Rétt eins og í tilviki geðraskana er engin almenn alþjóðlega samþykkt skilgreining til á hugtakinu geðfötlun.  Það ríkir þó töluvert meiri sátt meðal fræðimanna um almenna merkingu geðfötlunar heldur en um merkingu hugtaksins geðröskun. Og öfugt við geðröskun má finna ákveðna skilgreiningu á geðfötlun í íslenskum lögum.

Í stuttu máli má segja að manneskja með geðfötlun sé manneskja með geðröskun eða geðraskanir sem valda því að hún þarf talsverðan stuðning til þess að geta tekið fullan þátt í samfélaginu.  Geðröskunin er því þess eðlis að hún telst til fötlunar.

Geðfatlaður einstaklingur er með öðrum orðum fötluð manneskja á grundvelli geðröskunar.  En það skýrir ekki hvað fötlun þýðir né í raun hvað það er að vera geðfatlaður.

Fötlun í áranna rás

Hugtakið fötlun hefur tekið miklum breytingum í áranna rás. Allt fram til ársins 2000 var fötlun skilgreind út frá ástandi einstaklingsins, hvort sem það var líkamlegt eða andlegt, og metið var hvort það teldist eðlilegt.  Fólk með fötlun var þá gjarnan skilgreint út frá þeim líffræðilegu eða andlegu einkennum sem ollu viðkomandi fötlun. Viðhorfið gagnvart fötluðu fólki var þannig að það þyrfti að lækna og vernda í samfélagi manna.

Hagsmunasamtökum fatlaðs fólks hefur tekist að breyta þessu viðhorfi sem kallað er líffræðilegt eða læknisfræðilegt sjónarhorn fötlunar. Líffræðilega viðhorfið var gagnrýnt á grundvelli þess að ekki sé tekið mið af heildarmyndinni: Samspil samfélags og hins fatlaða einstaklings. Undir læknisfræðilega módelinu er samfélagið í kringum fatlað fólk og innviðir þess álitið óumbreytanlegt ástand. Samfélagsgerðin þyrfti samt ekki að vera þannig að hún tæki bara mið af fólki með engar skerðingar eða fatlanir. Mannlífið er jú miklu fjölbreyttara en svo og því á að taka mið af þeirri staðreynd og styðja fólk með skerðingar til fullrar þátttöku í samfélaginu.

Læknisfræðilega sjónarhornið var því endurskoðað og úr varð hið félagslega sjónarhorn, sjónarhorn sem tekur mið af samspili skerðingar einstaklings og samfélagsins í kringum hann.

Þróun félagsfæðilega sjónarhornsins

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gaf út skilgreiningu á fötlun árið 2001 sem byggir á félagslega sjónarhorninu til fötlunar. Nafnið á kerfinu mætti þýða sem Alþjóðlegt flokkunarkerfi á virkni, fötlun og heilsu (e. International Classification of Functioning, Disability and Health). Í því kerfi eru hugtökin athafnir (e. activity) og þátttaka (e. participation) notuð til þess að lýsa færni og skorti á færni á sama hátt. Sömuleiðis tekur kerfið mið af umhverfisþáttum og persónulegum aðstæðum hvers og eins.

Viðhorf til fötlunar hafa því breyst mjög mikið í áranna rás. Nú er litið svo á að hinu opinbera beri rík skylda til þess að bæta umhverfi og innviði samfélagsins til þess að skerðingar eða frávik einstaklinga hafi ekki jafn mikil áhrif á möguleika þeirra til virkrar þátttöku í samfélaginu. Í þessu felst meira en að bæta aðgengi að byggingum eða hjálpartækjum. Almennt viðhorf til fatlaðs fólks skiptir einnig mjög miklu máli og þekking og vitund um að fötlun sé afstætt hugtak sem feli í sér margar breytur.

Skilgreining samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra á fötluðu fólki

Mikið framfaraskerf var stigið á sviði réttindabaráttu fatlaðs fólks þegar Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks varð til árið 2007.  Samningurinn er mjög merkilegur mannréttindasáttmáli á marga vegu og þar má finna þessa skilgreiningu á fötluðu fólki:

„Til fatlaðs fólks teljast m.a. þeir sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun og sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.“

Þessi skilgreining endurspeglar félagslega sjónarhorn fötlunar. Samkvæmt þessari skilgreiningu er fatlað fólk einstaklingar sem verða fyrir ýmiss konar hindrunum í samfélaginu vegna þess að þeir búa við langvarandi skerðingar.

Skerðing einstaklingsins og samfélagið sem einstaklingurinn býr í virka saman þannig að um fötlun er að ræða. Áherslan er ekki lengur á að manneskja með skerðingu sé einhvers konar einstakt frávik frá hinu venjulega heldur er horft til þess að fólk með ákveðnar skerðingar geta átt erfiðara með að taka fullan þátt í samfélaginu án aðlögunar.

Fötlunarhugtakið á Íslandi: Misræmislíkanið

Á Íslandi og í Norðurlöndunum ríkir mjög svipað viðhorf gagnvart fötlunarhugtakinu og sjá má í samningi Sameinuðu þjóðanna. Viðhorf Norðurlandanna er gjarnan nefnt misræmislíkanið eða tengslalíkanið.  Hugmyndafræðin að baki misræmislíkansins var útskýrð á myndrænan hátt í skýrslu félagsmálaráðuneytisins (nú velferðarráðuneyti) frá árinu 2006: 

 Misræmis/tengslalíkanið

Misræmislíkanið felur í sér að misræmi sé milli einstaklingsins og samfélagsins vegna þess að umhverfi einstaklingsins geri ekki ráð fyrir óvenjulegu fólki. Það fer síðan eftir aðstæðum í umhverfi hvers og eins hvort að skerðing á færni verði að fötlun. Þessi sýn lítur líka á fötlun sem „afstætt hugtak sem verði til í samspili einstaklings og umhverfis.“ (áfangaskýrsla bls. 11).

Eins og sést á myndinni lítur norræna líkanið svo á að kröfur samfélagsins til fólks þurfi að koma til móts við einstaklingana sem í því búa. Hvernig ástandi sem það kann að vera í. Þetta á líka við um fólk með geðfatlanir. Það er að segja fólk sem er með geðraskanir sem skerða getu þess til þess að taka virkan þátt í samfélaginu.

Geðfötlun

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eru fatlaðir skilgreindir sem einstaklingar „[…] sem eru með langvarandi líkamlega, andlega eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun.“ Fólk með langvarandi geðraskanir fellur þannig vel inn í skilgreiningu samningsins á fötluðu fólki. Á Íslandi er að finna nokkrar opinberar skilgreiningar á geðfötlun.

 Skilgreining Velferðarráðuneytisins:

 „Með hugtakinu geðfötlun er átt við það ástand sem skapast við langvinna, alvarlega geðröskun og hefur í för með sér skerta færni til sjálfstæðrar búsetu, atvinnu eða virkrar þátttöku í samfélaginu að öðru leyti. Af því leiðir þörf fyrir fjölþætta þjónustu og stuðning sem ætla má að verði í mörgum tilvikum til langframa.“[1]

Af þessari skilgreiningu  má sjá að á Íslandi er tekið visst mið af félagslega sjónarhorninu. Til þess að teljast geðfatlaður samkvæmt ráðuneytinu þarf manneskja að hafa átt lengi við geðröskun að etja. Þetta ástand veldur því síðan að manneskjan á erfitt um vik að búa sjálfstætt, taka þátt í atvinnulífinu eða taka á annan hátt virkan þátt í samfélaginu. Af því leiðir að manneskjan þarf á fjölbreyttri þjónustu og stuðningi að halda, oft í lengri tíma, til þess að geta tekið virkan þátt í samfélaginu.

Lögin á Íslandi

Lög um málefni fatlaðs fólks

Í lögum um málefni fatlaðs fólks stendur að einstaklingar eigi rétt á stuðningi samkvæmt lögunum ef:

„…hann með andlega eða líkamlega fötlun og þarfnist sérstakrar þjónustu og stuðnings af þeim sökum. Hér er átt við þroskahömlun, geðfötlun, hreyfihömlun, sjón- og heyrnarskerðingu. Enn fremur getur fötlun verið afleiðing af langvarandi veikindum, svo og slysum.“

Lögin skilgreina ekki hvað felst nákvæmlega í fötlun eða geðfötlun. Það kemur þó fram í fyrstu grein laganna að við beitingu þeirra verði að styðjast við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Því má ganga út frá því að lögin taki mið af skilgreiningu samningsins af fötlun.

Lög um réttindagæslu fatlaðs fólks

Í lögum um réttindagæslu fatlaðs fólks er fötlun heldur ekki sérstaklega skilgreind. Vísað er í samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í lögunum og því má aftur gera ráð fyrir að stjórnvöld taki mið af skilgreiningu samningsins hvað varðar fatlað fólk.

Hver metur geðfötlun?

Geðlæknar, læknar og aðrir heilbrigðissérfræðingar meta hvort einstaklingur sé með geðröskun sem valdi áhrifum sem talist geta fötlun. Við matið notast þeir við fjöldann allan af klínískum verkfærum.

Greiningar á geðröskunum fara fram á heilsugæslustöðvum, sálfræðistofum, spítölum og hjá geðlæknum. Á Íslandi notast geðheilbrigðissérfræðingar meðal annars við tvo staðlaða gagnagrunna til þess að greina geðraskanir. Annar þeirra er frá Bandaríkjunum og er kallaður DSM V en hin heitir ICD-10 og er evrópskur gagnagrunnur. Auk þessara gagnagrunna notast geðheilbrigðisstarfsfólk Landsspítalans við svokallaðar klínískar leiðbeiningar til þess að greina vissar tegundir geðraskana.

ICD-10 gagnagrunnurinn á rafrænu formi

DSM V gagnagrunnurinn á rafrænu formi

Hér er hlekkur að klínískum leiðbeiningum sem Landlæknir hefur gefið út fyrir starfsfólk Landsspítalans:

Mat á hvort að sjúklingur teljist hættulegur sjálfum sér eða öðrum

Heimildir

[1] Þjónusta við geðfatlað fólk – Stefna og framkvæmdaáætlun vegna átaks félagsmálaráðuneytisins 2006-2010, Félagsmálaráðuneytið, október 2006. Bls. 24. Slóð: https://www.velferdarraduneyti.is/media/gedfatladir/Thjonusta_gedfatladir_neww_st.pdf (sótt 23.05.2016).

 

  • Var þetta efni ganglegt ?
  • Já!   Nei
Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt