Hugtakið frelsi hefur margar mismunandi merkingar í daglegu tali. Það er frelsi að ráða hvenær maður fer að sofa, hvert maður ferðast, hvernig fötum maður klæðist, hvaða mat maður borðar og hvernig lífi maður lifir.  Frelsið er yndislegt og afskaplega dýrmætt öllu fólki. Lögfræðin skilgreinir frelsi á mun þrengri hátt. Í rauninni skilgreinir hún frelsi aðeins sem frelsið frá því að vera lokaður inni gegn vilja sínum eða aftrað frjálsri för á milli . Ýmis önnur mannréttindi tryggja okkur annars konar frelsi, líkt og tjáningarfrelsi og félagafrelsi eru dæmi um.

Rétturinn til frelsis þýðir að venjulega eiga allir að vera frjálsir ferða sinna. Yfirvöld geta lokað fólk inni eða haldið því á ákveðnum stöðum gegn vilja þess en aðeins ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt. Þegar yfirvöld, eins og lögreglan til dæmis, halda fólki gegn vilja sínum á ákveðnum stað er talað um frelsissviptingu eða frelsisskerðingu fólks.

Munurinn á frelsissviptingu og frelsisskerðingu felst í því hversu miklar hömlur eru settar á ferðafrelsi einstaklinga. Þegar lögreglan lokar einstakling inni í fangaklefa í nokkra klukkutíma er um frelsissviptingu að ræða, svo dæmi sé tekið. Frelsisskerðing á sér til dæmis stað þegar yfirvöld loka af ákveðin svæði vegna almannahættu þannig að fólk komist ekki þaðan í stuttan tíma.

Hvar er réttinn til frelsis að finna?

Réttur til frelsis er tryggður í fjölda mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að. Réttinn má finna í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og í Mannréttindasáttmála Evrópu. Réttur til frelsis er dæmi um svokölluð neikvæð réttindi, sem fela í sér frelsi frá afskiptum ríkisvaldsins á einn eða annan hátt.

Réttur til frelsis í Mannréttindasáttmála Evrópu

Skýrasta og best skilgreinda útlistunin á því hvaða reglur gilda um hvenær stjórnvöld mega svipta fólk frelsi og hvaða reglum þau þurfa að fylgja þegar þau gera það er að finna í fimmtu grein Mannréttindasáttmála Evrópu.

5. gr. Réttur til frelsis og mannhelgi.

 1.  Allir menn eiga rétt til frelsis og mannhelgi.

Engan mann skal svipta frelsi nema í eftirfarandi tilvikum og þá í samræmi við þá málsmeðferð sem segir í lögum. Tilvikin eru:

 1. lögleg gæsla manns sem dæmdur hefur verið sekur af þar til bærum dómstóli;
 2. lögleg handtaka eða gæsla manns fyrir að óhlýðnast lögmætri skipun dómstóls eða til að tryggja efndir lögmæltrar skyldu;
 3. lögleg handtaka eða gæsla manns sem efnt er til í því skyni að færa hann fyrir réttan handhafa opinbers valds, enda hvíli á honum rökstuddur grunur um afbrot eða með rökum sé talið nauðsynlegt að koma í veg fyrir að hann fremji afbrot eða komist undan að svo búnu;
 4. gæsla ósjálfráða manns samkvæmt löglegum úrskurði vegna eftirlits með uppeldi hans eða lögmætrar gæslu í því skyni að færa hann fyrir réttan handhafa opinbers valds;
 5. lögleg gæsla manns til að koma í veg fyrir að smitandi sjúkdómur breiðist út eða manns sem er andlega vanheill, áfengissjúklingur, eiturlyfjasjúklingur eða umrenningur;
 6. lögleg handtaka eða gæsla manns til að koma í veg fyrir að hann komist ólöglega inn í land eða gæsla manns sem vísa á úr landi eða framselja.
 1. Hver sá maður, sem tekinn er höndum, skal án tafar fá vitneskju, á máli sem hann skilur, um ástæðurnar fyrir handtökunni og um sakir þær sem hann er borinn.
 1. Hvern þann mann, sem tekinn er höndum eða settur í varðhald skv. c-lið 1. tölul. þessarar greinar, skal án tafar færa fyrir dómara eða annan embættismann sem að lögum hefur heimild til að fara með dómsvald, og skal hann eiga kröfu til að mál hans verði tekið fyrir í dómi innan hæfilegs tíma eða hann verði látinn laus þar til dómsmeðferð hefst. Gera má það að skilyrði fyrir lausn manns úr gæslu að trygging sé sett fyrir því að hann komi fyrir dóm.
 1. Hverjum þeim sem handtekinn er eða settur í gæslu skal rétt að bera lögmæti frelsisskerðingarinnar undir dómstól er úrskurði um hana með skjótum hætti og fyrirskipi að hann skuli látinn laus ef ólögmæt reynist.
 2. Hver sá sem tekinn hefur verið höndum eða settur í gæslu gagnstætt ákvæðum þessarar greinar skal eiga bótarétt sem unnt sé að koma fram.

 

Samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu felur skuldbinding íslenska ríkisins gagnvart frelsi fólks á Íslandi í sér að hvorki megi skerða frelsi fólks né svipta það frelsi sínu án þess að hafa til þess ákveðnar fyrirfram skilgreindar heimildir í lögum. Þar að auki verða yfirvöld að tryggja að allir sem sviptir eru frelsi sínu njóti ákveðinna grundvallar réttinda.

Fimmta grein mannréttindasáttmálans er löng og ítarleg grein sem tryggja á að enginn sé sviptur frelsi sínu að ósekju eða óþarfa. Greininni er ennfremur sérstaklega ætlað til að koma í veg fyrir geðþóttaákvarðanir yfirvalda.

Í fyrsta tölulið fimmtu greinar má finna tæmandi lista yfir þær ástæður sem yfirvöld geta notað til þess að svipta fólk frelsi sínu. Ef yfirvöld frelsissvipta fólk af öðrum ástæðum en þeim sem taldar eru upp í töluliðnum verður að líta svo á að frelsissviptingin hafi ekki verið lögleg og að yfirvaldið hafi þar með brotið gegn fimmtu grein sáttmálans.

Ákvæðum fimmtu greinar má skipta gróflega í tvo flokka:

 • Reglur sem gilda um þá sem hafa verið handteknir vegna þess að þeir eru grunaðir um að hafa framið glæp (fyrsti töluliður, bókstafurinn c).
 • Reglur sem gilda um þá sem hafa verið sviptir frelsi sínu af öðrum ástæðum (fyrsti töluliður bókstafir a, b, d, e og f).

Reglurnar sem gilda um þá sem hafa verið handteknir vegna gruns um glæp eru aðeins ítarlegri en þær sem gilda um þá sem handteknir hafa verið af öðrum ástæðum. Reglurnar sem gilda sérstaklega um þá sem hafa verið handteknir vegna gruns um glæp eru útlistaðar í þriðja tölulið fimmtu greinar. Allir aðrir töluliðir í fimmtu grein gilda um alla sem hafa verið frelsissviptir jafnt.

Lágmarksskilyrði fyrir löglegri frelsissviptingu

Allir sem sviptir hafa verið frelsi af yfirvöldum eiga rétt á því:

 • Að yfirvöld hafi heimild í lögum fyrir frelsissviptingunni.
 • Að vita og skilja ástæðu frelsissviptingarinnar.
 • Að lögmæti frelsissviptingarinnar sé borið undir dómstóla eða aðra til þess bæra úrskurðaraðila stuttu eftir að hún á sér stað.
 • Að fá skaðabætur ef í ljós kemur að frelsissviptingin hefur ekki verið í samræmi við lög.

Heimild í lögum

Í fyrsta tölulið fimmtu greinar kemur fram að „engan mann skal svipta frelsi nema í eftirfarandi tilvikum og þá í samræmi við þá málsmeðferð sem segir í lögum.“ Setningin felur ekki einungis í sér að yfirvöld verða að hafa heimild í lögum fyrir því að svipta fólk frelsi heldur líka að frelsissviptingin verði að samrýmast grundvallarreglum réttarríkisins: Lögin sem veita heimild til frelsissviptingar verða að vera skýr og auðskiljanleg borgurunum, meðalhófs verður að gæta í öllum tilfellum og aldrei má svipta fólk frelsi af geðþótta.

Skilyrðið um heimild í lögum er því margþætt og er því fyrst og fremst ætlað að tryggja að fólk sé ekki svipt frelsi sínu nema brýnustu nauðsyn krefji og aldrei af geðþótta yfirvalda. Krafan um að lögin sem heimila frelsissviptingu séu skýr er til þess gerð að borgararnir geti kynnt sér og áttað sig á því hvaða hegðun eða aðstæður geti mögulega valdið því að þeir verði frelsissviptir. Þannig verða heimildir yfirvalda til frelsissviptingar að vera nákvæmar og ættu ekki að innihalda rúmar heimildir sem hægt er að túlka á marga vegu. Skilyrðið um að meðalhófs sé gætt felur í sér að yfirvöld eiga alltaf að beita vægustu úrræðum sem völ er á hverju sinni. Þar sem frelsissvipting er mjög alvarlegt inngrip í líf borgaranna ætti hún alltaf að vera síðasta úrræði yfirvalda.

Yfirvöld verða að forðast geðþóttaákvarðanir eftir fremsta megni. Ekki er nóg að vísa í heimild í lögum til þess að tryggja vernd gegn geðþóttaákvörðunum. Mannréttindadómstóllinn hefur lýst því yfir að frelsissvipting á grundvelli lyga og blekkinga af hálfu yfirvalda feli í sér geþóttaákvörðun. Sömuleiðis verður að vera samhengi á milli þeirrar ástæðu sem yfirvöld gefa upp fyrir frelsissviptingu og því hvar og hvernig viðkomandi er vistaður. Þannig mætti ekki frelsissvipta einstakling á þeim grundvelli að hann væri talinn bera hættulegan smitsjúkdóm en vista hann síðan í fangelsi til að yfirvöld gætu yfirheyrt hann um óskild mál eða væru með vistuninni að taka hann úr umferð.

Að vita og skilja ástæðu frelsissviptingarinnar

Þegar einstaklingur er sviptur frelsi sínu af yfirvöldum á hann skýlausan rétt á að fá að vita hvers vegna. Yfirvöld verða að upplýsa hinn frelsissvipta einstakling um ástæðu þess að hann hefur verið sviptur frelsi sínu og hvaða heimild í lögum yfirvöld hafa til þess. Ekki má líða langur tími frá því að frelsissvipting á sér stað þar til viðkomandi einstaklingur er upplýstur um ástæðu og lagagrundvöll ákvörðunarinnar. Mannréttindadómstóllinn telur sjaldnast réttlætanlegt að yfirvöld bíði lengur en nokkra klukkutíma eftir að upplýsa fólk um ástæðu frelsissviptingar. Yfirvöldum ber ekki að upplýsa um ástæður frelsissviptingar á einhvern einn fyrirfram gefinn og formfestan hátt. Mestu máli skiptir að hinn frelsissvipti skilji ástæður sviptingarinnar. Yfirvöldum ber því alltaf að útskýra ástæður frelsissviptingar á einfaldan og auðskiljanlegan hátt á tungumáli sem viðkomandi skilur vel.

Að bera lögmæti frelsissviptingar undir dómstóla eða aðra til þess bæra úrskurðaraðila

Allir sem sviptir eru frelsi eiga rétt á að fá úr því skorið hvort frelsisskerðingin hafi heimild í lögum af þar til bærum aðilum. Almennt má segja að æskilegast sé að dómari skeri úr um lögmæti frelsisskerðingar í öllum tilfellum. Þó telur Mannréttindadómstóllinn ásættanlegt að lögmæti frelsisskerðingar sé borið undir aðra úrskurðaraðila með því skilyrði að þeir uppfylla ákveðnar lágmarks kröfur.

Almennt má segja að frelsissvipting sé lögleg ef hún byggist á gildum dómsúrskurði sem heimilar sviptinguna. Þó verður að hafa í huga að dómstóllinn eða úrskurðaraðilinn sem um ræðir verða einnig að uppfylla ákveðin skilyrði ef skipanir þeirra eiga að teljast löglegar og réttmætar samkvæmt Mannréttindadómstólnum.

Dómstóllinn eða úrskurðaraðilinn verður að vera sjálfstæður og óháður þeim sem fara fram á frelsissviptinguna. Með sama hætti verður úrskurðaraðilinn að hafa vald til þess í lögum að ákveða hvort frelsissviptingin skuli halda áfram eða ekki. Ef úrskurðaraðilinn kemst að þeirri niðurstöðu að frelsissvipting sé ólögmæt verður úrskurðaraðilinn að hafa vald til þess að sleppa viðkomandi úr haldi.

Allir sem sviptir eru frelsi eiga rétt á að vera leiddir fyrir dómara eða þar til bæran úrskurðaraðila eins fljótt og verða má. Mannréttindadómstóllinn hefur gefið út að ekki megi líða lengri tími en fjórir sólarhringar frá upphaflegri frelsissviptingu og fram að úrskurði um lögmæti hennar. Dómstóllinn hefur þó ítrekað að fjórir dagar séu algjört hámark og helst eigi að leiða fólk fyrir úrskurðaraðila miklu fyrr.

Úrskurðaraðila sem úrskurðar um lögmæti frelsissviptingar ber að ákveða hvort láta beri einstakling lausan ellegar ákveða hversu lengi til viðbótar frelsissviptingin skuli vara. Úrskurðaraðilinn verður til dæmsi að fullvissa sig um að engin vægari úrræði önnur en frelsisskerðing séu möguleg í hverju tilfelli fyrir sig. Ef niðurstaða úrskurðaraðila er sú að vægari úrræði hafi verið í boði ætti að láta hina frelsissviptu manneskju lausa og beita hinu vægara úrræði í staðinn. Sömuleiðis verður að láta fólk laust úr haldi ef í ljós kemur að frelsissviptingin hafi ekki verið nauðsynleg, hafi ekki byggst á heimild í lögum eða þá, að hún sé ekki nauðsynleg lengur.

Að fá skaðabætur ef í ljós kemur að frelsissviptingin var ekki í samræmi við lög

Ef úrskurðaraðili kemst að þeirri niðurstöðu að frelsissvipting einstaklings hafi ekki átt sér stoð í lögum eða einstaklingur hafi verið sviptur frelsi að ósekju á hann rétt á skaðabótum vegna frelsissviptingarinnar. Þetta skilyrði felur í sér þá skyldu á hendur íslenskra yfirvalda að þeim ber að setja lög sem tryggja rétt allra til þess að sækjast eftir skaðabótum séu þeir frelsissviptir að ósekju.

Frelsissvipting vegna meðferðar í geðheilbrigðiskerfinu

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur sett fram þrjú grundvallarskilyrði fyrir því að yfirvöld megi loka fólk inni vegna ætlaðrar „andlegrar vanheilsu“ þeirra. Þessi skilyrði taka til þeirra sem eru nauðungarvistaðir samkvæmt íslenskum lögum. Til þess að yfirvöld megi nauðungarvista fólk verður að vera tryggt að:

 1. Sýnt sé fram á með áreiðanlegum hætti að einstaklingur búi við andlega skerðingu (e. unsoundness of mind) þ.e. að sýnt sé fram á geðsjúkdóm fyrir viðeigandi stjórnvaldi frá hlutlægu læknisfræðilegum sjónarmiðum.
 2. Geðsjúkdómurinn sé af því eðli eða stigi að slíkt kalli á nauðungarvistun.
 3. Framlenging vistunarinnar er aðeins gerð út frá reglulegri sannaðri tilvist þess sjúkdóms hverju sinni. Dómarar og úrskurðaraðilar verða að leggja sjálfstætt mat á skýrslur lækna.

Mannréttindasáttmáli Evrópu er barn síns tíma og færa má rök fyrir því að ákvæðið sem segir fyrir um að svipta megi einstaklinga frelsi sínu vegna „andlegrar vanheilsu“ þeirra, eins og (e) liður fyrsta töluliðar fimmtu greinar segir fyrir um væri orðað á allt annan hátt í dag. Mannréttindasáttmálinn varð til í kjölfar Seinni heimsstyrjaldarinnar og viðhorf samfélagsins til fólks með geðraskanir og geðfötlun hafa breyst umtalsvert frá þeim tíma. Dómstólinn hefur þó verið heldur hægfara í að uppfæra túlkun sína á ákvæðinu í takt við breytt viðhorf samfélagsins gagnvart geðheilsu.

