Fólk með geðröskun á að njóta sömu mannréttinda og allir aðrir á Íslandi. Réttindagáttin leggur áherslu á sex grundvallarréttindi sem varða fólk með geðröskun. Þessi réttindi eru forsenda þess að fólk með geðröskun njóti mannvirðingar, sjálfsákvörðunarréttar og jafnréttis í samfélaginu. Réttindin sex eru öll tryggð í alþjóðlegum mannréttindasamningum sem Ísland hefur fullgilt. Með því að smella á hlekkina hér að neðan má nálgast ítarlegar upplýsingar um þessi réttindi.

Fólk með geðröskun á rétt á:

Á Íslandi eru þessi réttindi tryggð á margvíslegan máta þó enn sé langt í land þar til segja megi að íslensk yfirvöld verndi og framfylgi þessum réttindum með fullnægjandi hætti.

 

Réttur til bestu mögulegu heilsu

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreinir heilbrigði sem ástand sem einkennist af því að einstaklingur búi við líkamlega, andlega og félagslega vellíðan en ekki einungis að hann sé laus við sjúkdóma eða hrörleika.[1]  Réttur allra til bestu mögulegu heilsu felur ekki í sér rétt til heilbrigðis enda ræðst heilbrigði einstaklinga af fjölda mismunandi þátta eins og erfðum, umhverfi og lífsstíl og því er ekki hægt að tryggja öllum jafnan rétt til heilbrigðis. Þess í stað felur réttur til heilsu í sér réttinn til að njóta ákveðinnar þjónustu sem manneskjur þarfnast til njóta bestu mögulegu heilsu, jafnt andlegar sem líkamlegrar.

Almennt er samþykkt að réttur til heilsu felur í sér miklu meira en rétt til heilbrigðisþjónustu. Rétturinn felur einnig í sér tilkall til ýmissa félagslegra og efnahagslegra úrræða sem ýta undir almennt heilbrigði. Rétturinn til heilsu felur einnig í sér frelsi hvers og eins til að ráða yfir eigin líkama og taka sjálfstæða ákvörðun um viðeigandi meðferð.

Rétturinn til bestu mögulegu heilsu felur í sér skuldbindingu ríkja heims til að tryggja eftir fremsta megni að allir njóti grunnheilbrigðisþjónustu og búi við heilbrigð lífskjör. Ennfremur hvílir á ríkjum sú skuldbinding að auka stöðugt við þessa þjónustu eftir bestu getu. Samkvæmt þessum reglum ætti heilbrigðisþjónustan á Íslandi að vera betri og aðgengilegri almenningi eftir fimm ár en hún er í dag. Afturför eða samdráttur í þessari mikilvægu þjónustu er almennt ekki í samræmi við rétt fólks til bestu mögulegu heilsu.

Réttur til bestu mögulegu heilsu í íslenskum lögum

Réttinn til heilsu er ekki að finna í núverandi stjórnarskrá Íslands en má þó finna í drögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Núverandi stjórnarskrá inniheldur ákvæði sem nær yfir hluta réttarins til bestu mögulegu heilsu, en það er 76. grein stjórnarskrárinnar sem segir:

“Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.”

Að njóta öryggis og aðstoðar vegna veikleika er mjög mikilvægur hluti af réttinum til bestu mögulegu heilsu og því er mjög jákvætt að þennan rétt sé að finna í stjórnarskrá Íslands. Eins og sjá má nefnir ákvæðið ekki rétt til heilsu sérstaklega heldur skyldar það Alþingi einungis til að tryggja með lögum rétt fólks til aðstoðar frá yfirvöldum ef það verður veikt eða þarf af öðrum ástæðum á hjálp að halda. Aðra mikilvæga þætti réttarins til heilsu má finna í almennum íslenskum lögum eins og lögum um réttindi sjúklinga, lögum um sjúkratryggingar, lyfjalögum og fjölda reglugerða um réttindi sjúklinga og gæðakröfur til heilbrigðisþjónustunnar.

