Bann við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu

Bann við pyndingum er alþjóðlega viðurkennt sem ófrávíkjanleg og algild lög sem gilda alls staðar, um alla, og óháð aðstæðum hverju sinni. Bannið er að finna í Mannréttindasáttmála Evrópu, í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, í Samningi gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og í Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Bannið er álitið meðal æðstu laga alþjóðasamfélagsins og gildir því alls staðar á jörðinni, óháð því hvort ákveðið ríki hafi gerst aðili að ofangreindum samningum eða ekki.

Alþjóðalög heimila ekki pyndingar undir nokkrum kringumstæðum þó svo að yfirvöld sumra landa reyni að skýla sér á bak við „göfug” markmið þegar upp kemst að þau hafa beitt fólk pyndingum. Yfirvöld bera því jafnan við að þau hafi neyðst til þess að pynda viðkomandi til þess að vernda líf annarra eða hagsmuni ríkisins. Bíómyndir og sjónvarpsþættir eiga það til að sýna pyndingar á grunuðum glæpamönnum eða hryðjuverkamönnum í jákvæðu ljósi þar sem yfirvöld „neyðast” til þess að pynda viðkomandi til þess að finna tifandi tímasprengju eða manneskju í lífshættu. Slík framsetning er hættuleg og villandi því hún gerir lítið úr alvarleika pyndinga, lítur framhjá því að gagnsemi þeirra til þess að ná fram réttum upplýsingum hefur ítrekað verið afsönnuð og ýtir undir það viðhorf að pyndingar séu lögmætar undir ákveðnum kringumstæðum, sem þær eru aldrei.

Annað og töluvert faldara form pyndinga og ómannúðlegrar meðferðar er beiting þvingaðrar meðferðar, þvingaðrar lyfjagjafar og annarrar nauðungar sem veldur alvarlegum sársauka eða þjáningu þess sem fyrir því verður. Geðfatlað fólk, fólk með þroskaskerðingu eða fólk sem er talið vera með einhvers konar geðrænan sjúkdóm er mjög hætt við að verða fyrir slíkri meðferð, sérstaklega ef það er vistað gegn vilja sínum á sjúkrahúsi eða lokaðri stofnun.

Enn þann dag í dag þykir eðilegt að loka fatlað fólk inn á stofnunum, neyða það til þess að undirgangast ákveðna meðferð eða taka ákveðin lyf ef læknir eða heilbrigðisstarfsmaður álítur það einstaklingnum fyrir bestu. Alþjóðlegar mannréttindastofnanir hafa jafnvel tekið undir þessi sjónarmið og ekki litið svo á að slík meðferð falli undir bann við pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Tilkoma Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kollvarpar þessum viðhorfum og krefst þess að fatlað fólk njóti sömu mannhelgi og frelsi frá þvingaðri meðferð og aðrir. Skilgreining alþjóðasamfélagsins á því hvað fellur undir pyndingar er að breytast í samræmi við áherslur samningsins.

 

Skilgreining á pyndingum

Almenn málnotkun notar orðið pyndingar til þess að lýsa hvers kyns beitingu alvarlegs ofbeldis einstaklings eða einstaklinga gagnvart öðrum. Alþjóðleg skilgreining á pyndingum er talsvert afmarkaðari. Til þess að ákveðinn verknaður geti talist pyndingar samkvæmt alþjóðalögum verður hann að uppfylla fjögur skilyrði sem skilgreind eru í Samningi gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Fyrsta grein samningsins skilgreinir pyndingar sem:

hvern þann verknað sem manni er vísvitandi valdið alvarlegum líkamlegum eða andlegum sársauka eða þjáningu með í því skyni t.d. að fá hjá honum eða þriðja manni upplýsingar eða játningu, refsa honum fyrir verk sem hann eða þriðji maður hefur framið eða er grunaður um að hafa framið, eða til að hræða eða neyða hann eða þriðja mann, eða af ástæðum sem byggjast á mismunun af einhverju tagi, þegar þeim sársauka eða þjáningu er valdið af eða fyrir frumkvæði eða með samþykki eða umlíðun opinbers starfsmanns eða annars manns sem er handhafi opinbers valds. Hugtakið tekur ekki til sársauka eða þjáningar sem rekja má að öllu leyti til eða tilheyrir eða leiðir af lögmætum viðurlögum.”

Eins og sjá má felur skilgreiningin á pyndingum í sér fjögur einkennandi skilyrði:

 1. Verknaður sem veldur einhverjum alvarlegum líkamlegum eða andlegum sársauka eða þjáningu.
 1. Verknaðurinn er framinn af yfirlögðu ráði (vísvitandi).
 1. Verknaðurinn er framinn til þess að ná fram ákveðnu markmiði (í því skyni að fá játningu frá viðkomandi, refsa honum, mismuna honum eða hræða hann til dæmis).
 1. Verknaðurinn er framinn af opinberum starfsmanni, á vegum hins opinbera eða annarra sem starfa fyrir hönd hins opinbera (Þjáningunni eða sársaukanum er valdið af eða fyrir frumkvæði eða með samþykki eða umlíðun opinbers starfsmanns eða annars manns sem er handhafi opinbers valds).

Það sem aðgreinir pyndingar frá annarri ómannúðlegri meðferð er að ofbeldinu verður að vera beitt viljandi af einhvers konar opinberum starfsmanni og því verður að vera beitt til þess að ná fram sérstöku markmiði. Þekktasta form pyndinga er eflaust þegar lögregla eða fangaverðir beita alvarlegu ofbeldi til þess að ná fram játningu eða fá upplýsingar frá manneskju í varðhaldi. Einnig er algengt að yfirvöld noti pyndingar til þess að brjóta niður lífsvilja og þrótt pólitískra andstæðinga sinna, til þess að hræða þá til hlýðni eða til þess að kúga fjölskyldur þeirra og ástvini.

Verknaðurinn verður að valda sérstaklega alvarlegum líkamlegum eða andlegum sársauka til þess  að teljast pyndingar í skilningi laganna.  Ekki er til nákvæm skilgreining á því hvað telst alvarlegur sársauki eða þjáning, alvarleikinn er metinn út frá mörgum mismunandi þáttum eins og heilsu, kyni, tímalengd og aðstæðum hverju sinni. Skilgreiningin gerir ekki greinarmun á líkamlegum eða andlegum sársauka enda er viðurkennt að andlegur sársauki geti jafnvel haft verri langtíma áhrif heldur en líkamlegur sársauki.

Önnur alvarleg ill meðferð sem uppfyllir ekki öll fjögur skilyrðin (um alvarleika, ásetning, tilgang og aðkomu yfirvalda) fellur undir skilgreiningu á „grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu” sem finna má í 16. grein samningsins.

Pyndingar og önnur ómannúðleg meðferð í geðheilbrigðiskerfinu

Þrátt fyrir alþjóðlega og almenna sátt um að pyndingum megi aldrei, undir nokkrum kringumstæðum beita gegn nokkrum manni hefur fatlað fólk ekki notið verndar gegn pyndingum og annarri grimmilegri og vanvirðandi meðferð til jafns við aðra þjóðfélagshópa. Pyndingar eiga sér ekki einungis stað í fangelsum eða fangaklefum heldur geta þær einnig átt sér stað á spítölum eða öðrum stofnunum þar sem fólk er í varnarlausri stöðu gagnvart yfirvöldum eða fólki sem starfar á vegum yfirvalda.  Þvinguð lyfjameðferð, þvinguð læknismeðferð og ótímabundnar frelsisskerðingar eru dæmi um verknað sem almennt fellur undir pyndingar eða aðra vanvirðandi meðferð en þótti, og þykir sums staðar enn, réttlætanleg hegðun gagnvart fötluðu fólki, þá sérstaklega fólki með geðfötlun.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur lýst því yfir að þvinguð meðferð og þvinguð lyfjagjöf geti fallið undir skilgreiningu dómstólsins á pyndingum eða annarri ómannúðlegri meðferð. Dómstóllinn hefur þó litið svo á að telji læknir meðferð „læknisfræðilega nauðsynlega” sé ekki um pyndingar eða aðra ómannúðlega meðferð að ræða. Tilkoma Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks veldur því að alþjóðlegar mannréttindastofnanir eins og mannréttindadómstóllinn þurfa nú að skoða viðhorf sitt gagnvart meðferð á fólki í geðheilbrigðiskerfinu (sem og heilbrigðiskerfinu í heild) í nýju ljósi og skilningur alþjóðasamfélagsins á pyndingum hefur tekið töluverðum breytingum í kjölfarið.

 

Tilkoma Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Sérlegur sendiboði Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum gaf út sérstaka skýrslu um pyndingar og aðra grimmilega, ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð í heilbrigðiskerfinu árið 2013. Í skýrslunni var að finna ítarlegar upplýsingar um útbreidd og alvarleg mannréttindabrot gagnvart fólki með geðröskun og geðfötlun í heilbrigðiskerfinu. Skýrsla sendiboðans gegn pyndingum hefur það hlutverk að túlka bann gegn pyndingum og gerði það í samhengi við Samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hann komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að ásetningur heilbrigðisstarfsfólks með þvingaðri meðferð sé jafnan að gera það sem sjúklingnum er fyrir bestu byggist sá ásetningur oft á mismunun vegna fötlunar og geti því fallið undir pyndingar (heilbrigðisstarfsfólk er opinberir starfsmenn). Sendiboðinn lýsti því yfir að Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fæli í sér að gjörbreyta þurfi núverandi umgjörð um mannréttindi fólks með geðfötlun og geðraskanir.

Ekki væri lengur ásættanlegt að svipta fólk frelsi, sjálfsákvörðunarrétti eða rétti til þess að velja læknisþjónustu (Sjá nánar: Lögformlegt hæfi til jafns við aðra) á grundvelli fötlunar. Réttur fatlaðs fólks til þess að búa í samfélaginu með viðeigandi stuðningi frá yfirvöldum í stað þess að vera lokað inn á stofnun væri nú almennt viðurkenndur. Frelsissvipting á grundvelli fötlunar er óheimil og getur fallið undir pyndingar og aðra grimmilega, vanvirðandi eða ómannúðlega meðferð, sérstaklega ef um ótímabundna frelsissviptingu er að ræða. Þvinguð meðferð eða lyfjameðferð á grundvelli fötlunar, sem veldur alvarlegum sársauka eða þjáningu þess sem fyrir henni verður brýtur í bága við bann gegn pyndingum og annarri grimmilegri, vanvirðandi og ómannúðlegri meðferð. Þá ætti ekki undir nokkrum kringumstæðum að setja einstaklinga í einangrun vegna fötlunar þeirra.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks felur í sér þá kvöð að aðildarríki verða að leggja niður öll lög sem heimila frelsissviptingu, þvingaða meðferð eða þvingaða lyfjameðferð vegna fötlunar. Skýrsla sendiboðans gegn pyndingum leggur áherslu á að þvingaðri læknis- og lyfjameðferð megi aðeins beita í algjörum undantekningartilfellum þegar yfirvöld geta sýnt fram á að:

 1. Viðkomandi einstaklingur er hættulegur sjálfum sér eða öðrum
 2. Um neyðartilvik er að ræða
 3. Þvingunin er eins lítil og hægt er og einungis til þess að koma í veg fyrir mikinn skaða
 4. Þvingunin á sér aðeins stað í mjög takmarkaðan tíma

Í öllum öðrum tilfellum verða læknar og aðrir opinberir starfsmenn að leita upplýsts samþykkis fyrir hvers kyns meðferð eða þjónustu sem þau hyggjast veita sjúklingum sínum. Samningurinn heimilar ekki að lögráðamaður eða annars konar staðgengill taki slíkar ákvarðanir fyrir hönd sjúklings og ber yfirvöldum þess í stað skylda til þess að tryggja að sjúklingar njóti viðeigandi stuðnings til þess að taka upplýstar ákvarðanir um hvers kyns heilbrigðisþjónustu sem þeim kann að bjóðast (Sjá nánar í kaflanum um staðgengilsákvarðanatöku).

Þvingaðar ófrjósemisaðgerðir, fóstureyðingar og getnaðarvarnir sem form pyndinga

Öll læknismeðferð sem miðar að því að skerða frjósemi fólks vegna fötlunar þeirra er óheimil með og brýtur í bága við bannið gegn pyndingum. Að gera ófrjósemisaðgerð á konum gegn vilja þeirra eða neyða þær í fóstureyðingu vegna þess að læknir eða lögráðamaður telur hana ekki hæfa til þess að eiga börn vegna fötlunar hennar er ávalt form af pyndingum. Fatlaðar konur eiga jafnan rétt yfir líkama sínum og annað fólk og hafa fullan rétt til þess að taka upplýsta ákvörðun um frjósemi sína. Að neyða konur til þess að taka getnaðarvarnir getur fallið undir vanvirðandi meðferð og jafnvel pyndingar ef framkvæmdin veldur konunni alvarlegum sársauka eða þjáningu, ef opinber starfsmaður neyðir hana til þess og ef tilgangurinn með því er að mismuna konunni vegna fötlunar sinnar.

 

Skyldur yfirvalda til þess að koma í veg fyrir pyndingar og aðra grimmilega, ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu

Bann við pyndingum er dæmi um svokölluð neikvæð réttindi sem þýðir að fyrst og fremst lofar ríkið að pynda ekki borgara sína. Bannið við pyndingum felur þó einnig í sér sterk jákvæð réttindi enda bera yfirvöld ríka skyldu til þess að koma í veg fyrir að fólk á þeirra yfirráðasvæði verði fyrir pyndingum eða annarri vanvirðandi meðferð eða refsingu. Skylda þeirra er sérstaklega rík gagnvart frelsissviptu fólki, hvort sem það er í fangelsum, á stofnunum eða á spítölum. Það er vegna þess að fólk sem nýtur ekki frelsis er sérstaklega varnarlaust gagnvart pyndingum og annarri vanvirðandi meðferð.

Það er því ekki nóg að ríkið og starfsmenn ríkisins beiti ekki pyndingum heldur verða yfirvöld að koma á fót ýmis konar varúðarráðstöfunum gegn pyndingum ásamt því að hafa leiðir til þess að bregðast við ef ásakanir koma fram um pyndingar. Fjöldi alþjóðlegra stofnanna hafa sett fram lágmarks skilyrði sem ríki verða að uppfylla til þess að vinna gegn pyndingum á sínu yfirráðasvæði. Þar má nefna, Evrópunefnd gegn pyndingum, Mannréttindadómstól Evrópu og sérstakan sendiboða Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum. Helstu skilyrði sem ríki verða að uppfylla eru:

 • Að setja lög sem gera allar tegundir pyndinga og annarrar grimmilegrar, ómannúðlegrar eða vanvirðandi meðferðar eða refsingar að refsiverðu athæfi.
 • Að setja á fót öfluga sjálfstæða stofnun mannaða sérfræðingum til þess hafa reglulegt og gott eftirlit með öllum stofnunum og starfsmönnum sem hafa umsjón með frelsissviptum einstaklingum.
 • Að rannsaka öll mál, þar sem rökstuddur grunur um pyndingar eða aðra ómannúðlega meðferð vaknar og að slíkar rannsóknir séu framkvæmdar af óháðum sérfræðingum.
 • Að bjóða upp á víðtæk úrræði fyrir þá sem orðið hafa fyrir pyndingum og annarri ómannúðlegri meðferð. Má þar nefna skaðabætur, endurhæfingu og aðra meðferð fyrir þolendur.
 • Að móta stefnu og setja lög til þess að tryggja eftir fremsta megni að borgarar, og þá sérstaklega fólk sem tilheyrir viðkvæmum hópum, verði ekki fyrir pyndingum eða annarri vanvirðandi meðferð af hendi samborgara sinna.
 • Að mennta og þjálfa heilbrigðisstarfsfólk, lögreglu, fangaverði og aðra opinbera starfsmenn sem koma að málefnum frelsissvipts fólks með einum eða öðrum hætti til þess að koma auga á og koma í veg fyrir pyndingar og aðra ómannúðlega meðferð.
 • Að fylgja eftir fremsta megni eftir tilmælum frá Evrópunefnd gegn pyndingum (Sjá nánar: CPT nefndin) og öðrum alþjóðlegum mannréttindastofnunum um úrbætur í löggjöf og framkvæmd til þess að vernda sem best þennan mikilvæga rétt.
 • Var þetta efni ganglegt ?
 • Já!   Nei
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt