Réttinn til sanngjarnra réttarhalda er að finna í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, í Mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Skipta má réttindum til sanngjarnra réttarhalda í tvo hluta:  Réttarhöld vegna sakamála og réttarhöld vegna annarra mála. Strangari kröfur eru gerðar á yfirvöd þegar við kemur réttarhöldum vegna sakamála. Ástæðan er sú að sakamálaréttarhöld eru gjarnan forleikurinn að hörðustu viðurlögum sem yfirvöld geta beitt borgaranna: frelsissviptingu.

Þar til nýlega var það almennt samþykkt að fatlað fólk, þá sérstaklega geðfatlað fólk, fengi aðra meðferð í réttarkerfinu heldur en ófatlað fólk. Sú meðferð einkennist einkar af því að geðfatlað fólk er úrskurðað óhæft til þess að taka þátt í réttarhöldum eða ósakhæf  vegna glæps sem þau eru sökuð um að hafa framið. Afleiðingin af þessari nálgun er að réttur fatlaðs fólks, fólks með geðröskun og fólks með geðfötlun, til sanngjarnra réttarhalda hefur löngum verið fótum troðinn. Þeim hefur verið meinaður aðgangur að réttarsal og neitað um að bera vitni í málum sem þau varða. Alvarlegasta birtingarmynd þessarar mismununar er að fatlað fólk hefur ítrekað verið svipt frelsi sínu án þess að fá notið sanngjarnra réttarhalda. Tilkoma Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks veldur því að alþjóðastofnanir og yfirvöld um allan heim eru nú að endurskoða afstöðu sína og túlka réttinn til sanngjarnra réttarhalda á þann hátt að hann eigi einnig við um allt fatlað fólk.

Grunnurinn að sanngjörnum réttarhöldum

Aðgangur borgaranna að óháðum og sjálfstæðum dómsstólum er einn mikilvægasti réttur okkar í lýðræðislegu samfélagi. Dómstólar skera úr um ágreiningsefni milli borgaranna og milli borgara og ríkis. Rétturinn til sanngjarnra réttarhalda er tvíþættur þar sem hann gerir greinarmun á sakamálaréttarhöldum og öðrum réttarhöldum.

Nauðungarvistanir og lögræðissviptingar falla ekki undir sakamálaréttarhöld, þrátt fyrir að afleiðing slíkra réttarhalda geti oft á tíðum valdið frelsissviptingu þeirra sem réttað er yfir. Sakamálalög eiga þó ekki við þar sem viðkomandi er ekki ásakaður um að hafa framið refsivert athæfi (glæp), heldur er frelsissviptingin réttlætt á þeim grunni að hún verndi einstaklinginn frá því að vinna sjálfum sér eða öðrum mein.

Engu að síður felur almennur hluti réttarins til sanngjarnrar málsmeðferðar í sér ýmsar skyldur sem dómsstólar og yfirvöld hafa gagnvart borgurum og aðgengi þeirra að réttlæti. Þessi réttindi er meðal annars að finna í fyrstu málsgrein sjöttu greinar Mannréttindasáttmála Evrópu en þar segir:

“6. gr.
1. Þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manns að einkamálarétti eða um sök, sem hann er borinn um refsivert brot, skal hann eiga rétt til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli. Sé skipan hans ákveðin með lögum. Dóm skal kveða upp í heyranda hljóði, en banna má fréttamönnum og almenningi aðgang að réttarhöldunum að öllu eða nokkru af siðgæðisástæðum eða með tilliti til allsherjarreglu eða þjóðaröryggis í lýðfrjálsu landi eða vegna hagsmuna ungmenna eða verndar einkalífs málsaðila eða, að svo miklu leyti sem dómstóllinn telur brýna nauðsyn bera til, í sérstökum tilvikum þar sem opinber frásögn mundi torvelda framgang réttvísinnar. [Áhersla er höfundar].”

 

Helstu eiginleikar sanngjarnra réttarhalda eru því:

  • Að borgarar hafi aðgang að dómstólum til þess að skera úr um ágreiningsefni er varða réttindi og skyldur
  • Að skipan dómstóla og heimildir þeirra til þess að skera úr um ágreiningsefni sé í lögum
  • Að dómstólarnir sem um ræðir séu:
    • Hlutlausir (óvilhallir)
    • Sjálfstæðir
  • Að dæma skuli í málum innan hæfilegs tíma
  • Að réttarhöldin séu opinber og dómur kveðinn upp opinberlega (nema í undantekningartilfellum)
  • Að málsmeðferð dómstólanna sé réttlát

Aðgangur að hlutlausum, óháðum og sjálfstæðum dómstólum

Mannréttindasáttmáli Evrópu (ásamt fleiri alþjóðlegum samningum) útlistar þannig að ríki heims verði að tryggja með lögum að allir á yfirráðasvæði þeirra hafi aðgang að óháðum og sjálfstæðum dómstólum til þess að leita réttar síns og fá skorið úr ágreiningsmálum. Sömuleiðis verða yfirvöld að tryggja að dómstólar séu í stakk búnir til þess að afgreiða mál án langra tafa. Tímaramminn er ekki skilgreindur nákvæmlega, hann fer eftir því hversu flókið málið sem um ræðir er, hversu mikið liggur á að fá úr því skorið, hversu mikið sé í húfi fyrir viðkomandi ásamt öðrum þáttum sem meta verður í hverju tilviki fyrir sig.

Mikilvægur þáttur í sanngjörnum réttarhöldum er að dómstólar og dómarar séu hlutlausir og sjálfstæðir. Hlutlaus dómari er sá sem hefur ekki bein eða óbein tengsl við deiluaðila í ákveðnu máli. Sem dæmi mætti dómari ekki dæma í máli þar sem barnið hans, foreldri, maki eða náinn vinur væru meðal deiluaðila. Í slíkum tilfellum væri dómarinn ekki hlutlaus og teldist því vanhæfur.

Dómari má ekki gæta annarra hagsmuna en réttlætis í réttarhöldum og má því ekki dæma í málum þar sem hagsmunir hans, og þeirra sem til hans leita með mál til úrlausnar, skarast. Dómari sem myndi dæma í máli þar sem úrskurður getur haft áhrif á t.d. fjárhagslega stöðu dómarans sjálfs eða fólks honum tengt væri í andstöðu við þessa reglu. Dómarinn væri vanhæfur til þess að fjalla um málið.

Annar mikilvægur þáttur í hlutleysi dómara er að þeir mega alls ekki láta fordóma ráða för þegar þeir dæma í málum. Dómari sem væri viss um að konur séu verri bílstjórar en karlmenn ætti til dæmis ekki að dæma í máli sem snýst um það hvort að kona eða karl hafi verið í rétti í árekstri vegna þess að fordómar hans væru líklegir til þess að hafa óréttlát áhrif á útkomu réttarhaldanna.

Sjálfstæði dómsstóla felur í sér að dómarar eiga ekki að fylgja fyrirmælum yfirvalda eða ríkisstjórnarinnar. Dómsstólar eiga að vera sjálfstæðar einingar sem dæma aðeins út frá lögum en ekki eftir vilja og skipunum stjórnvalda hverju sinni. Lög um sjálfstæði dómara, strangar faglegar kröfur um skipan þeirra, starfsöryggi og fastar fjárveitingar eru allt liðir í því að tryggja sjálfstæði dómara. Lög um dómara segja venjulega til um að dómarar skuli ráðnir í langan tíma í senn, jafnvel að dómarar skuli æviráðnir og að nánast ómögulegt sé að segja þeim upp störfum eru sett til þess að tryggja sjálfstæði dómstóla frá framkvæmdarvaldinu.

Rétturinn til opinberrar málsmeðferðar

Rétturinn til sanngjarnrar málsmeðferðar felur í sér réttinn til opinberrar málsmeðferðar og réttinn til þess að dómarar kveði upp úrskurð sinn “í heyranda hljóði.” Þessi réttur er meginregla í sanngjörnum réttarhöldum til þess að tryggja að fjölmiðlar, almenningur og aðstandendur málsaðila geti fylgst með réttarhöldum og veitt dómsstólum nauðsynlegt aðhald.

Sum dómsmál eru þess eðlis að þau ættu ekki að vera opin almenningi. Dæmi um slík mál eru dómsmál þar sem fram koma mjög viðkvæmar persónuupplýsingar um fólk, til dæmis í barnaverndarmálum eða nauðgunarmálum, nú eða málum þar sem leynilegar upplýsingar um öryggismál ríkisins koma fram. Rétturinn til sanngjarnrar málsmeðferðar gerir því ráð fyrir því að dómstólar geti ákveðið að víkja frá hinni almennu reglu um að dómsmál skuli vera opinber, þegar ákveðin undantekningartilfelli eiga við.

Rétturinn til réttlátrar málsmeðferðar

Til þess að réttarhöld geti talist sanngjörn verða þau að uppfylla skilyrði réttlátrar málsmeðferðar. Helstu einkenni réttlátrar málsmeðferðar er að:

  • Borgarar verða að hafa raunverulegt aðgengi að dómskerfinu
  • Málsaðilar fá að vera viðstaddir málsmeðferð
  • Jafnræðis er gætt meðal aðila máls
  • Dómstólar verða að færa rök fyrir úrskurðum sínum

Aðgengi að dómskerfinu

Réttur til sanngjarnra réttarhalda felur í sér þá grunnforsendu að borgararnir hafi aðgengi að dómskerfinu til þess að leita réttar síns og verja hagsmuni sína. Ekki er nóg að lög geri ráð fyrir því að fólk geti leitað réttar síns í gegnum dómstóla, aðgengi fólks að dómstólum verður að vera raunverulegt og raunhæft. Þannig mætti bág fjárhagsstaða til dæmis ekki koma í veg fyrir að einstaklingur geti leitað réttar síns. Yfirvöldum er því skylt að sjá til þess að fólk sem hefur ekki efni á því að ráða sér lögmann fái til þess styrk, eða að ríkið ráði lögmann fyrir þeirra hönd, í öllum flóknari lagalegum úrlausnarmálum þar sem aðstoð lögfræðings er nauðsynleg.

Málsaðilar fá að vera viðstaddir málsmeðferð

Meðal mikilvægustu þátta sanngjarnrar málsmeðferðar er að málsaðilar fái að vera viðstaddir málsmeðferðina og taka þátt í henni. Krafan um viðveru sakbornings í refsirétti er talsvert sterkari en krafan um viðveru málsaðila í einkamáli. Sakborningar eiga óskoraðan rétt á að vera viðstaddir í réttarhöldum gegn þeim til þess að geta varið sig gegn ásökunum ríkisins. Í einkamálum er krafan um viðveru málsaðila sterkust í dómsmálum sem fjalla um framkomu, hegðun eða verknað málsaðila. Lögræðissviptingarmál sem og nauðungarvistunarmál eru dæmi um mál þar sem hegðun og framkoma málsaðila eru tekin fyrir og því ætti viðvera þeirra og þáttaka í réttarhöldum ávalt að vera tryggð.

Jafnræði milli málsaðila

Jafnræði milli málsaðila lýsir þeirri skyldu á hendur dómstóla að allir málsaðilar ákveðins dómsmál verði að hafa raunhæfan möguleika á að standa fyrir máli sínu við dómstólinn. Dómarar verða að gæta jafnræðis og tryggja að aðstæður séu ekki með þeim hætti að það halli á getu annars hvors aðilans til þess að koma sinni hlið málsins á framfæri. Útlendingur sem skilur ekki tungumál réttarhaldanna hefði ekki jafnan möguleika á að taka þátt og standa fyrir máli sínu við dómstólinn ef honum væri ekki tryggður túlkur svo dæmi sé tekið.

Annar mikilvægur þáttur í skilyrðinum um janfræði milli aðila er rétturinn til þess að kalla vitni og leggja fram sönnunargögn, máli sínu til stuðnings. Í flestum tilfellum gildir einnig sú regla að málsaðilar verða að hafa aðgang að öllum gögnum sem að mótherjinn leggur fram í réttarhöldunum.  Dómarar sem leyfa aðeins öðrum aðilanum að kalla til vitni eða leggja fram sönnunargöng eru ekki að virða jafnræði málsaðila.

Dómstólar verða að færa rök fyrir úrskurðum sínum

Réttur til sanngjarnrar málsmeðferðar felur í sér skyldu á hendur dómara að færa rök fyrir öllum veigamiklum atriðum í úrskurðum sínum. Ef að málsaðili leggur fram ákveðna röksemdarfærslu eða sönnunargögn máli sínu til stuðnings, verða dómarar að leggja mat á þau sönnunargögn og færa rök fyrir því mati sínu skriflega. Dómurum ber ekki að svara hverri einustu spurningu eða röksemdafærslu málsaðila en þeim ber skylda til þess að svara öllum atriðum sem geta haft veigamikil áhrif á útkomu málsins.

Sanngjörn réttarhöld og Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks

Samningur Sameinuðu þjóðanna inniheldur margvísleg ákvæði sem tryggja jafnt aðgengi fatlaðs fólks að réttlæti og sanngjörnum réttarhöldum. Meðal þeirra er 13. grein samningsins er segir:

“Aðgangur að réttarkerfinu.

  1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra, meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess og taka tilhlýðilegt tillit til aldurs viðkomandi, í því skyni að gera því kleift að gegna hlutverki sínu með virkum hætti sem beinir og óbeinir þátttakendur, þar með talið sem vitni, í öllum málarekstri, einnig á rannsóknarstigi og öðrum undirbúningsstigum.
  2. Í því skyni að greiða fyrir því að tryggja megi fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu skulu aðildarríkin stuðla að viðeigandi fræðslu og þjálfun fyrir þá sem starfa á sviði réttarvörslu, meðal annars lögreglumenn og starfsmenn fangelsa.”

Samningurinn krefst þess að fatlað fólk nóti jafns aðgengis að réttarkerfinu og geti tekið þátt í því á virkan hátt. Í því felst meðal annars að bjóða upp á túlkaþjónustu fyrir einstaklinga sem tjá sig ekki á hefðbundinn hátt. Sömuleiðis ber yfirvöldum að tryggja viðeigandi þjálfun fyrir alla sem starfa í réttarkerfinu, eins og lögreglumenn, dómara og starfsmenn fangelsa til þess að auðvelda virka þáttöku og aðgang fatlaðs fólks að réttarkerfinu.

Sé þrettánda grein lesin í samhengi við fimmtu og tólftu grein samningsins er ljóst að samningurinn felur í sér umbyltingu á því hvernig réttindum og réttarvernd fatlaðs fólks, sérstaklega geðfatlaðs fólks hefur verið háttað fram að þessu. Fimmta grein samningsins bannar mismunun á grundvelli fötlunar, tólfta grein tryggir jafna réttarstöðu fatlaðs fólks til jafns við aðra á meðan fjórtánda grein bannar frelsissviptingu á grundvelli fötlunar. Saman fela þessi ákvæði í sér skyldu yfirvalda til þess að afnema lögráðamannakerfið  og hætta alfarið nauðungarvistunum á grundvelli fötlunar.

Yfirvöld verða að sjá til þess að fatlað fólk hafi fullt aðgengi að réttarkerfinu, geti leitað réttar síns til jafns við aðra og sé ekki neitað um að bera vitni eða sækja mál til jafns við aðra í samfélaginu. Það þýðir að yfirvöld verða að tryggja fötluðu fólki sem þess þarfnast viðeigandi stuðning við ákvarðanatöku og stuðning til þess að taka virkan þátt í réttarkerfinu.

Frelsissvipting vegna saknæms athæfis

Eins og fyrr sagði gilda strangari kröfur á yfirvöld þegar kemur að því að tryggja réttindi þeirra sem ásakaðir eru um refsiverða háttsemi, heldur en þegar um svokölluð einkamál er að ræða. Önnur málsgrein sjöttu greinar Mannréttindasáttmála Evrópu útlistar grunn réttindi sakborninga í sakamálum sem tryggja þarf ásamt almennum ákvæðum fyrstu málsgreinarinnar:

6.grein

  1. Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus uns sekt hans er sönnuð að lögum.
  2. Hver sá sem borinn er sökum um refsiverða háttsemi skal eigi njóta minni réttar en hér greinir:
    1. Hann fái án tafar, á máli sem hann skilur, vitneskju í smáatriðum um eðli og orsök þeirrar ákæru sem hann sætir.
    2. Hann fái nægan tíma og aðstöðu til að undirbúa vörn sína.
    3. Hann fái að halda uppi vörnum sjálfur eða með aðstoð verjanda að eigin vali. Hafi hann ekki nóg fé til að greiða lögfræðiaðstoð skal hann fá hana ókeypis ef það er nauðsynlegt vegna réttvísinnar.
    4. Hann fái að spyrja eða láta spyrja vitni sem leidd eru gegn honum. Séð skal um að vitni, sem bera honum í vil, komi fyrir dóm og séu spurð á sama hátt og þau vitni sem leidd eru gegn honum.
    5. Hann fái ókeypis aðstoð túlks ef hann skilur hvorki né talar mál það sem notað er fyrir dómi.

Hingað til hafa lög í allflestum ríkjum heims gert ráð fyrir því að fólk með geðröskun, geðveiki eða geðfötlun sem fremur glæp á meðan það á við mikil veikindi að stríða teljist jafnan ósakhæft. Í stað þess að rétta yfir þeim verknaði sem þessir einstaklingar eru sakaðir um með hefðbundnum hætti, er sumum jafnvel flestum skilyrðum sanngjarnra réttarhalda sleppt og viðkomandi er vistaður inn á lokaðri stofnun “til meðferðar.”

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra bannar það að undanskilja geðfatlað fólk frá hefðbundnum og sanngjörnum réttarhöldum vegna fötlunar þeirra. Fatlað fólk á að njóta sömu réttinda og sömu réttarhalda og aðrir sem ásakaðir eru um glæp. Eins megi ekki neyða fólk til þess að undirgangast læknismeðferð eða aðra meðferð sem viðurlög við afbroti. Samningurinn gerir þannig ráð fyrir að öll þau skilyrði og réttindi sem venjulega eiga við í sakamálum muni einnig eiga við þegar rétta skal yfir fólki með geðröskun og geðfötlun.

Gagnrýni á nálgun samningsins

Margir sérfræðingar hafa gagnrýnt þessa nálgun samningsins vegna þess að þeir telja að með því að afnema getu dómsstóla til þess að lýsa fólk ósakhæft hafi yfirvöld ekki lengur úrræði til þess að bregðast við hættulegum einstaklingum sem brjóta af sér en geta ekki talist ábyrgir gjörða sinna vegna alvarlegra geðrænna veikinda.

Til þess að hægt sé að dæma einstakling sekan um refsiverða háttsemi (afbrot, glæp), verður að sýna fram á að: Einstaklingurinn hafi framið refsiverðan verknað og að: Einstaklingurinn hafi ætlað sér að fremja refsiverðan verknað (ásetningur). Ef alvarleg geðræn veikindi valda því að einstaklingur vissi ekki eða gat ekki vitað að það sem hann var að gera var brot á lögum, vegna verulegra ranghugmynda eða ofskynjunar t.d. þá er ekki hægt að dæma hann sekan samkvæmt almennum sakamálarétti.

Sakborningar verða einnig að geta tekið fullan þátt í réttarhöldum gegn þeim og þeir verða að geta skilið hvað fer fram í réttarhöldunum með fullnægjandi hætti. Bent hefur verið á að með því að láta alvarlega geðsjúkt fólk taka þátt í réttarhöldum, eins og samningurinn virðist gera ráð fyrir, væri ekki  hægt að tryggja þeim sanngjörn réttarhöld.  Þar kemur krafan um stuðning og fræðslu mjög sterkt inn; yfirvöldum ber eftir allra fremsta megni að tryggja virka þáttöku geðfatlaðs fólks með margvíslegum leiðum.

Aðlögun yfirvalda að nýjum veruleika

Samningurinn gerir ekki kröfu um að ekkert tillit sé tekið til veikinda fólks við sakamálaréttarhöld. Hann gerir einfaldlega ráð fyrir að yfirvöld aðlagist þeirri heimssýn sem gerir geðfötluðum kleift að taka virkan þátt í réttarhöldum til jafns við aðra og að þeim sé ekki meinuð grundvallarréttindi sem felast í réttinum til sanngjarnra réttarhalda vegna fötlunar sinnar. Yfirvöld mega hreinlega ekki frelsissvipta fólk á grundvelli fötlunar, þetta skilyrði verður til þess að endurhugsa þarf nálgun sakamálaréttar að ósakhæfi; það má ekki byggjast á raunverulegri eða ætlaðri vitsmunalegri eða andlegri skerðingu einstaklingsins sem um ræðir.

Ein nálgun væri til dæmis að endurskoða mat á ásetningi. Til eru drög frá árinu 1962 frá Bandarísku lagastofnuninni (American Law Institute) sem inniheldur skilgreiningu á ásetningi sem tryggir að fólk sem raunverulega vissi ekki eða vildu ekki fremja glæp og gátu ekki stjórnað því, myndu ekki vera dregin til ábyrgðar á sama hátt og manneskja sem hafði ásetning til þess að fremja glæp. Ásetningur aðila yrði þá fyrst og fremst ákveðinn út frá hugarástandi sakborningsins hverju sinni. Ef viðkomandi trúði því til dæmis af heilum hug að hann hafi verið að skjóta tré en ekki manneskju, teldist hann ekki sekur um ásetning til manndráps með þessari skilgreiningu. Útvíkkun og endurnýjun á ásetningarhugtakinu er þannig ein nálgun sem gerir byggir ekki á fötlun í sjálfu sér, heldur hugarástandi ætlaðs brotamanns hverju sinni.

  • Var þetta efni ganglegt ?
  • Já!   Nei
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt