Um Réttindagáttina
Ágæti lesandi Réttindagáttar Geðhjálpar!
Sú staðreynd blasir því miður við að réttindi fólks með fötlun eru víða fótum troðin. Hvarvetna í heiminum á þessi hópur undir högg að sækja og virðist þar litlu skipta hvar borið er niður.
Með Réttindagáttinni leggur Geðhjálp sitt lóð á vogarskálarnar til réttindabaráttu fólks með geðrænan vanda. Með henni er notendum geðheilbrigðisþjónustunnar, aðstandendum, réttindagæslufólki, lögfræðingum og öðrum hagsmunaaðilum gert kleift að sækja sér aðgengilegar almennar upplýsingar og ítarefni í því skyni að verja og sækja réttindi þessa hóps.
Réttindagáttinn skiptist í grófum dráttum í fjóra hluta: réttindi fólks með geðrænan vanda út frá sex ólíkum sjónarhornum; almenn réttindi með sérstakri tilvísun til geðrænna veikinda; réttarúrræði og stuðning og síðast en ekki síst víðfemt gagnasafn með upplýsingum um helstu alþjóðasamninga, lög, nefndarálit og úrskurði. Uppsetningin miðar að því að upplýsingarnar séu aðgengilegar og hlekkir á ítarefni inni í textanum auðveldi lesandanum að nálgast viðeigandi upplýsingar með einföldum hætti.
Geðhjálp naut liðsinnis öflugra samherja við vinnuna við Réttindagáttina. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, mannréttinda-lögfræðingur, á heiðurinn af textanum á vefnum. Uppsetningin var í höndum þeirra Ingu Auðbjargar og Sindra Snæs hjá Frumkvæði – veflausnum. Geðhjálp færir þessum þremur snillingum hjartans þakkir fyrir framlag þeirra til baráttunnar.
Vonandi reynist Réttindagáttin þér hjálpleg til að nálgast þær upplýsingar sem þú þarft á að halda um réttindi fólks með geðrænan vanda í innlendu og alþjóðlegu samhengi. Með hliðsjón af því þætti okkur vænt um að þú sendir okkur athugasemdir og ábendingar um innihald vefsins í gegnum gáttina hér til hliðar.
Með fyrirfram þakklæti og bestu kveðjum frá Geðhjálp.