Réttur til heilbrigðisþjónustu

Réttur allra til heilsu felur í sér réttinn til bestu mögulegu geðheilsu. Rétturinn til heilsu skyldar yfirvöld til þess að tryggja öruggt aðgengi að nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu. Aðgengi að heilsugæslu, sjúkrahúsum, lyfjum og annarri heilbrigðisþjónustu er þar lykilatriði. Mikilvægt er að boðið sé upp á þessa þjónustu í nærumhverfi fólks til að sem minnst rask fylgi veikindum.

Fólk með geðraskanir og geðfötlun býr oft við skert lífskjör vegna veikinda sinna. Það er því mikilvægur þáttur réttarins til heilsu að boðið sé upp á heilsueflandi þjónustu eins og sjúkraþjálfun og endurhæfingu. Ýmis þjónusta sem eflir sjálfstæði og starfsgetu fólks ætti einnig að vera aðgengileg öllum. Dæmi um slíka þjónustu er starfsendurhæfing eða starfsþjálfun eða búsetuúrræði með stuðningi fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Mannréttindastofnanir Sameinuðu þjóðanna styðjast við ákveðin mælitæki til að meta hversu vel ríkjum hefur tekist að tryggja þau félagslegu, efnahagslegu og menningarlegu réttindi sem þau hafa skuldbundið sig til að virða. Við mat þeirra á hversu vel ríki tryggja rétt borgara sinna til heilsueflandi þjónustu er aðallega horft til fjögurra þátta.

Þjónustan þarf að vera:

  • Til staðar
  • Aðgengileg
  • Félagslega samþykkt og viðunandi
  • Í háum gæðaflokki

Til staðar

Heilbrigðisþjónusta hvers kyns verður að vera til staðar og fyrirfinnast víðsvegar um landið. Innifalið í þessu skilyrði er einnig að nógu margar stofnanir sé að finna sem bjóða upp á geðheilbrigðisþjónustu. Tryggja þarf að viðunandi fjöldi lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks sé þjálfað til að sinna geðheilsu. Auk þess þarf að tryggja nægar birgðir af öllum helstu lyfjum sem þörf gæti verið á.

Fjármögnun geðheilbrigðiskerfisins liggur hjá ríkisstjórn Íslands og hjá Alþingi við gerð fjárlaga ríkisins. Sjúkratryggingarstofnun Íslands ásamt Landlækni fara með það vandasama hlutverk að sinna uppbyggingu og innviðum heilbrigðiskerfisins. Alþingi og ríkisstjórnin bera hins vegar ábyrgð á því að móta heildstæða stefnu í geðheilbrigðismálum. Vorið 2016 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára. Aðgerðaráætlunin tekur sérstaklega fram að fjárlög næstu fjögurra ára verði að taka tillit til áætlunarinnar og tryggja þar með nægjanlegt fjármagn til þess að bæta geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi.Aðgerðaráætlunin lofar góðu og hefur það að markmiði að vinna gegn ýmsum göllum á geðheilbrigðisþjónustu Íslands fram að þessu.

Geðheilbrigðisþjónusta á Íslandi í dag er ekki fyllilega til staðar á landsvísu og hana er til dæmis ekki að finna á Ísafirði Geðheilbrigðisþjónusta á Íslandi er ekki fyllilega til staðar á landsvísu, t.a.m. voru engir geðlæknar starfandi á Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum á árinu 2016.

Lyfjakostnaður fólks með geðröskun getur verið óhóflega hár og enn vantar tilfinnanlega geðlækna, annað sérþjálfað fagfólk og fólk með notendareynslu til starfa til þess að hægt sé að líta svo á að geðheilbrigðisþjónusta á Íslandi sé fullnægjandi.

Aðgengi

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu er metið út frá fjórum þáttum. Í fyrsta lagi þarf hún að vera líkamlega og landfræðilega aðgengileg öllum. Í öðru lagi þarf fólk að hafa efni á heilbrigðisþjónustu, það er að segja að hún má ekki vera svo dýr að kostnaðurinn takmarki aðgengi fólks að þjónustunni. Í þriðja lagi verður heilbrigðisþjonusta að vera aðgengileg fólki án mismununar á grundvelli þjóðernis, fötlunar, kyns eða annarar stöðu. Í fjórða lagi er mikilvægt að tryggja aðgengi fólks að upplýsingum um heilbrigðisþjónustu og um sitt eigið heilsufar.

Líkamlegt og landfræðilegt aðgengi

Fyrst og fremst þarf heilbrigðisþjónusta að vera líkamlega og landfræðilega aðgengileg öllum. Fólk á ekki að þurfa að ferðast langar vegalengdir til að nálgast þjónustuna og byggingarnar sjálfar verða að vera aðgengilegar fyrir alla, líka fólk með fatlanir.

Eins og áður sagði vantar enn þá töluvert upp á að geðheilbrigðisþjónusta geti talist landfræðilega aðgengileg öllum á Íslandi. Aðgerðaráætlun Alþingis í geðheilbrigðismálum gerir þó ráð fyrir því að geðheilbrigðisteymi verði til staðar í öllum landshlutum árið 2019. Áætlunin gerir einnig ráð fyrir því að 90% allra heilsugæslna á landinu hafi ráðið til sín sálfræðing fyrir lok árs 2019 svo að efla megi aðgang fólks á landsvísu að geðheilbrigðisþjónustu.

Efnahagslegt aðgengi

Heilbrigðisþjónusta verður að vera efnahagslega aðgengileg notendum. Þetta skilyrði er sjaldan uppfyllt þegar geðheilbrigðismál eru annars vegar. Geðheilbrigðisþjónusta fellur oftast utan almennra heilbrigðistrygginga og getur því orðið mjög kostnaðarsöm og þar með óaðgengileg þeim sem oft þurfa mest á henni að halda. Á Íslandi er þjónusta sálfræðinga ekki meðal þeirrar heilbrigðisþjónustu sem sjúkratryggingar Íslands niðurgreiða. Þjónusta sálfræðinga er því mörgum utan seilingar vegna efnahags. Sjúkratryggingar ná yfir þjónustu geðlækna en biðin eftir að komast að getur verið ansi löng. Þeir sem leggjast inn á geðdeild vegna geðrænna veikinda eiga rétt á sjúkradagpeningum ef viðkomandi er óvinnufær lengur en 21 dag.

Jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu

Þriðji þátturinn er jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu. Ekki má mismuna fólki á grundvelli fötlunar, kynþáttar, trúarbragða eða annarra persónueinkenna. Lög um réttindi sjúklinga tryggja að ekki megi mismuna sjúklingum á þessum grunni. Samt sem áður er það svo að þrátt fyrir að 20% af sjúkdómsbyrði samfélagsins megi rekja til geðrænna vandamála fær geðheilbrigðisþjónusta aðeins um 8% af því fé sem veitt er til heilbrigðismála á landsvísu. Ef aðgerðaráætlun Alþingis í geðheilbrigðismálum gengur eftir má þó búast við að þetta hlutfall lagist eitthvað í átt að jafnara aðgengi fólks með geðraskanir að heilbrigðisþjónustu á við aðra sjúklingahópa.

Aðgengi að upplýsingum

Fjórði og síðasti aðgengisþátturinn er aðgengi að upplýsingum. Upplýsingar um heilsufar almennt verða að vera öllum aðgengilegar. Eins verður hver og einn að hafa fullan aðgang að upplýsingum um sína eigin heilsu. Á Íslandi eru þessi réttindi tryggð í lögum um Landlækni, lögum um réttindi sjúklinga, og lögum um sjúkraskrár.

Landlæknir og heilbrigðisstarfsfólk fara með það hlutverk að tryggja aðgengi fólks að upplýsingum um heilsufar almennt. Lög um sjúkraskrár fjalla um þá aðferð sem allir heilbirgðisstarfsmenn þurfa að notast við til þess að skrá upplýsingar um sjúklinga á sem öruggastan og aðgengilegastan hátt fyrir heilbrigðisstarfsmenn og fyrir sjúklingana sjálfa. Loks fjalla lög um réttindi sjúklinga einnig um rétt þeirra til þess að hafa aðgang að almennum upplýsingum um heilsufar almennt sem og að hafa góðan aðgang að upplýsingum um sitt eigið heilsufar.

Fólki með geðraskanir og geðfötlun er oft neitað um skýrar upplýingar um eigið heilsufar vegna þess að þau eru talin skorta getu til þess að skilja þær. Fyrir fólk með geðraskanir er mikilvægt að hafa í huga að 5. grein laga um réttindi sjúklinga gerir ráð fyrir því að þeir eigi rétt á ítarlegum upplýsingum um eigið heilsufar, um möguleg meðferðarúrræði og afleiðingar þeirra.

Upplýsingar um heilsufar og meðferð.
5. gr.

Sjúklingur á rétt á upplýsingum um:

  1. heilsufar, þar á meðal læknisfræðilegar upplýsingar um ástand og batahorfur,
  2. fyrirhugaða meðferð ásamt upplýsingum um framgang hennar, áhættu og gagnsemi,
  3. önnur hugsanleg úrræði en fyrirhugaða meðferð og afleiðingar þess ef ekkert verður aðhafst,
  4. möguleika á að leita álits annars læknis eða annarra heilbrigðisstarfsmanna eftir því sem við á um meðferð, ástand og batahorfur.

Þess skal getið í sjúkraskrá sjúklings að upplýsingar samkvæmt þessari grein hafi verið gefnar.
Upplýsingar samkvæmt þessari grein skulu gefnar jafnóðum og tilefni skapast og á þann hátt og við þau skilyrði að sjúklingur geti skilið þær.
Eigi í hlut sjúklingur sem ekki talar íslensku eða notar táknmál skal honum tryggð túlkun á upplýsingum samkvæmt þessari grein.

Rétturinn til heilsu felur í sér að allir eiga rétt á upplýsingum um eigið heilsufar. Eigi fólk erfiðara en ella með að skilja upplýsingar um heilsu sína eða taka mikilvægar ákvarðanir um rétta heilbrigðisþjónustu ber að veita þeim viðeigandi stuðning til þess að skilja og taka ákvörðun. Ekki er heimilað að hamla aðgengi fólks með geðraskanir eða geðfötlun að upplýsingum um eigið heilsufar.

Fólk með geðraskanir sem hafa staðið lengi yfir sem þarfnast stuðnings til þess að undirbúa upplýsta ákvörðun um persónuleg málefni, eða í samskiptum sínum við opinberar stofnanir eða í viðskiptum við aðra – á rétt á persónulegum talsmanni samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Í fyrstu grein, öðrum málslið stendur: „Ákvæði IV. kafla [lög um talsmenn fatlaðra] gilda einnig um réttindagæslu einstaklinga sem vegna afleiðinga viðvarandi sjúkdóms eða slyss þurfa stuðning við undirbúning upplýstrar ákvörðunar um persónuleg málefni eða aðstoð við að leita réttar síns hvort sem er gagnvart opinberum þjónustuaðilum, öðrum stjórnvöldum eða einkaaðilum.“

Lög um réttindi sjúklinga ásamt reglugerð um túlkun á upplýsingum um heilsufar og meðferð fyrir sjúklinga tryggja rétt fólks sem talar ekki íslensku eða þeirra sem tala táknmál til þess að njóta aðstoðar túlks í samskiptum sínum við heilbrigðisstarfsfólk.

 

Félagslega samþykkt og viðunandi

Í alþjóðlegum grunnviðmiðum um geðheilbrigðisþjónustu má finna skilyrði um að notendur eigi rétt á geðheilbrigðisþjónustu sem virðir menningarlegan bakgrunn þeirra og hefðir. Heilbrigðisþjónusta sem boðið er upp á verður að vera félagslega samþykkt og bera virðingu fyrir menningu hvers og eins. Eins er mikilvægt að þjónustan fylgi siðareglum læknavísindanna. Miklu skiptir að geðheilbrigðisþjónusta sé einstaklingsbundin og taki mið af aðstæðum hvers og eins. Meðferð ætti alltaf að fylgja einstaklingsbundinni áætlun sem gerð er í samvinnu við viðkomandi notandann. Áætlunin ætti að vera endurskoðuð reglulega, breytt eftir þörfum og unnin af fagfólki.

Á Íslandi eru þessi viðmið tryggð í lögum um réttindi sjúklinga sem tryggja að heilbrigðisstarfsfólk skuli koma fram við sjúklinga af virðingu. Þar kemur einnig fram að sjúklingar skuli vera virkir þátttakendur í eigin meðferð. Þriðji kafli í lögum um heilbrigðisstarfsmenn fjallar um faglegar kröfur og siðareglur heilbrigðisstarfsmanna á Íslandi við veitingu þjónustu.

 

Hár gæðaflokkur

Öll heilbrigðisþjónusta ætti að vera í háum gæðaflokki. Til þess þarf hágæða spítala og  heilbrigðisstofnanir ásamt vel menntuðu og þjálfuðu fagfólki.  Tækjabúnaður, verkfæri og annar búnaður verður að vera nothæfur og standast hreinlætiskröfur. Notast skal við gagnreynd meðferðarúrræði og vísindalega prófuð og óútrunnin lyf.

Landlæknir og sjúkratryggingastofnun Íslands fara með það hlutverk að sjá til að heilbrigðisþjónustan á Íslandi sé í besta mögulega gæðaflokki. Lyfjalög fjalla um gæðakröfur innkaup á viðeigandi lyfjum fyrir íslenska sjúklinga. Lög um heilbrigðisstarfsfólk fjalla um fag- og menntunarkröfur gagnvart heilbrigðisstarfsfólki.

Félagslegt öryggi og aðstoð vegna veikinda

Réttur til bestu mögulegu heilsu felur í sér rétt til félagslegs öryggis og aðstoðar vegna veikinda.  Fólk án húsaskjóls eða viðeigandi fatnaðar á oft erfitt með að halda heilsu á meðan matur og drykkur eru lífsnauðsynlegur öllum. Sæmileg hreinlætisaðstaða og heilbrigð lífskjör almennt eru einnig lykilatriði góðrar heilsu.

Ákvæðið í stjórnarskrá Íslands um rétt til aðstoðar vegna veikinda eða örorku má sín lítils ef því er ekki fylgt eftir með öðrum lögum og raunverulegum aðgerðum. Aðstoð sem þessi er gjarnan nefnd velferðarþjónusta og Ísland jafnan kallað velferðarríki vegna þess að yfirvöld eiga að tryggja velferð borgara sinna og hjálpa þeim þegar á þarf að halda.

Velferðarkerfið á Íslandi er flókið og þungt í vöfum og það getur reynst þrautinni þyngra að komast að því hvernig það virkar og hvaða rétt fólk á. Aðstoðin sem lögin á Íslandi gerir ráð fyrir er oft í formi fjárhagsaðstoðar frá ríkinu á meðan veikindum stendur, atvinnuleysisbóta ef um atvinnuleysi er að ræða og örorkulífeyris vegna örorku svo dæmi séu nefnd.

Sjúkradagpeningar

Allir sem eru sjúkratryggðir á Íslandi og eldri en 16 ára eiga rétt á sjúkradagpeningum ef þeir eru alveg óvinnufærir í 21 dag eða lengur vegna veikinda. Öll frekari skilyrði er að finna í lögum um sjúkratryggingar. Hægt er að sækja um sjúkradagpeninga á vef sjúkratrygginga Íslands.

Elli-, örorku- og framfærslulífeyrir

Lög um Almannatryggingar fjalla um réttindi þeirra sem eru óvinnufærir til langframa vegna veikinda, elli, örorku til fjárhagsaðstoðar frá ríkinu. Tryggingamiðstöð Íslands sér um úthlutun slíkra bóta á grundvelli flókins lagaverks. Ef einstaklingur telur sig eiga rétt á einhverjum þessara réttinda er æskilegt að leita til félagsráðgjafa eða annarra sérfræðinga til þess að ráða fram úr því hvaða rétt hver og einn á.

Atvinnuleysisbætur

Atvinnuleysisbætur eru tímabundinn fjárhagsstuðningur frá ríkinu fyrir fólk sem missir vinnuna. Þeim er ætlað að styðja fjárhagslega við fólk í atvinnuleit. Allar nánari upplýsingar um atvinnuleysisbætur má finna hér á vef Vinnumálastofnunar.

Félagsaðstoð sveitafélaga

Félagsaðstoð sveitafélaga er fjárhagsaðstoð frá sveitafélögum ætluð þeim sem þarfnast fjárhagsaðstoðar en eiga ekki rétt á annari aðstoð samkvæmt lögum. Frekari upplýsingar um fjárhagsaðstoð sveitafélaga fæst hjá þjónustumiðstöð sveitafélaganna og í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.

Heilsufrelsi

Fólk með geðröskun er stundum ekki talið geta tekið réttar eða skynsamar ákvarðanir um heilsu sína og viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Lög um réttindi sjúklinga byggja á slíkum viðhorfum til fólks með geðraskanir. Þar er að finna ákvæði sem ganga út frá því að hægt sé að meina sjúklingum um að taka ákvarðanir um eigin læknismeðferð og að fá upplýsingar um eigið heilsufar (6.grein). Þessi ákvæði eiga þó alla jafna ekki við fólk með geðröskun sem ekki hefur verið svipt lögræði, eða verið nauðungarvistað.

Fólk með geðraskanir hefur óskoraðan rétt til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um hvort það vilji þiggja meðferð eða ekki.

 

Önnur mikilvæg réttindi fólks með geðröskun

Fólk með geðröskun er mismunað í íslenskum lögum á margvíslegan hátt. Alþjóðlegir samningar sem Ísland er aðili að tryggir rétt fólks með geðröskun um að ekki megi mismuna þeim vegna geðröskunar (fötlunar). Þessi mikilvægu réttindi eru þó ekki nægjanlega vel tryggð í íslenskum lögum. Sem dæmi má nefna að jafnréttislögin á Íslandi taka aðeins til jafnréttis kynjanna og vernda því ekki aðra hópa samfélagsins gegn mismunum vegna annarra mismunaþátta.

Lögræðislögin gera ráð fyrir því að svipta megi fólk frelsi fyrir það eitt að vera með alvarlegan geðsjúkdóm. Lögin um nauðungarvistun eins og þau standa mismuna því fólki með geðröskun að því leyti að þau njóta ekki rétt til frelsis og mannhelgi til jafns við aðra hópa samfélagins.

Fólk með geðröskun á meira í hættu en aðrir hópar að verða fyrir pyndingum og sæta annarri vanvirðandi meðferð heldur en margir aðrir hópar samfélagsins. Hættan felst í því að fólk með gerðaskanir er oft látið sæta þvingaðri meðferð eða þvingaðri lyfjagjöf. Mest er hættan þegar fólk hefur verið svipt lögræði eða þegar fólk hefur verið nauðungarvistað  þar sem íslensk lög gera ráð fyrir því að þá megi neyða fólk til að þiggja meðferð þvert á eigin vilja.

Réttur fólks með geðraskanir til sanngjarnrar málsmeðferðar á einnig undir högg að sækja. Lögræðislögin tryggja alls ekki nógu vel réttindi fólks til þess að vera viðstatt málsmeðferð um nauðungarvistun lögræðissviptingu.

Lögræðissvipting er ein helsta birtingarmynd misréttis gagnvart fólki með geðraskanir. Alla jafna brýtur lögræðissvipting á rétti fólks með geðraskanir að njóta lögformlegs hæfis til jafns við aðra. Með lögræðissviptingum er sjálfsákvörðunarréttur fólks með geðraskanir tekinn frá þeim og öðrum aðila gefið vald til að taka ákvarðanir fyrir þeirra hönd. Lögræðissviptingar eins og þær er að finna í íslenskum lögum í dag brjóta á 12. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og því má ætla að þær hljóti að taka einhverjum breytingum, nú þegar Alþingi hefur fullgilt samninginn.

 

 

  • Var þetta efni ganglegt ?
  • Já!   Nei
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt