Sjálfsákvörðunarréttur
Lögformlegt hæfi er lögfræðilegt hugtak sem notað er til þess að lýsa rétti fólks til þess að ráða eigin högum og stjórna lífi sínu. Lögformlegt hæfi er að njóta viðurkenningar sem persóna sem nýtur réttinda til jafns við aðra. Að njóta lögformlegs hæfis felur í sér sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstæði hvers einstaklings gagnvart afskiptum eða yfirráðum yfirvalda og annarra. Allir einstaklingar eiga rétt á að njóta lögformlegs hæfis til jafns við aðra.
Lögformlegt hæfi: Rétthæfi og gerhæfi
Lögformlegt hæfi felur í sér tvenns konar réttindi. Í fyrsta lagi felst í því svokallað rétthæfi (e. legal standing) og í öðru lagi það sem nefnist gerhæfi (e. legal agency).
Í rétthæfi felst getan til þess að njóta réttinda og bera skyldur samkvæmt lögum. Allar manneskjur hafa meðfætt rétthæfi og halda því til dauðadags. Þannig hafa allir meðfæddan rétt til lífs, frelsis og mannvirðingar svo dæmi séu nefnd. Allar manneskjur njóta mannréttinda og ekki má neita sumum þeirra um réttindi sín vegna trúar þeirra, fötlunar, kyns, kynþáttar, þjóðfélagsstöðu eða annarra þátta sem kunna að einkenna þær frá öðrum manneskjum. Með réttindum fylgja einnig skyldur, til dæmis skylda allra til þess að virða réttindi annarra. Rétthæfi er hugtakið sem skilgreinir rétt allra mannvera til þess að njóta viðurkenningar sem slíkar.
Í gerhæfi felst réttur til þess að nýta sér réttindi sín, ráðstafa þeim og takast á hendur skuldbindingar í eigin nafni. Kona sem skrifar grein í blöðin er til dæmis að nýta sér tjáningarfrelsi sitt. Karl sem ferðast á milli staða er að nýta sér ferðafrelsi sitt. Kona sem gengur í samtök er að nýta sér félagafrelsi sitt. Karl sem kaupir sér bíl er að ráðstafa eignarrétti sínum. Kona sem tekur húsnæðislán er að skuldbinda sig til þess að ráðstafa eignarrétti sínum á ákveðinn hátt. Nefna mætti mörg önnur dæmi um gerhæfi en öll eiga þau það sameiginlegt að einstaklingur nýtir sér réttindi sín eða uppfyllir skyldur sínar á einn eða annan hátt. Gerhæfi má líta á sem grunnforsendu innihaldsríkrar þáttöku í samfélaginu.
Rétthæfi og gerhæfi mynda saman lögformlegt hæfi: Réttinn til þess að njóta réttinda og réttinn til þess að nýta sér þau.
Skerðing á lögformlegu hæfi
Rétt allra til lögformlegs hæfis má finna í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum eins og Alþjóðasmaningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og Mannréttindasáttmála Evrópu. Þrátt fyrir að þessir samningar feli í sér jafnan rétt allra til lögformlegs hæfis hafa yfirvöld viðsvegar um heim neitað fólki með geðraskanir og fólki með geðfötlun um þessi sjálfsögðu réttindi eða skert þau verulega.
Skerðing á lögformlegu hæfi fólks með geðröskun eða geðfötlun hefur gjarnan verið rökstudd á þann veg að vernda þurfi einstaklinginn sem um ræðir frá sjálfum sér eða öðrum. Geta þeirra til þess að taka ákvarðanir er dregin í efa og þau ekki talin geta tekið upplýsta ákvörðun um hvað þeim er fyrir bestu. Eins hefur borið á því hryggilega viðhorfi að fatlað eða veikt fólk geti ekki fötlunar eða veikinda sinna vegna talist fullveðja aðilar að lögum. Á Íslandi er skerðing á lögformlegu hæfi oftast framkvæmd með því að svipta fólk lögræði (sjá lögræðissvipting-skilgreining), sjálfræði eða fjárræði.
Með tilkomu Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks voru tekin af öll tvímæli um að fatlað fólk njóti lögformlegs hæfis og þar með sjálfstæðis og sjálfsákvörðunarréttar til jafns við aðra. Eitt mikilvægasta ákvæði samningsins kveður á um jafna réttarstöðu fatlaðra einstaklinga og jafnan rétt þeirra til lögformlegs hæfis (sbr. 12. gr. samningsins). Samningurinn markar tímamót að því leyti að hann hafnar verndarsjónarmiðum og forræðishyggju gagnvart fötluðu fólki og krefst þess í stað valdeflingar og aukinnar þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu.
Íslendingar hafa ekki enn löggilt Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hins vegar var samningurinn fullgiltur þann 20. desember 2016.
Aðildarríki Samnings S.þ. um réttindi fatlaðs fólks skuldbinda sig meðal annars til þess að bjóða upp á stuðning þeim til handa sem fötlunar sinnar vegna eiga hægara um vik með ákvarðanatöku en aðrir. Eins ber aðildarríkjum að leggja niður lög sem heimila öðrum (t.d. lögráðamönnum) að taka ákvarðanir fyrir hönd fatlaðs fólks. Réttur fatlaðs fólks til stuðnings við ákvarðanatöku felur í sér grundvallarbreytingu á þeirri nálgun sem viðgengist hefur gagnvart sjálfsákvörðunarrétti fatlaðs fólks fram að samþykkt samningsins.
Lögformlegt hæfi er ekki andlegt hæfi
Andlegt hæfi vísar til hæfni eða færni einstaklings til þess að taka ákvarðanir. Einstaklingar eru eðilega misjafnlega góðir í að taka ákvarðanir. Færni og hæfi til þess að taka ákvarðanir getur jafnframt verið misjafnlega góð í margvíslegu tilliti og grundvallast til dæmis á samfélagslegum skilyrðum eða umhverfisþáttum.
Mikilvægt er að aðgreina lögformlegt hæfi (e. legal capacity) frá andlegu hæfi (e. mental capacity).
Fólk tekur ótal ákvarðanir á hverjum degi allt frá léttvægum ákvörðunum eins og hvaða morgunmat skuli fá sér yfir í öllu alvarlegri ákvarðanir eins og hvort kaupa eigi hús eða hvort flytja eigi til útlanda. Hæfileikar fólks til þess að taka ákvarðanir eru misgóðir við misjafnar aðstæður. Sumir eiga í bölvuðum vandræðum með að ákveða hvernig mat þeir vilji borða eða fötum þeir vilja vera í en eiga ekki í neinum vandræðum með stærri ákvarðanir í lífinu. Sumir eru góðir í að taka ákvarðanir undir miklu álagi á meðan aðrir þarfnast meira næðis. Sumir vilja taka ákvarðanir alveg sjálfir án þess að ráðfæra sig við neinn á meðan aðrir vilja leita ráða hjá vinum og vandamönnum.
Sjálfsákvörðunarréttur fólks (lögformlegt hæfi) ætti ekki að skerðast þótt yfirvöldum eða ættingjum þyki manneskja taka slæmar eða jafnvel skaðlegar ákvarðanir. Fólk á líka rétt á að taka slæmar ákvarðanir. Fólk á líka rétt til þess að fá aðstoð og stuðning við ákvörðunartöku sem þeim reynist erfið.
Fólki með geðraskanir eða geðfötlun hefur löngum verið meinað að taka sjálfstæðar ákvarðanir í eigin lífi vegna þess að þau voru álitin hafa skert andlegt hæfi. Sú framkvæmd þekkist víða að sé manneskja álitin hafa skerta getu til ákvarðanatöku, oft af völdum geðröskunar eða geðfötlunar, leiði það til þess að lögformlegt hæfi hennar til þess að taka ákveðna ákvörðun er fjarlægt (t.d. með lögræðissviptingu, fjárræðis- eða sjálfræðissviptingu, nauðungarvistun eða þvingaðri lyfjagjöf).
Nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks gerir greinarmun á lögformlegu hæfi (e. legal capacity) og andlegu hæfi (e. mental capacity) einstaklinga. Samkvæmt nefndinni hafa flest aðildaríki Samningsins um réttindi fatlaðs fólks hins vegar lagt andlegt og lögformlegt hæfi að jöfnu í lagasetningu sinni. Nefndin hefur því gefið út formlegt álit til aðildarríkjanna til þess að ítreka að skerðing á lögformlegu hæfi einstaklinga á grundvelli ætlaðrar eða raunverulegrar skerðingar á andlegu hæfi þeirra gangi gegn ákvæðum samningsins.
Í áliti nefndarinnar kemur fram slík skerðing brýtur í bága við 5. grein og 12. grein samningsins þar sem hún feli hún í sér mismunun á grundvelli fötlunar. Nefndin tekur fram að andlegt eða vitsmunalegt hæfi sé umdeilt hugtak en ekki hlutlaust, vísindalegt og náttúrulegt fyrirbrigði. Nefndin áréttaði ennfremur að andlegt eða vitsmunalegt hæfi er ákveðið í félagslegu og pólitísku samhengi. Þá sé ljóst að fagfólk, vísindamenn og fræðimenn sem meta eiga andlegt og vitsmunalegt hæfi geri það óhjákvæmilega í félagslegu og pólitísku samhengi.
Hvað gerir Nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra?
Nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fer með túlkunarvald á inntaki og þýðingu þeirra réttinda sem finna má í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Aðildarríki samningsins verða að skila reglulegum skýrslum til nefndarinnar um hvernig gengur að innleiða réttindi samningsins inn í löggjöf aðildarríkjanna. Nefndin skrifar einnig almenn álit um hvernig túlka skuli einstaka réttindi Samningsins en álitin byggir hún gjarnan á upplýsingum sem fram koma í skýrslum aðildarríkjanna. Heimildir nefndarinnar til þess að gefa út álit og skrifa skýrslur er að finna í samningnum sjálfum. Nefndin getur einnig tekið við kærum frá einstaklingum sem telja að aðildarríki hafi brotið gegn réttindum sínum samkvæmt samningnum ef að aðildarríkin skrifa undir sérstaka viðbótarbókun til þess að veita nefndinni slíka heimild.
Ólögleg skerðing á lögformlegu hæfi
Nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur tekið saman þrjár nálganir aðildarríkja gagnvart skerðingu á lögformlegu hæfi einstaklinga:
Fyrst ber að nefna svokallaða ástandsnálgun (e. status approach), þar sem lögformlegt hæfi einstaklings er skert á grundvelli sjúkdómsgreiningar eða greiningar annarar fötlunar. Dæmi um ástandsnálgun er þegar lög leyfa nauðungarvistun eða þvingaða lyfjameðferð á þeim grunni einum að einstaklingur er greindur með alvarlegan geðsjúkdóm.
Næst ber að nefna svokallaða afleiðingarnálgun (e. outcome approach), þar sem lögformlegt hæfi er skert á grundvelli þess að einstaklingur er talinn hafa tekið ákvörðun eða ákvarðanir sem taldar eru hafa neikvæðar afleiðingar. Dæmi um afleiðingarnálgun er þegar einstaklingur er sviptur fjárræði vegna þess að hann hefur ítrekað stefnt sér í miklar skuldir vegna alvarlegrar spilafíknar.
Að lokum skal nefna svokallaða hæfinálgun (e. functional approach) þar sem mat þess efnis að einstaklingur er talinn hafa skerta getu til ákvarðanatöku er notað til grundvallar skerðingu á lögformlegu hæfi. Dæmi um hæfisnálgun væri ef lög um lögformlegt hæfi gerðu ráð fyrir því að geðlæknar myndu meta getu fólks til ákvarðanartöku og útkoma matsins myndi ráða því hvort einstaklingur fengi að halda sjálfsákvörðunarrétti sínum eður ei.
Nálganirnar eiga það allar sameiginlegt að fötlun einstaklings eða mat á skorti á getu hans til ákvarðanatöku er notuð sem ástæða skerðingarinnar. Álit nefndarinnar er afdráttarlaust um að 12. grein samningsins heimilar ekki slíka skerðingu. Aðildarríkjum ber þess í stað skylda til þess að sjá einstaklingum fyrir viðeigandi stuðningi við ákvarðanatöku.
Stuðning í stað staðgengla
Fatlaðir einstaklingar eiga rétt á að hljóta viðeigandi stuðning til þess að þeir fái notið lögformlegs hæfis til jafns við aðra. Ákvæði samnings S.þ kveða á um að aðildarríkjum er skylt að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja fötluðum einstaklingum þann stuðning sem þeir þarfnast til þess að njóta lögformlegs hæfis (3. tl. 12. gr.).
Lagakerfi sem takmarka lögformlegt hæfi fatlaðs fólks og virða ekki vilja og gildismat þeirra er í andstöðu við samninginn. Hér er sérstaklega átt við þau kerfi sem byggja á svokallaðri staðgengilsákvarðanatöku (e. substitute deicision making).
Skilgreina má kerfi byggð á staðgengilsákvarðanatöku sem kerfi þar sem:
- Einstaklingur er sviptur lögformlegu hæfi (á við þó sviptingin nái aðeins til einnar afmarkaðrar ákvörðunar).
- Annar aðili en sá sem sviptingu sætir getur skipað staðgengil til ákvarðanatöku fyrir hönd hins svipta. Skipa má staðgengil án samþykkis og jafnvel gegn vilja hins svipta.
- Ákvarðanir þær sem staðgengill tekur eru byggðar á því sem staðgengill metur að sé hag hins svipta fyrir bestu en ekki sjálfstæðum vilja og gildismati hins svipta einstaklings. (Almennar athugasemdir um 12. gr. samningsins 19. maí 2014, málsgrein 23.)
Réttur fatlaðra til stuðnings við ákvarðanatöku felur í sér grundvallarbreytingu á þeirri nálgun sem viðgengist hefur gagnvart sjálfsákvörðunarrétti fatlaðs fólks fram að samþykkt samningsins. Nefnd S.þ hefur tekið það skýrt fram að ekki nægir að innleiða kerfi sem veitir stuðning við ákvarðanatöku samhliða kerfi sem byggir á staðgengilsákvarðanatöku. Ákvæði sáttmálans krefjist þess að staðgengilsákvarðanataka fyrir fatlaða einstaklinga verði lögð niður með öllu. Ennfremur inniheldur samningurinn ákveðin verndarsjónarmið sem ríki verða að uppfylla við veitingu stuðnings við ákvarðanatöku (4. tl. 12. gr.).
Verndarsjónarmið gagnvart stuðningi við ákvarðanatöku skv. 4. tl. 12. gr.
Fyrst og fremst verður stuðningur við ákvarðanatöku ávallt að byggja á því að koma vilja og gildismati (e. will and preferences) einstaklingsins á framfæri eða í framkvæmd. Stuðningsaðila er ekki ætlað að leggja sjálfstætt mat á hvað stuðningsþega er fyrir bestu líkt og um er að ræða í staðgengilsákvörðunarkerfi, heldur er hlutverk hans að styðja viðkomandi við að taka ákvörðun út frá sínum persónulegu óskum. Stuðningsþegar eiga að geta hafnað stuðningi, stuðningsaðila og fyrirkomulagi stuðnings hvenær sem er. Af þessum ástæðum er talið hæpið að samningurinn rúmi heimild til lögræðissviptingar þegar hluti forsenda fyrir sviptingu felst í fötlun viðkomandi.
Stuðningur við nýtingu lögformlegs hæfis verður að vera aðgengilegur öllum þeim sem hans þarfnast, án tillits til fjárhags, búsetu eða annara haga viðkomandi. Tjáningarmáti einstaklinga má ekki standa í vegi fyrir stuðningi, jafnvel þó svo hann sé óvenjulegur eða sjaldgæfur. Stuðningur verður að vera einstaklingi að kostnaðarlausu eða kostnaðarlítill.
Mikilvægt er að lagalegar verndarráðstafanir séu til staðar til þess að verjast misbeitingu valds og hagsmunaárekstra stuðningsaðila gagnvart hagsmunum stuðningsþega. Stuðninginn skal sníða að þörfum hvers og eins, standa yfir eins stutt og mögulegt er og sæta reglulega endurskoðun til þess bærra sjálfstæðra og óháðra úrskurðaraðila. Eins verða lög að viðurkenna að stuðningsaðilar njóti lagalegrar viðurkenningar sem slíkir. Loks ber að nefna að stuðning við nýtingu gerhæfis má aldrei nýta til þess að réttlæta skerðingu á mannréttindum stuðningsþega.
Lögmæt skerðing á lögformlegu hæfi
Þess ber að geta að samningur S.þ felur ekki í sér skyldu aðildarríkja til þess að afnema alfarið heimildir til lögræðissviptingar. Ríki hafi vissulega getu til þess að skerða lögformlegt hæfi einstaklinga í vissum tilfellum, til dæmis á grundvelli sakfellingar eða gjaldþrots einstaklinga. Skerðing á lögformlegu hæfi má hins vegar ekki grundvallast á persónueinkennum eins og kyni, kynþætti eða fötlun, eða hafa þann tilgang eða valda þeirri niðurstöðu að aðilar séu meðhöndlaðir öðruvísi á grundvelli þess.
Hér er lykilviðhorf sem vert er að venjast til að skilja samninginn: Fötlun getur ekki verið grundvöllur inngrips. Ef lagaskilyrði kveða á um að fötlun (eins og hún er skilgreind í samningnum) er nauðsynleg forsenda inngrips í réttindi einstaklings, þá á inngripið aldrei rétt á sér.
Eins og áður segir hefur Ísland ekki fullgilt Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Íslendingar skrifuðu undir Samning Sameinuðu þjóðanna árið 20017. Samningurinn var fullgiltur nærri tíu árum síðar eða 20. desember árið 2016. Hann hefur hins vegar enn ekki verið löggiltur og færður að fullu inn í íslensk lög.
Vert er að hafa í huga að samningnum er helst ætlað að tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til þeirra mannréttinda er viðurkennd voru fyrir sköpun samningsins. Því má færa rök fyrir því að ákvæði nefndarinnar um jaft lögformlegt hæfi fatlaðs fólks sé nú þegar hluti af mannréttindaskuldbindingum Íslands samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu og Alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Á móti kemur að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur verið töluvert íhaldsamari en nefnd Sameinuðu þjóðanna og lengur að taka við sér. Því verður að teljast ólíklegt að lögformlegt hæfi fatlaðs fólks á Íslandi verði að fullu viðurkennt fyrr en fullgilding Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra hefur farið fram.