 

Dæmi

Margt ber að hafa í huga þegar yfirvöld svipta fólk frelsi og sérstaklega þegar fólk í viðkvæmri stöðu er nauðungarvistað vegna ástands síns. Stundum getur verið gott að búa til dæmi til þess að auðvelda skilning. Hér á eftir er skálduð saga um mann að nafni Eyjólfur sem lendir í því að það eigi að nauðungarvista hann.

Gefum okkur að álitið sé að Eyjólfur sé í geðrofi. Læknir hans og fjölskylda líta svo á að vegna ástands hans sé hann hættulegur sjálfum sér og öðrum. Læknir Eyjólfs ákveður að vista hann inn á geðdeild til þess að veita honum meðferð. Eyjólfur vill sjálfur alls ekki láta vista sig á geðdeild og streitist á móti öllum tilraunum fjölskyldu sinnar og læknis til þess að fara sjálfviljugur á deildina. Læknirinn ákveður að beita valdi sínu til þess að nauðungarvista Eyjólf og senda hann  nauðugan á geðdeild. Læknirinn hringir á lögreglu sem handtekur Eyjólf og fer með hann á geðdeild þar sem honum er haldið gegn vilja hans.

Til þess að þessi ákvörðun læknisins sé lögleg samkvæmt fimmtu grein mannréttindasáttmála Evrópu þurfa all nokkur skilyrði að vera uppfylt. Í fyrsta lagi verður læknirinn að hafa lagalega heimild til þess að svipta Eyjólf frelsi. Á Íslandi er þá heimild að finna í lögræðislögunum svokölluðu þar sem fram kemur að læknir geti ákveðið að nauðungarvista einstakling „ef hann er með alvarlegan geðsjúkdóm“ eða ef „ástandi hans er þannig háttað að líkja megi við alvarlegan geðsjúkdóm.“

Skilyrðum mannréttindasáttmálans er þó ekki fyllilega fullnægt á þeim grunni einum að læknir Eyjólfs hafi heimild í lögum til þess að svipta hann frelsi. Lögin sjálf verða að samrýnast lögmálum réttarríkisins, þau verða að vera skýr og skiljanleg og skerða ekki frelsi borgaranna fram úr hófi. Ákvörðun læknisins verður að gæta meðalhófs og hún má ekki vera byggð á geðþótta. Krafan um meðalhóf felst í því að önnur og vægari úrræði hafi verið reynd áður en gripið er til frelsissviptingar. Krafan gegn geðþóttaákvörðunum felur í sér að læknir Eyjólfs má ekki ákveða að svipta hann frelsi á ómálefnalegum forsendum, eins og að honum líki ekki við Eyjólf og vilji gera honum grikk.

Þegar á geðdeild er komið verður að gera Eyjólfi ljóst innan hæfilegs tíma (helst strax) af hverju hann hefur verið sviptur frelsi. Læknunum á geðdeildinni ber skylda til þess að upplýsa hann um réttindi hans og þá sérstaklega að hann geti kært frelsissviptinguna til dómstóla. Eins verður að tryggja að Eyjólfur fái úr lögmæti frelsissviptingarinnar skorið eins fljótt og verða má og alls ekki síður en fjórum sólarhringum eftir að frelsissviptingin á sér stað.

Íslandi sér sýslumaður um að dæma hvort áframhaldandi nauðungarvistun eigi rétt á sér. Sýslumaður verður að ákveða hvort áframhaldandi nauðungarvistun eigi rétt á sér innan 72 klukkustunda frá því að vistunin hófst. Honum ber að meta sjálfstætt og með hliðsjón af áliti lækna hvort frelsissviptingin sé raunverulega nauðsynleg og hvort engin vægari úrræði séu í boði. Ef sýslumaðurinn kemst að þeirri niðurstöðu að nauðungarvistun sé eina mögulega úrræðið fyrir Eyjólf verður hann að ákveða hversu lengi frelsissvipting Eyjólfs inn á geðdeild skuli vara. Sýslumaður verður að hlusta á viðhorf Eyjólfs gagnvart áframhaldandi frelsissviptingu áður en hann úrskurðar í málinu.

Nauðungarvistunarákvæði lögræðislaga hefur ítrekað verið gagnrýnt fyrir að samræmast ekki grundvallarlögmálum réttarríkisins. Ákvæðið þykir of óljóst og þykir gefa yfirvöldum allt of rúma heimild til þess að svipta fólk frelsi. Enda þykir ekki ásættanlegt að hægt sé að svipta fólk frelsi sínu fyrir það eitt að búa við alvarlegan geðsjúkdóm. Meira þarf að koma til, sýna þarf fram á að lífi eða heilsu einstaklinga, eða annarra, sé hætta búin og að ekkert annað sé hægt að gera til þess að bregðast við en að beita frelsissviptingu. Þá fyrst er skilyrðum um skýra lagasetningu og meðalhóf fullnægt.

Frelsissvipting og Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kveður við talsvert annan tón gagnvart frelsissviptingu fólks með fötlun en finna má í Mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt nefnd Sameinuðu þjóðanna er aðildarríkjum samningsins óheimilt að beita fatlaða fólk nauðung af nokkru tagi. Nauðungarvistun, þvinguð lyfjagjöf og önnur þvinguð meðferð gagnvart fötluðum sé brot á samningnum í öllum tilfellum, einnig í neyðartilfellum. Í stað þvingaðrar meðferðar og/eða frelsissviptingar skuli fatlaðir njóta stuðnings sem virðir frelsi þeirra til þess að neita læknismeðferð í hvívetna. Slíkt megi til dæmis gera með notkun bráðateyma sem nota samtalsaðferðir, eða með rekstri skjólhúsa.

Önnur leið til þess að virða frelsi og mannhelgi fatlaðra væri með gerð framtíðaráætlunar (e. advanced planning) fatlaðs einstaklings, um hvernig hann vilji að meðferð sinni sé háttað komi til þess að hann geti ekki komið vilja sínum á framfæri vegna veikinda. Þó ættu einstaklingar ávalt að geta ógilt ákvæði framtíðaráætlunarinnar á hvaða stigi máls sem er.

Núgildandi lögræðislög standast ekki kröfur samningsins samkvæmt túlkun nefndarinnar. Nauðungarvistun einstaklings á þeim grunni einum að hann sé fatlaður (þjáist af alvarlegum geðsjúkdómi) er til dæmis skýrt brot á b. lið 2. tl. 14. gr., 19. gr. og 22. gr. samningsins. Þá er þvinguð meðferð á fötluðum einstaklingi óheimil samkvæmt d. lið 25.gr., 12. gr., 1. tl. 15. gr., 16. gr., 17. gr. og 22. grein samningsins eins og fram kemur í almennri athugasemd nefndar Sameinuðu þjóðanna.

Samningurinn hefur enn ekki verið löggiltur á Íslandi. Hins vegar fullgilti Alþingi hann þann 20. desember árið 2016. Með sama hætti er rétt að taka fram að í lögum um réttindi fatlaðs fólks er vísað í samninginn sem leiðbeinandi samning fyrir dómara sem framfylgja lögunum. Loks má einnig nefna að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur úrskurðað að nauðungarvistuð manneskja, þar sem grundvöllur innlagnar bar að vegna andlegra veikinda, teljist fatlaður einstaklingur (í það minnsta í skilningi fyrir réttindum gagnvart dómstólum, sbr. M.S. gegn Króatíu (75450/12)). Dómstóllinn hefur ítrekað að nauðungarvistun komi aðeins til skoðunar enda sé það nauðsynleg til verndar lífi og heilsu viðkomandi eða ríkir almannahagsmunir komi til. Þar til Samningur um réttindi fatlaðs fólks hefur verið lögfestur hérlendis gilda dómar Mannréttindadómstólsins öðru fremur um frelsissviptingu fólks með geðröskun eða geðfötlun.

 

 

 

 • Var þetta efni ganglegt ?
 • Já!   Nei
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt