mismunun í stefnu væri ef reglur á vinnustað gera ráð fyrir því að allir starfsmenn skuli taka matarhlé á sama tíma án undantekninga. Á yfirborðinu lítur út fyrir að jafnt eigi yfir alla að ganga og því sé ekki um neina mismunun að ræða. Reglan er þó svo afdráttarlaus að hún tekur ekki mið af þörfum starfsmanna sem mögulega þurfa hvíld á ákveðnum tímum dags eða þurfa að taka lyf á ákveðnum tímum dags sem ríma ekki við settan matartíma.
Óbein mismunun í lögum má finna í lögum sem virðast eiga að ganga yfir alla jafnt en hafa í eðli sínu verri áhrif á ákveðna þjóðfélagshópa heldur en aðra. Dæmi um slík lög má finna í íslensku lögræðislögunum. Ákvæði laganna um beitingu lögræðissviptinga er nánast eingöngu hægt að beita gegn fólki með fötlun. Það er svo vegna þess að skilyrði til lögræðissviptingar byggja að mestu leyti á því að manneskjan sem fyrir henni verður búi við einhvers konar fötlun. Ef að lög hafa verri áhrif á ákveðna þjóðfélagshópa án þess að fyrir því séu málefnalegar og sanngjarnar ástæður þá er oft um óbeina mismunun gegn þeim þjóðfélagshópi að ræða.
Kerfisbundin mismunun
Kerfisbundin mismunun á sér stað þegar mismunun gegn fólki á sér stað vegna víðtækra fordóma og mismununar innan samfélagsins og þeirra stofnanna sem samfélagið byggir. Kerfisbundna mismunun má til dæmis finna í því viðhorfi sem víða viðgengst gagnvart fötluðu fólki þess efnis að það sé ófært um að taka sjálfstæðar ákvarðanir í eigin lífi. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks tekur mið að kerfisbundinni mismunun gagnvart fötluðu fólki meðal annars með því að skylda aðildarríki samningsins til þess að vinna markvisst að því að minnka fordóma og auka virðingu gagnvart fötluðu fólki í samfélaginu.
Margþætt mismunun
Margþætt mismunun á sér stað þegar einstaklingur verður fyrir mismunun vegna nokkurra mismunandi þátta. Fólk með fötlun getur orðið fyrir margþættri mismunun vegna samblands fötlunar þeirra, kyns, kynþáttar, trúar þeirra eða aldurs. Fötluð kona gæti orðið fyrir mismunun á grundvelli þess að hún er fötluð á sama tíma og hún verður fyrir mismunun á grundvelli þess að hún sé kona. Fatlaðar konur eru til dæmis líklegri til þess að verða fyrir kynferðisofbeldi heldur en ófatlaðar konur á sama tíma og konur eru líklegri til þess að verða fyrir kynferðisofbeldi heldur en karlar. Þessar staðreyndir eru dæmi um hvernig fatlaðar konur geta orðið fyrir margþættri mismunun.
Áreiti
Áreiti á sér stað þegar einstaklingur verður ítrekað fyrir óviðeigandi athugasemdum, háði eða annarri niðrandi framkomu annarra á grundvelli fötlunar sinnar eða annarra þátta eins og kyns, kynhneigðar, kynþáttar eða trúar. Lög eiga að vernda fólk gegn áreiti annarra.
Mismunun vegna tengsla
Ófötluðum einstaklingum er stundum mismunað á grundvelli tengsla þeirra við fatlaða einstaklinga. Dæmi um slíka mismunun væri vinnuveitandi sem ákveður að reka starfsmann eftir að hann kemst að því að starfsmaðurinn á fatlað barn. Yfirmaðurinn gerði ráð fyrir því að fötlun barnsins myndi verða þess valdandi að starfsmaðurinn þyrfti að taka sér frí frá til þess að sinna barninu sínu og ákveður á þeim grunni að láta hann fara. Starfsmaðurinn sjálfur býr ekki við fötlun en honum er mismunað vegna tengsla sinna við fatlaðan einstakling.
Mismunun gegn fötluðu fólki og Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks innihalda ákvæði sem tryggja jafnrétti fatlaðs fólks og bann við mismunun á grundvelli fötlunar. Samningurinn inniheldur einnig skilgreiningu á mismunun á grundvelli fötlunar, en í annari grein samningsins segir:
Mismunun á grundvelli fötlunar:
“Merkir aðgreiningu, útilokun eða takmörkun af hvaða tagi sem er vegna fötlunar sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að torvelda eða koma í veg fyrir að fatlað fólk fái viðurkennd, notið eða nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og mannfrelsi á sviði stjórn-, efnahags-, félags- og menningarmála, sem borgarar eða á öðrum sviðum. Fyrrnefnd mismunun tekur til mismununar í hvaða mynd sem er, m.a. að fötluðu fólki sé neitað um viðeigandi aðlögun.“
Til þess að skilja betur inntak skilgreiningarinnar er farsælast að skipta henni niður í nokkra þætti.
Mismunun “merkir aðgreiningu, útilokun eða takmörkun af hvaða tagi sem er vegna fötlunar” felur í sér breiða skilgreiningu á hvers konar hegðun eða fyrirkomulag getur talist mismunun.
Aðgreining felur í sér að fólk með fötlun sé tekið sérstaklega fyrir eða aðgreint frá öðrum og meðhöndlað á annan og verri hátt en ófatlað fólk. Dæmi um þetta væri ef börn með þroskahömlun væru látin sæta ófrjósemisaðgerð á meðan ófötluð börn væru það ekki.
Útilokun á sér stað þegar manneskju með fötlun er meinað um aðgang að ákveðnu rými eða um þátttöku í ákveðnum athöfnum vegna fötlunar sinnar. Dæmi um þetta er þegar börnum með fötlun er meinaður aðgangur að hinu almenna skólakerfi og þau aðskilin frá ófötluðum börnum.
Með takmörkun er átt við að réttur fatlaðs fólks til þess að taka þátt í ákveðnum samfélagslegum verkefnum, til dæmis stjórnmálaþátttöku eða efnahagslífinu, er takmarkaður á grundvelli fötlunar þeirra. Dæmi um slíka takmörkun væru lög sem meina fólki með þroskahömlun að kjósa þrátt fyrir að hafa náð kosningaaldri.
Mismunun vegna fötlunar
Samningurinn vísar til mismununar vegna fötlunar sem felur í sér víðtækari skilgreiningu en mismunun gagnvart fötluðu fólki. Tilgangur þessarar víðu skilgreiningar er að vinna markvisst gegn mismunun í öllum sínum formum. Í stað þess að “vernda fólk með fötlun” er banninu við mismunun ætlað að vinna gegn hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar, hvort sem hún beinist gegn manneskju með fötlun eða manneskju sem tengist fatlaðri manneskju á einn eða annan hátt (mismunun vegna tengsla).
Slík nálgun er í takt við áherslur samningsins á samfélagslega þætti fötlunar sem og mannréttindamiðaða nálgun hans gagnvart fötluðu fólki. Þannig vill samningurinn vinna í rót vandans, þ.e. hinum samfélagslegu þáttum sem valda því að fólk með fötlun er oft sett í varnarlausa stöðu og þeim mismunað. Þegar fólk verður fyrir mismunun á grundvelli þess að aðrir álíta þá fatlaða eða tengjast fötluðum er það vísbending um fordóma í samfélaginu. Mannréttindalög leitast við að breyta neikvæðum viðhorfum sem þessum til þess að vinna að heimi án mismununar á grundvelli fötlunar.
“Hefur þann tilgang eða áhrif”
Önnur grein samningsins útskýrir hvernig aðgreining, útilokun eða takmörkun felur í sér brot á samningnum ef þau a) hefur þann tilgang að mismuna manneskju á grundvelli fötlunar (mismunun af ásetningi) eða b) hefur þau áhrif (útkoma aðgerðarinnar hefur þá afleiðingu að einstaklingi er mismunað, hvort sem um ásetning var að ræða eða ekki) að torvelda eða koma í veg fyrir að fatlað fólk fái viðurkennd, notið eða nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og mannfrelsi á sviði stjórn-, efnahags-, félags- og menningarmála, sem borgarar eða á öðrum sviðum.
Mismunun á grundvelli fötlunar getur átt sér stað þrátt fyrir að enginn hafi ætlað sér slíkt og hafi því ekki ásetning fyrir hendi. Samningurinn leggur áherslu á upplifun einstaklingsins sem verður fyrir mismunun og nær því einnig yfir mismunun án ásetnings. Kæruleysi eða vanræksla geta haft sömu, ef ekki verri áhrif og mismunun sem framkvæmd er með ásetningi. Þetta orðalag samningsins vísar til þess að bann við mismunun nær yfir bæði beina og óbeina mismunun.
Viðurkennd, notið eða nýtt sér réttindi til jafns við aðra
Vernd gegn mismunun felur ekki einungis í sér lagalega viðurkenningu á jöfnum réttindum fatlaðs fólks heldur einnig að það fái notið þessara réttinda og geti nýtt sér þau til jafns við aðra. Fatlað fólk á að njóta frelsis til tjáningar, njóta ferðafrelsis og frelsi frá pyntingingum til jafns við aðra. Sömuleiðis á fatlað fólk að geta nýtt sér réttindi sín til jafns við aðra, til dæmis með því að neita ákveðinni læknismeðferð eða sækja sér menntun eftir eigin áhugasviði. Ákvæðið um að fatlað fólk skuli fá viðurkennd, notið eða nýtt sér réttindi sín til jafns við aðra endurspeglar bann við mismunun í lögum sem og í framkvæmd.
Samningnum er ekki ætlað að skapa ný mannréttindi fyrir fólk með fötlun heldur á hann að vinna gegn mismunun. Tilgangur samningsins er þannig að vinna gegn þeim hindrunum og viðhorfum sem koma í veg fyrir að fólk með fötlun fái notið réttinda sinna til jafns við aðra.
Neitun um viðeigandi aðlögun
Skilgreining samningsins á mismunun á grundvelli fötlunar viðurkennir að neitun um viðeigandi aðlögun getur verið tegund af mismunun. Aðildarríkjum samningsins er skylt að gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk fái viðeigandi aðlögun. Í því felst margvíslegar aðgerðir til þess að aðlaga umhverfið að þörfum fatlaðs fólks. Auðvelt dæmi væri að auðvelda aðgengi hreyfihamlaðra að öllum opinberum byggingum, til dæmis með því að tryggja aðgengi fyrir hjólastóla og með því að taka frá bílastæði fyrir fatlaða nálægt inngangi opinberra bygginga. Viðeigandi aðlögun er í raun allar aðgerðir sem fjarlægja hindranir sem valda því að fatlað fólk getur ekki tekið þátt í samfélaginu á einn eða annan hátt. Dæmi um þetta væri túlkaþjónusta fyrir fólk sem einhverra hluta vegna tjáir sig ekki á hefðbundinn hátt. Annað dæmi væri að bjóða fólki með vissar fatlanir upp á sveigjanlegan vinnutíma, aðlagað námsmat eða viðeigandi þjálfun starfsfólks til þess að auðvelda fólki með fötlun að taka þátt í námi eða í atvinnulífinu.
Aðildarríki samningsins hafa þó visst svigrúm til þess að verða við óskum einstaklinga um viðeigandi aðlögun. Ef umrædd aðlögun felur í sér of þunga byrði á hendur þess sem hana á að veita felur það ekki í sér brot á samningnum ef hún er ekki framkvæmd. Gjarnan er litið til þess hversu auðveldlega megi framkvæma aðlögunina, hvað hún kosti, fjárhag viðkomandi fyrirtækis, einstaklings eða stofnunar sem veita á aðlögunina og áhrif hennar á starfsemi viðkomandi.
Jafnrétti og bann við mismunun í alþjóðlegum Mannréttindasáttmálum
Í alþjóðasamningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem og Mannréttindasáttmála Evrópu er yfirvöldum gert að tryggja jafna viðurkenningu allra fyrir lögum og sömuleiðis jafna vernd allra fyrir lögum. Þessi réttindi eru náskyld réttinum til þess að njóta lögformlegs hæfis til jafns við aðra, þau fela í sér skyldu yfirvalda til þess að líta á allar manneskjur sem einstaklinga sem njóta ákveðinna grundvallarmannréttinda án aðgreiningar.
Stundum má finna sérstakar kvaðir um jafnrétti eða sérstök bönn við mismunum gagvart sérstökum réttindum. Þetta er gert til þess að tryggja enn betur að allar manneskjur fái notið þeirra réttinda sem um ræðir og vernda sérstaklega þá hópa sem oftast verða fyrir mismunun réttinda sinna í sérstökum réttindaflokki.
Í samningi um afnám allrar mismununar vegna kynþáttar er sérstaklega bannað að mismuna fólki á grundvelli kynþáttar, í samningi um afnám allrar mismununar gegn konum er sérstaklega bannað að mismuna fólki á grundvelli kyns og í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er sérstaklega bannað að mismuna fólki á grundvelli fötlunar.
Dæmi um sérstaklega vernduð réttindi má finna í alþjóðasamningi um félagsleg, menningarleg og efnahagsleg réttindi er yfirvöldum gert að tryggja jafnan rétt allra til náms og frjálst aðgengi allra að æðri menntun. Aðgengi að menntun eykst stöðugt en því miður er þó ennþá algengt að stúlkum sé meinuð skólaganga til jafns við drengi í mörgum löndum heims. Fötluðum börnum og fötluðu fólki er einnig oft meinuð skólaganga til jafns við ófatlaða einstaklinga og aðgengi þeirra að æðri menntun er verri heldur en aðgengi ófatlaðra. Það er því full ástæða að ítreka sérstaklega að allar manneskjur eiga jafnan rétt á menntun, burtséð frá kyni, fötlun eða öðrum breytum. Trúfrelsið, sem finna má í hinum ýmsu samningum er gott dæmi um mannréttindi sem tryggja á rétt allra til þess að aðhyllast trú eða lífsskoðun án þess að verða fyrir mismunun af þeim völdum.
Þó mannréttindasáttmálar eins og Mannréttindasáttmála Evrópu tali sérstaklega um jafnan rétt allra til sanngjarnra réttarhalda og jafnan rétt allra til réttlætis hefur löngum verið litið svo á að þessi réttur gildi ekki fullkomlega þegar kemur að fólki með fötlun. Ástæðurnar að baki þessari mismunun eru margvíslegar en aðallega felst hún í því að fatlað fólk, þá sérstaklega fólk með geðröskun, geðfötlun og þroskaröskun er ekki álitð hafa sömu getu til þátttöku í réttarkerfinu og aðrir og því eru þeim ekki veitt sömu réttindi og skyldur og ófatlaðir hafa alla jafna í réttarhöldum. Grundvallarréttindum, eins og að fá að vera viðstaddur í réttarsal til þess að tala máli sínu, er ekki framfylgt vegna þess að læknar eða dómarar líta svo á að hinn fatlaði einstaklingur sé ófær um að tala máli sínu, eða að það þjóni engum tilgangi að heyra hvað hann hefur um hlutina að segja. Þessi framkoma neitar fötluðu fólki um að njóta réttar til sanngjarnra réttarhalda til jafns við aðra og meinar þeim aðgengi að réttlæti.
Til þess að fatlað fólk geti notið raunverulegs jafnréttis þegar kemur að aðgengi þeirra að réttlæti verður í sumum tilfellum að tryggja þeim viðeigandi stuðning og aðgengi að réttlæti. Í því felst til dæmis túlkaþjónusta fyrir einstaklinga sem einhverra hluta vegna geta ekki komið vilja sínum og afstöðu frá sér á hefðbundinn hátt. Eins felst í því þjálfun á starfsfólki réttarkerfisins svo það megi betur skilja hvernig jafnræði fatlaðs fólks fyrir lögum sé best tryggt.